Davíð og Ólafur Ragnar í ljósi fornsagna
Þeir Davíð Oddson og Ólafur Ragnar Grímsson minna mig á ýmsa íslenska fornmenn.
Í Njálu leika þeir Flosi og Kári mikið hlutverk. Þeir hötuðust árum saman og reyndu að koma hvor öðrum fyrir kattarnef. En sættust á gamals aldri og eyddu ellinni saman. Minna þeir ekki ögn á Davíð og Ólaf Ragnar? Í fornum annálum segir um Snorra Sturluson að hann hafi verið „…mikill höfðingi og slægvitur“. Sama má segja um þá Davíð og Ólaf Ragnar. Þeir eru kannski snjöllustu stjórnmálamenn sem Ísland hefur alið. Gallinn er sá að þeir hafa beitt fítonskrafti sínum og slægð sinni í oflitlum mæli til að efla almannahag, fremur hið gagnstæða.
Hvað um það, ekki verður af Davíð skafið að hann er hæfileikamaður, bráðgreindur, mikill húmoristi og vel pennafær. En hann er ekki síður einráður en Ólafur Ragnar. Sá síðarnefndi gerði forsetaembættið of valdamikið og hafði nánast eigin utanríkisstefnu. Hann átti mikinn þátt í skipan tveggja ríkisstjórna. Verði Davíð forseti eru miklar líkur á að hann hegði sér með svipuðum hætti, reyni að skipa ríkisstjórnir eftir eigin höfði. Hann væri vís með að fara á skjön við vinstristjórnir og ríkja yfir hægristjórnum. Auk þess er Davíð orðinn ansi gamall, kominn á þann aldur þar sem heilsan tekur að bresta. Þurfum við ekki forseta á besta aldri? Andri Snær er álitlegur kostur en hann er of ungur, hann má bíða. En Guðni er á réttum aldri, heilsuhraustur íþróttagarpur með meiru. Vitur og víðsýnn, alþýðlegur og höfðinglegur, rétti maðurinn í forsetaembættið.
En Davíð Oddsson þekkir ekki sinn vitjunartíma, gagnstætt Ólafi Ragnari. Reyndar er villandi að bera þá félaga saman við fornkappa. Þeir eru fremur orðnir fornminjar en fornkappar.
Athugasemdir