Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Berlín, 9 nóvember 1938 og 1989

Þann níunda nóvember árið 1938 lést þýski diplómatinn Ernst vom Rahm af sárum sem hann hlaut er Gyðingurinn  Herschel Grynszpan skaut hann í París. 

Joseph Goebbels lýsti því yfir að engum ætti að koma á óvart þótt þýskur almenningur tæki lögin í eigin hendur. Sönu nótt  réðust nasistar á guðshús og verslanir Gyðinga, glerbrotin úr gluggum þeirra hrundu eins og tár. Nóttin sú er kennd við kristal.   

Er ekki að orðlengja að nokkuð hundruð Gyðingar voru myrtir og tugir þúsunda sendir í fangabúðar. Þetta var auðvitað allt vel skipulagt af nasistabroddunum. Þeir lugu því að þetta væru sjálfsprottnar aðgerðir reiðra borgara enda voru engir borgarar lengur til í Þýskalandi, bara þý og þegnar.

Hið sama gilti um Austur-Þýskaland. Þann níunda nóvember árið 1989 sagði Günther Schabowski, fulltrúi ráðamanna, að Berlínarmúrinn eigi að opnast nú þegar, tafarlaust. Sennilega vegna misskilnings, stjórnin vildi fara öllu hægar í sakirnar, helst ekki opna múrinn.

Kannski var líka misskilningur á ferðinni þegar morðið á vom Rahm var annars vegar, kannski  var ástæðan fyrir morðinu kynferðisleg en ekki hefnd fyrir Gyðingaofsóknir. Sumir segja að þeir vom Rahm og Grynszpan hafi kynnst á bari samkynhneigðra.

Alla vega hefðu nasistarnir fyrr eða síðar ráðist á Gyðingana, myrðandi og stelandi. Og múrinn hefði fyrr eða síðar fallið, kommakerfið var komið að fótum fram.  

Engum blandast hugur um heimssögulega þýðingu múrhrunsins. Færri vita að kristalnóttin var örlaganótt, nú gat enginn siðmenntaður maður efast um að nasisminn væri villimannleg stefna. Bandaríkin kölluðu sendiherra sinn heim og fleiri ríki mótmæltu óhæfunni harðlega.

Níundi nóvember var örlagadagur síðustu aldar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni