Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

JBH: Tæpitungulaust (ritdómur)

Það er stund til allrar iðju, stund að vera persónulegur og stund að vera málefnalegur. Nú er málefnastund, ég tek rökin, ekki manninn, ræði yrðingarnar, ekki einkalífið,  stílinn, ekki slúðrið.  Rökin verða hvorki betri né verri þótt sá sem þau setur fram kynni að hafa hegðað sér ósæmilega.  

Þau rök  sem um ræðir má finna í bók eftir Jón Baldvin Hannibalsson, safn greina, fyrirlestra, ræðna, auk viðtala við höfund. Ritið  nefnist Tæpitungulaust. Lífsskoðun jafnaðarmanns, og er mikið að vöxtum,  rúmar 600 síður og aukið formála Ólafs Harðarsonar.

Það skiptist í sex hluta,  fyrsti hlutinn nefnist „Lífsskoðun jafnaðarmanns“, annar hluti „Í dagsins önn 2008-2018“, þriðji hlutinn „Ísland og Evrópa“, sá fjórði „Norræna módelið gegn ögrun nýfrjálshyggjunnar“, sá fimmti „Endatafl kalda stríðsins og hrun Sovétríkjannna“, og lokahlutinn „Á persónulegum nótum“. Heiti hlutanna segir mikið um viðfangsefni bókarinnar.

Jafnaðarstefnan

 Samt er í henni rauður þráður, eins og undirheiti bókarinnar ber vitni um,  jafnaðarstefnan og þá ekki síst meinleg örlög hennar á Íslandi. Aðrar pólitískar stefnur eru einnig í brennidepli, ekki síst kommúnisminn og frjálshyggjan.  Í ofan á lag kemur Ísafjörður nokkuð  við sögu, eins Eystrasaltslöndin, að Evrópusambandinu ógleymdu og því tengdu EES samningurinn. Einnig er höfundi tíðrætt um íslenska hag- og stjórnmálasögu, ekki síst hrunið og afleiðingar þess.  

Höfundur segir réttilega að klofningur vinstrimanna gerði veldi íhalds  og atvinnnurekenda mögulegt (bls. 55-62 og víðar). Kommarnir  áttu mikinn þátt í því, JBH nefnir dæmi um hvernig þeir lyftu íhaldinu  til æðstu valda á Ísafirði (bls. 53). En daður krata við íhaldið var líka vandi, hvað eftir annað mynduðu þeir ríkisstjórn með Sjálfsstæðisflokknum. JBH er ekki saklaus af því að hafa leitt Sjalla til æðstu valda á Fróni.

Hann mærir jafnaðarstefnu mjög og segir með miklum rétti að kratar séu ekki kreddumenn, gagnstætt kommúnistum og frjálshyggjumönnum (t.d. bls. 34). Jafnaðarmenn berjist fyrir velferðarríki en vilja ekki afnema markað og einkaframtak. Í stað þess  vilji  þeir   gera markaðinn að liprum þjóni,  ekki hörðum húsbónda. Hvergi í heiminum sé  eins auðvelt að stofna fyrirtæki en í hinni kratísku Danmörku, Bandaríkin eru í 38 sæti hvað þetta varðar (bls. 315) (BNA er ekki eins frjálshyggjuleg og sumir ætla).  Hvergi í heiminum séu lægri skattar en í Haítí, þar er allt í kaldakoli, gagnstætt háskattalöndum Norður-Evrópu (bls. 313).  Norræna velferðaríkið hafi ekki gert menn að vinnufælnum aumingjum eins og frjálshyggjumenn spáðu. Þvert á móti væri atvinnuþátttaka óvíða meiri og Norðurlönd í fremstu röð hvað samkeppnishæfi varðar (bls. 356). Ójafnaðarsamfélagið ameríska er ekki lengur land tækifæranna, heldur velferðarsamfélögin norrænu (t.d. bls. 425).  

Um leið viðurkennir JBH að velferðarríkin séu ekki hafin yfir gagnrýni, t.d. sé skattahlutfall í Svíaríki helst til hátt og of margir Svíar nenni ekki að mæta í vinnu því þeir fái borgað hvort sem er (bls. 366-367).

Í eldri greinum lagði höfundur áherslu á að frjálshyggjumenn hefðu á réttu að standa er varðar of mikla ríkisíhlutun í vestrænt efnahagslíf (bls 35 og víðar). Það má til sanns vegar færa en Vesturlönd eru ekki enn farin á hausinn þrátt fyrir aukna skattheimtu. Það var helst ofurmarkaðsvæðing fjármálakerfisins sem olli kreppu í þessum ríkjum fyrir rúmum áratug enda leggur Jón Baldvin  áherslu á það (t.d. 423-424).

Hann er ómyrkur í máli um ójafnaðarsamfélagið ameríska, þar hafi auðmenn og stórfyrirtæki sölsað völdin undir sig, Ísland sé á sömu leið (t.d. bls. 428-430).

Stóraukin  misdreifingu tekna og eigna  beinlínis ógni lýðræðinu og velferðarríkinu (bls. 313, 354-355 og víðar).  Hárrétt athugað,  enn hefur hann á réttu að standa þegar hann spyrðir frjálshyggju og kommúnisma saman (bls 65, 419 og víðar) (slíka spyrðingu framdi  ég fyrstur manna  í DV fyrir rúmum fjörutíu árum).  Kreddutrú og útópismi eru kennimörk beggja.

Spyrja má hvort Jón Baldvin sé ekki ögn of ógagnrýninn  á krataveldið í nágrannalöndum okkar. Vissulega lyftu norrænir  jafnaðarmenn Grettistaki og með því bætt hag alþýðu manna. Gallinn er sá að  flokkar þeirra voru (og eru jafnvel enn) mjög miðstýrðir og sumir krataforingjar voru nánast einræðisherrar. Það gildir ekki síst um hinn norska Einar Gerhardsen og Svíann  Tage Erlander, þann síðastnefnda mærir Jón Baldvin mjög (bls. 549-550). Enda var hann eins  og Gerhardsen mildur  og upplýstur hálf-einræðisherra.

Ekki má gleyma því að hvergi í heiminum er almenn velsæld eins mikil og í þessum löndum, eins og JBH leggur mikla áherslu á, t.d. á blaðsíðu 356 (skylt er að geta þess að Svisslendingum vegnar jafn vel og Norðurlandabúum en hafa ekki eiginlegt velferðarkerfi).

Þökk sé jafnaðarstefnunni var olíuauðurinn norski settur í sérstakan sjóð í opinberri eign en sjóðurinn ávaxtaður á markaði. Olíuhagkerfið norska er blandað hagkerfi eins og það gerist best.

En landbúnaðarpólitík Vesturlanda er dæmi um hið gagnstæða, mislukkaða  tilraun til að blanda einkaframtaki og ríkisstuðningu. Enda gerir JBH eymd hinnar íslensku landbúnaðarstefnu að umtalsefni. Hann leggur  þó of litla áherslu á að um heimsböl sé  að ræða, önnur þróuð ríki hafa því miður farið líkt að. Japanir og Norðmenn hafa gengið eins langt og við í landbúnaðardellunni. Því má ætla að lausnin sé fjölþjóðleg.

JBH skortir ekki  fjölþjóðahyggju, hann boðar ESB-aðild og ver EES-samninginn í þriðja hluta bókarinnar og víðar. Án þess að vera ógagnrýnin á Evrópusambandið, hann segir t.d. að evrusamstarfið sé mistök í núverandi mynd og að ESB vanti pólitíska forystu (bls.226-227, 386-387).

Hrun kommúnismans, Marx og marxisminn 

Höfundur er í essinu sínu þegar hann skrifar um hrun Sovétríkjanna og sjálfsstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða enda átti  hann vissa aðkomu að henni. Hvað sem öðru líður verður ekki af honum skafið að hann var einn örfárra ráðamanna á Vesturlöndum sem studdi sjálfsstæði Eystrasaltslandanna frá fyrstu stund. Og það með ráðum og dáð  (bls. 447-534).

JBH staðhæfir að Marx hefði alls ekki vænst þess að byltingin hæfist í Rússlandi. Þetta er ekki alls kostar rétt, á síðustu æviárum sínum tóku þeir Marx og Engels að velta fyrir sér möguleikanum á rússneskri byltingu sem gæti orðið kveikjan að heimsbyltingu (Marx og Engels 1882, Wittfogel 1960, bls. 487-508).

Karl Popper hefur því á röngu að standa þegar hann segir að rússneska byltingi hafi afsannað spásögn Marx um sósíalíska byltingu, hann hafi talið að hún hlyti að hefjast í þróuðum auðvaldsríkjum vestursins (Popper 1962/1, bls. 109 og víðar).

Reyndar talar JBH í ögn marxískum tóni þegar hann staðhæfir að bilið milli ríkra og fátækra þjóða aukist (t.d. bls. 324). Það er málum blandið, ýmislegt bendir til hins gagnstæða (sjá t.d. Rosling 2018).   

Þótt Jón Baldvin  sé hundkrítískur á ófétis Sovétkerfið þá ver hann alþjóðasinnann Karl Marx á vissan hátt. Að segja Marx ábyrgan fyrir fólskuverkum kommúnista sé eins og að gera Jesús Krist ábyrgan fyrir myrkraverkum kirkjunnar (bls. 63).

En hér skjöplast skýrum, margt bendir til þess að Marx verði að axla a.m.k. einhvern hluta ábyrgðarinnar. Pólski heimspekingurinn Leszek Kolakowski boðaði þá skoðun með eftirtektarverðum hætti. Þótt   Marx hafi lagt þunga áherslu á einstaklingseðli manna hafi hann  samt þráð að ríki, samfélag og einstaklingur yrðu eitt. Nær má geta hvort slíkt samfélag gæti rúmað stofnanir sem veittu hver öðrum aðhald, kæmu í veg fyrir valdníðslu. Því er engin furða þótt Kolakowski telji alræðisþátt í þessari meintu einingarhyggju, ef samfélag og ríki eru eitt þá er andóf gegn ríkisofbeldi illmöguleg.  Hann  bætir við  að  hin lenínísk-staliníska túlkun á marxismanum hafi verið möguleg og réttlætanleg þótt aðrar túlkanir væru jafnréttháar henni (Kolakowski 2005).

Vissulega má velta því fyrir sér hvort kenning Kolakowskis sé ekki nokkuð langsótt. En það er ekkert langsótt við þá staðreynd að  þeir Marx og Engels  sögðu að verkalýðurinn yrði að neyða "...lýðræðissinna að breyta í samræmi við frasa sína um hryðjuverk".  Í sama riti, ávarpi til bandalags kommúnista segja þeir áfram: "Verkalýðsflokkurinn á alls ekki að andæfa því sem sumum finnast vera yfirdrifnar hefndarráðstafanir gegn hötuðum einstaklingum og opinberum byggingum" (Marx og Engels 1850). Þeir hvöttu sem sagt til hryðjuverka og yfirgangs í nafni byltingarinnar, kommúnískir byltingarsinnar breyttu í samræmi við herhvöt þessa. 

En ekki má gleyma því að kenningar Marx hafa ekki bara helsisþátt heldur líka frelsisþátt. Marx og Engels segja beinum orðum að í sósíalismanum verði frjáls þróun einstaklingsins að vera forsenda frjálsrar þróunar einstaklingsins (Marx og Engels 2008, bls. 206). Auk heldur má enn læra af gagnrýni Marx á auðvaldið.

Það gildir um fleiri meginstefnur en marxismann að þær hafa tvíeðli, bjarta og dökka hlið. Frjálshyggjan hefur hvort tveggja, frelsis- og auðvaldshlið, jafnaðarstefnan frelsis- og skrifræðishlið. Best er að vera hentistefnumaður og taka það besta úr slíkum stefnum en auðga drjúgum skammti af vistspeki enda heimur á helvegi staddur.

Allra best er þó að gjalda varhug við hugmyndafræði-kerfunum. Þau liggja (vonandi) banaleguna nema vistspekin græna sem vonandi verður ekki heildrænt kreddukerfi. Eins og Bob Dylan syngur: „it is doom alone that counts“; dómsdagur einn skiptir máli. Og JBH tekur undir (t.d. bls. 525).

Hann  sýnir líka heilbrigða hentistefnuhneigð er hann bendir á að mismunandi þróunarmódel hafi hæft mismunandi samfélögum: „...sama skónúmer hæfir ekki öllum“ (bls. 363).   

Þjóðremban, alþjóðaremban og Íslandssagan

 Alþjóðaremba var vandamál á útrásarárunum, þjóðremba í dag. Fyrrnefnda remban hefur sótt innblástur í vinsælar sagnfræðikenningar um að eymd Íslendinga fyrr á öldum hafi ekki verið Dönum að kenna heldur illri íslenskri yfirstétt.

Jón Baldvin er sammála og segir að vistarbandið og annað slíkt hafi lengi komið í veg fyrir þéttbýlismyndun og verulega sjósókn Íslendinga. Danir hafi fremur reynt að stuðla að framförum en hitt (bls. 73).

Ég er annarrar hyggju, téð band gerði vissulega illt verra en var ekki meginorsakavaldur ósómans. Í fyrsta lagi var vistarband víða um lönd, t.d. í Bretlandi og í Danmörku (til 1854), án þess að það kæmi í veg fyrir bæjarmyndanir í þessum löndum.

Í öðru lagi   risu ekki bæir og borgir í Evrópu þessa tíma nema fyrir tilstuðlan konunga. Danakonungur stofnsetti fjölda bæja í Noregi og var í lófa lagið að gera slíkt hið sama á Fróni en lét það eiga sig. Bæta má við að ekki var hreinræktað vistarband á þjóðveldisöld þótt einhverjar hneigðir hafi verið í þá átt á tímabilum (um band þetta, sjá t.d.  Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason  2015, bls. 555-557).

Prófessor Jón Viðar Sigurðsson  staðhæfir   að tveir af hverjum þremur  bændum á Íslandi þjóðveldisaldarinnar hafi átt eigin jörð (Jón Viðar  2008). Samt risu engir bæir þá á ísaköldu landi. Ástæðan kann að vera sú að enginn  einn íslenskur höfðingi var nógu valdamikill til þess að stofnsetja bæi. Á sama tímaskeiði stofnsetti Ólafur  kyrri, Noregskonungur, borgina Björgvin.

Í þriðja lagi komst skipulegt vistarband á vegna dóms sem ríkisstjóri Dana, Diðrik Píning, kvað upp um 1490. Enda átti Danakonungur þá þegar drjúgan hluta íslenskra jarða og hefur haft hag af vistarbandi.  Í byrjun átjándu aldar var svo komið að fjórðungur jarðnæðis voru konungsjarðir, annar fjórðungur tilheyrði  kirkjunni og þar með konungsvaldinu. Konungur var þá langstærsti jarðeigandi landsins og hafði engan hag af afnámi vistarbands.

Í fjórða lagi skorti Íslendinga við, þeir höfðu ekki átt hafskip síðan á elleftu öld, nema dallinn sem Snorri Sturluson fékk í gjöf frá Skúla jarli. Ekki var hægt að smíð skip án viðar.  Stafkirkjur miðalda hurfu, nota þurfti viðinn, stafkirkjurnar norsku eru enn til enda nógur skógur í Noregi. Í viðarlausu landi fyrir daga nútímasamfélags  var mjög erfitt að smíða fiskibáta og reisa reisulegar byggingar í mögulegum borgum. Viðarleysið er ein af mörgum ástæðum fyrir lítilli sjósókn Íslendinga fyrr á öldum, þótt vistarband og ofríki stórbænda hafi líka haft sitt að segja. Án vistarbands hefði orðið einhver þéttbýlismyndun við sjávarsíðuna en tæpast borgarmyndun.

Við má bæta að Danakonungur kom á skipulegu stjórnkerfi og skrifræði í Noregi, ekki á Íslandi. Noregur móderniseraðist fyrir tilverknað konungs sem þurfti á norskum herafla og auðlindum að halda. Vegna aðgerðaleysis hans og afturhaldssemi innlendra stórbokka  hélt Ísland áfram að vera formóderni samfélag, miðaldaþjóðfélag.

Við súpum enn seyðið af síðborinni nútímavæðingu  sem Danakonungur er ekki saklaus af. Bókstaflega allt sem þjakar Ísland nútímans þjakar lönd sem nútímavæddust seint. Íslensk naflaskoðun hjálpar okkur ekki að greina þessi mein, ekki heldur sú alþjóðaremba sem vill hvítþvo Danakonunga.

Merkilegt nokk túlkar JBH þjóðveldissöguna með nokkuð hefðbundnum, þjóðernissinnuðum hætti. Forfeður vorir hafi yfirgefið Noreg til að komast undan konungsvaldinu (bls. 343-344). En þessi kenning er ættuð frá Snorra Sturlusyni, fyrri sagnfræðingar á borð við Ara fróða nefna hana ekki, Landnáma ekki heldur (t.d. Ari Þorgilsson 1121/1968, bls. 1-28).

Fáir nútímasagnfræðingar trúa kenningu Snorra, sjálfur held ég að ungir karlmenn sem ekki erfðu land og gátu því ekki gifst, hafi yfirgefið Noreg á hraðskreiðum víkingaskipum, rænt konum á Írlandi og farið til Íslands með fenginn.

Tæpast hefur verið eins mikil jöfnuður á fyrstu öldum Íslandsbyggðar eins og JBH virðist telja þótt sennilega hafi verið minni ójöfnuður þar en víðast í Evrópu. 

Jóni Baldvin til varnar skal nefnt að hann notar sögu þjóðveldsins til að varpa ljósi á viðburði samtímans, bæði hérlendis og erlendis. Stóraukin misskipting lífsgæða hafi orsakað ófrið sturlungaaldar og valdi nú sundurþykkju og spennu víða um lönd, ekki síst á Íslandi.

Sú samlíking hittir í mark, nú er nánast sturlungaöld í Chile, alþýðan rís gegn hinum fokríku í landi með ótrúlega misskiptingu auðs, „þökk“ sé frjálshyggjustefnu Pinochets.

 Stíllinn.

Bókin er fantavelskrifuð, rituð af  miklum þrótti og góðu valdi á íslensku máli. Það sést ekki síst í fyrstu grein bókarinnar, ræðu sem JBH hélt á flokksþingi Krata árið 1984. Hún hefst reyndar á helst til langri tilvitnun í Prédikarann um að öllu sé afmörkuð stund. En höfundur vinnur frábærlega vel úr henni og segir beinum orðum: „Ég treysti á dómgreind ykkar; ég treysti á ábyrgðartilfinningu ykkar, gagnvart þeim dýra arfi forfeðra og brautryðjenda, sem ykkur hefur verið falið að ávaxta;“ (bls. 20). 

Í grein frá 1982 ræðir hann eymd kommúnismans austræna og nefnir að fólk flýi lönd hans unnvörpum og bætir við: „Áhangendur þessa kerfis, hér á landi sem annars staðar, eru sjálfir flóttamenn frá eigin fortíð“ (bls. 28). Vel mælt og viturlega!  

Engu lakari er eftirfarandi staðhæfing: „Hjartað (tilfinningalífið) hvetur til dáða, heilinn (rökhugsunin) vísar veginn“ (bls. 204). Eða þessi: „Sá stjórnmálamaður, sem ekki er umdeildur,   er ekki einnar messu virði“ (bls. 94).

 Stundum kryddar JBH mál sitt með velsögðum sögum, nægir að nefna söguna um hann Eggja-Grím (bls. 68-69). Honum tekst að vera málefnalegur um leið og hann beitir mælskubrögðum. Það er ekki öllum gefið.

Veilur

 Taka fram að ekki er um ræða djúpar greiningar í bókinni enda leikurinn ekki til þess gerður. Hér talar álitsgjafi, ekki fræðimaður. Stundum fer hann fjári hratt yfir sögu, kemur með staðhæfingar án þess að geta heimilda.

Það gildir ekki síst um staðtölur ýmsar.  Til dæmis segir hann á blaðsíðu 207 án þess að nefna heimildir að á heimsvísu séu fjárhagslegar eignir fjórum sinnum meiri en heimsframleiðsla á vörum og þjónustu. Á blaðsíðu 328 má finna staðtölur um aukin hlut ríkisins í þjóðarframleiðslu víða um lönd en heimildir vantar.

Höfundur er á köflum ansi  endurtekningarsamur, t.d. er eitt og annað um norræna módelið í fyrsta hluta en svo er heill bálkur tileinkaður því. Á blaðsíðu 155 endurtekur hann það sem hann segir um téð módel á blaðsíðu 152, í hvor sinni greininni. Á blaðsíðu 156 er staðhæfing um Tryggingarstofnun ríkisins endurtekin, birtist fyrst á blaðsíðu 153.   Hér hefði mátt ritstýra,  örstuttu blaðagreinunum  er ofaukið enda hver annarri líkar. Betra hefði verið að vinna lengri ritgerðir  út þeim. Það hefði stytt bókina sem  er alltof löng, höfundur hefði getað sagt það sem honum lá á hjarta á þrjú hundruð síðum.

Eins og  áður segir   hefur JBH mjög gott vald á íslensku máli en einstaka sinnum bregst honum bogalistin.  Til dæmis fann ég eina mögulega málvillu  á blaðsíðu 190 stendur „maka krókinn“. Ég er alinn upp við að rétt sé að segja „mata krókinn“, þetta sé úr sjóaramáli, krókurinn er „mataður“ agni sem fiskunum er ætlað að gleypa.

Yfirleitt er höfundur afar fundvís á góðar líkingar en mér finnst klúður að segja að tímabil „sé í andarslitrunum“ (t.d. bls. 378). Í daglegri reynslu er tíminn eitthvað sem flýtur og mælt mál ber keim af því, það sem flýtur drepst ekki  en það getur hætt að fljóta. Þess vegna er eðlilegt að segja að tímabilum ljúki eða nota myndmál sem tengist því sem flýtur.

 Í ofan á lag ofnotar höfundur  „óásættanlegur“ (t.d. 223), oft má nota „viðunandi“ í staðinn.

Eina frönskuvillu má finna í bókinni,  skrifað stendur á blaðsíðu 278 „á la Russe“, rétt franska er  „à la Russe“.

Einstaka nöfn eru rangt skrifuð,  Milton Friedman er hér og hvar kallaður „Freedman“ (t.d. bls. 389). Það eru tvö l í seinna nafni félagsfræðingsins  Manuel Castells, ekki eitt eins og JBH skrifar. Hann segir ranglega að Castells sé Kani en hann er Spánverji  (bls. 81). Páfinn núverandi kallast „Frans“ á íslensku en JBH kallar hann „Francis“ að enskum sið (bls. 312 og víðar).

Lokaorð

 Jón Baldvin skrifar með þróttmiklum hætti um sín hugðarefni, stílfimin bregst honum sjaldan. Heldur ekki frásagnargáfan.

Hann ver jafnaðarstefnuna af nokkurri hind og vegur að andskotum hennar af talsverðri vígfimi.

Veilan er skortur á tilvísunum í heimildir og óþarlega margar endurtekningar.

Læt ég svo lokið þessu hjali  um skrudduna miklu, Tæpitungulaust.

Rit sem stuðst var við:

Ari fróði Þorgilsson (1121/1968): „Íslendingabók“, Íslenzk fornrit. 1 bindi. Reykjavík: Hið íslenzka fornritfélag, bls. 3-28.

Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason (2015): Íslandssaga A-Ö. Reykjavík: Vaka/Helgafell.

Jón Baldvin Hannibalsson (2019): Tæpitungulaust. Lífsskoðun jafnaðarmanns. Reykjavík:  HB av.

Jón Viðar Sigurðsson (2008): Det norrøne samfunn. Ósló: Pax forlag.

Leszek Kolakowski (2005): Main Currents of Marxism (þýðandi P.S. Falla). New York og London: W.W. Norton & Co (í þessari útgáfu má finna öll þrjú bindi verksins en þau komu út á áttunda áratugnum).

Karl Marx og Friedrich Engels (1850): "Address of the Central Committee to the Communist League", Marxist Archives (á netinu). 

Karl Marx og Friedrich Engels (1882): „The 1882 Russian Edition“ (formáli að rússneskri þýðingu á Kommúninstaávarpinu). https://www.marxists.org/archive/marx/works/1848/communist-manifesto/preface.htm#preface-1882. Sótt 31/10 2019.

Karl Marx og Friedrich Engels (2008): Kommúnistaávarpið (þýðandi Sverrir Kristjánsson). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

Karl R. Popper (1962/71):  The Open Society and its Enemies. 2 Hegel and Marx.  Princeton, N.J: Princeton Universtiy Press.

Hans Rosling (2018): Factfulness. (þýðandi Mette-Catherine Jahr). Ósló: Cappelen-Damm.  

Kurt Wittfogel (1960): „The Marxist View of Russian Society and Revolution“, World Politics, Vol 12, No 4 (júlí), bls. 487-508).

Um Ólaf kyrra og Björgvin https://no.wikipedia.org/wiki/Olav_Kyrre. Sótt 31/102019.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni