Völuspá DV, fynd dagsins

Fyrir þremur mánuðu síðan settist völva DV niður og sá inn í framtíðina.
Verst að það var framtíð úr einhverri hliðarvídd. En þetta er óneitanlega fyndin lesning:
Bjarni Benediktsson mun vaxa í hlutverki formanns Sjálfstæðisflokksins að sögn Völvunnar. Hann uppsker að hafa ekki tekið þátt í gífuryrðasamkeppni undanfarinna ára og þau mistök hans að skattyrðast undir lok síðasta árs við forseta Íslands draga ekki alvarlegan dilk á eftir sér. Bjarni skipar framtíðarnefnd á árinu sem hefur það markmið að uppfæra flokkinn og færa hann nær nútímanum. Sjálfstæðisflokkurinn 2.0.
Nefndinni tekst ágætlega til og fylgi við flokkinn eykst eftir því sem líður á árið – ekki í neinum stökkum en það er stígandi í kortunum.
Grundvallarbreytingarnar sem framtíðarnefndin leggur til eru að leggja grunn að sátt í málum sem hafa klofið þjóðina í herðar niður. Þar er sérstaklega sjávarútvegskerfið undir og átökin um nýtingu náttúru landsins. Þetta verður gott ár fyrir Bjarna.
Ég á erfitt með að gera upp við mig hvort besti parturinn úr spánni sé að Sigmundur Davíð verði vinsælli á árinu:
Sigmundur Davíð er ólíkindatól í stjórnmálum að sögn Völvu DV. Hún segir gagnrýni á hann verða síst minni á þessu ári en verið hefur undanfarið. Hann styrkir þó stöðu sína lítillega á árinu að sögn Völvu og er þar einkum að þakka afnámi hafta en í ljós kemur að sú áætlun stóðst og gott betur.
Þjóðin elskar forsætisráðherrann eða hatar og er síðarnefndi hópurinn stærri, en fer þó minnkandi. Sigmundur er einstaklega laginn að strjúka stjórnarandstöðunni öfugt og kveikja litla og stóra elda sem þarf að eyða orku í að slökkva. Hann gerir breytingar á ríkisstjórninni þegar komið er fram á haust.
Einum ráðherra er skipt út og einhver tilfærsla verður í verkaskipan.
Eða að aðalhneykslismálið sem skeki Íslandi komi frá njósnastarfsemi Pírata. (Þetta feitletraða með ráðherrann reyndist þó rétt.) Sennilega ruglaðist völvan í óskhyggju sinni á flokk, það kom vissulega upp hneykslismál tengt stórum leka sem tengdist fjölmörgum þekktum Íslendingum, en ...
Píratar missa flugið á árinu. Samt er fylgi þeirra umtalsvert og getur ráðið úrslitum um framhaldið í kosningum 2017. Skoðanakannanir eru fyrstu mánuði ársins á þeim nótum sem verið hefur, en þegar líður fram á vor kemur upp einhvers konar hneyksli sem meira að segja óánægjufylgið getur ekki sætt sig við. Birgitta heldur áfram að fljúga á Saga Class skoðanakannana þrátt fyrir þetta og sú sérkennilega staða er uppi að flokkur sem kennir sig við lögleysu er alvöru afl í landinu – samkvæmt skoðanakönnunum.
Tengsl Wikileaks-gengisins og Pírata verður ljósara og talsmenn samtakanna eru staðnir að verki hér á landi í tilraunum sínum við að brjótast inn í tölvukerfi hins opinbera. Þetta mál mun draga dilk á eftir sér fyrir margar þjóðþekktar persónur.
Athugasemdir