Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Við hugarfársins fjöll

Við hugarfársins fjöll

eða allt það sem þú vildir ekki vita um mörgæsir og hefðir aldrei átt að velta fyrir þér

 

„Ég held að mesta miskunn sem mannkyninu hafi verið sýnd er vangeta þess að setja alla vitneskju sína í samhengi. Við erum stödd á friðsælli eyju þekkingarleysis, í miðju svartahafi eilífðarinnar og okkur var ekki ætlað að ferðast langt þaðan. Vísindagreinar halda kappsamar hver í sína átt og hafa hingað til ekki verið okkur til mikilla ama, en dag einn munum við púsla saman brotakenndri þekkingu okkar og uppgötva hve veruleikinn er hræðilegur. Þá fyrst munum við sjá hve staða okkar er ógnvekjandi og við það missum við annað hvort vitið eða flýjum ljós opinberunarinnar aftur í öryggi og frið nýrrar myrkar aldar.“

Með þessum orðum hefst fyrsti hluti Kall Cthulhu eftir HP Lovecraft (í þýðingu Þorsteins Mar Gunnlaugssonar). Í verkum Lovecrafts er lögð áhersla á smæð mannsins, tilgangsleysi lífs hans og hversu lítils hann má sín gagnvart öflum sem eru handan hans skilnings. Og að einhverju leyti get ég ekki fengið mig til að vera ósammála honum. Væri ekki þægilegt að geta lokað augunum og látið eins og sólin muni aldrei deyja? Að gleyma því að óhjákvæmileg örlög veraldarinnar séu einhvers konar eyðing.

Krísa Lovecrafts byggir á þeim vísindauppgötvunum sem höfðu átt sér stað og voru að eiga sér stað í heiminum á hans tíma. Í byrjun tuttugustu aldar var það að renna upp fyrir vísindamönnum og síast út í popp-menningu samtímans að heimurinn væri margra milljarða ára gamall, að mannkynið hefði bara verið til brotabrot af brotabroti þess tíma. Ein klisjan í sögum Lovecrafts og annarra höfunda sem fást við kosmískan horror (eða hrylling af stjarnfræðilegri stærðargráðu) eru söguhetjurnar, sem oft eru fræðimenn eða vísindamenn af einhverjum toga, sem uppgötva eitthvað svo hryllilegt að þeir missa vitið. Það er kannski erfitt að ímynda sér það fyrir okkur sem hafa alist upp við staðreyndina að mannkynið sé einungis ein apategund af mörgum (sú með mesta verkfærafærni og þróuðustu samskiptin) en Darwin sjálfur átti í mikilli tilvistarkrísu yfir því sem hann uppgötvaði, og var í vafa hvort hann ætti að birta það sem hann hafði áttað sig á.

Við vitum að jörðin er einungis sandkorn í stórum geimi, sem snýst í kringum sól sem er bara ein af ótal stjörnum. Við vitum að við vorum ekki sköpuð af neinum í æðri tilgangi, (hvað merkir æðri tilgangi til að byrja með?) og við vitum að við erum með of stutta ævi til að upplifa og vita allt (sem betur fer). Við erum langt komin síðan forngrískir heimspekingar gátu lært alla þekkingu mannkyns utanbókar, og samt bara hálfnuð á þessari för. (Nema við, eða eitthvað, endum á að tortíma okkur sjálfum í fyrramálið, sem gæti auðvitað allt eins gerst í þessum tilviljanakennda heimi).

Og það er svo margt sem við þyrftum ekki að vita.

Mér var hugsað til Lovecraft og nóvellunar „At the mountains of madness“ sem Þorsteinn Mar þýddi svo listavel sem „Við hugarfársins fjöll“ nýlega þegar ég ráfaði í tilgangsleysi um vefinn og sankaði að mér þekkingu sem ég hefði betur aldrei lesið.

Í sögunni við hugarfársins fjöll segir frá jarðfræðingnum William Dyer sem fer til suðurheimskautslandsins og uppgötvar óhugnanlegar leifar forns kynþáttar. Þeir grafa verur út undan ísnum og í fyrstu halda þeir að þetta séu vel haldnir steingervingar en þegar verurnar kvikna til lífs og slátra rannsóknarhópnum renna tvær grímur á þá eftirlifandi. Sagan er sögð frá sjónarhóli William Dyers sem varar vísindamenn frá því að halda aftur að nýja fjallgarðinum sem hefur verið uppgötvaður. Þar er forn neðanjarðarborg þar sem tveggja metra háar en blindar albínóa-mörgæsir ráfa um og skrímslin hafa til undaneldis. Hin forni kynþáttur er stórhættulegur mannfólki en má þó muna fífil sinn fegurri, enda átt í stríðum við enn hrikalegri óvætti áður en mannkynið kom fram.

Árið 1911 átti sér stað atburður í líkingu við þá sem HP Lovecraft lýsir.

Dr. George Murray Levick kom til Antartíku ásamt öðrum breskum könnuðum til að rannsaka síðustu ókönnuðu heimsálfuna. Þetta voru eins og sögupersónur Lovecrafts teprulegir, efri stéttar karlmenn, hugrakkir könnuðir sem samt voru óviðbúnir þeim hrylling sem þeir áttu eftir að finna.

Afbrigðileg hegðun mörgæsa á skólagrísku

Dr. Levick fylgdist með hegðun Adelié mörgæsa. Í fyrstu var hann hissa á því að vændi viðgengist í dýraríkinu. Mikill skortur er á lausu grjóti á ísbreiðunni, en fuglarnir nota smásteina í hreiðurgerð. Þannig varð sú hefð til að karl mörgæsir gæfu kvendýrum stein áður en mökunardans þeirra hófst. Mörgæsir eru sætir fuglar og því er krúttlegt að sjá hvað hegðun þeirra líkist vestrænum bónorðum. Karldýrið otar grjóti að gæsinni með gogginum og beygir sig líkt og karlmaður sem krýpur á kné með trúlofunarhring. En lítt grunaði Dr. Levick að þessi krúttlega hegðun yrði misnotuð svo illilega af kvenkyninu.

Mörg kvendýr stálu grjóti með því að blekkja karldýrin með þykistu-mökunardansi. Karldýrin virtust þó ekki láta það á sig fá, virtust jafnvel njóta þess að inna greiðslu af hendi sem kvendýrin gátu svo nýtt í viðhald á fasteigninni. Ef mörgæsirnar hefðu látið það duga hefði Dr. Levick vafalaust andað léttar.

En því miður gat hinn fróðleiksþyrsti, fástíski fáráðlingur ekki látið þar við sitja. Hann þurfti að grafa dýpra. Stuttu síðar komst hann að því að nauðganir væru ekki ótíðar á meðal mörgæsa. Ungum var nauðgað. Kvendýrum var raðnauðgað. Jafnvel dauðar mörgæsir sluppu ekki undan ofsanum sem stýrði hegðun karl-mörgæsa. Mörgæsasamfélag var uppfullt af ofbeldi og misnotkun. (Líka samkynhneigð, en það er öllum sama um það í dag þótt Levick hafi átt erfitt með að melta þær upplýsingar líka).

Dr. Levick vissi hreinlega ekki hvað hann átti að gera við þessa þekkingu. Hann vissi aðeins að þær ættu ekkert erindi til annarra en hámenntaðra fræðimanna. Svo hann skrifaði allar athugasemdir sínar á grísku og vonaði síðan að hann yrði aldrei spurður út í athuganir sínar á mörgæsum í samkvæmi þegar hann sneri aftur til London.

Líkt og Levick veit ég ekki alveg hvað ég á að gera við þessar upplýsingar heldur. En ég veit að það er of seint að snúa aftur. Hvorki ég, Dr. Levick né mörgæsirnar endurheimtum sakleysi okkar svo glatt. Maðurinn er kominn af öpum og dag einn mun allt líf deyja. Mörgæsir nauðga mörgæsaungum. Mörgæsir nauðga dauðum mörgæsum. Mörgæsir beita hvor aðra ofbeldi. Það eru köngulóarherjir í suðurameríku!

Það er margt fleira sem ég hefði kosið að vita ekki ef ég hefði komist hjá því og Lovecraft myndi skilja hvað ég ætti við ef hann hefði haft aðgang að internetinu árið 1920. Ef ég hefði tímavél myndi ég heimsækja hann bara til að sýna honum myndbandið „Two girls, one cup.“ Síðan myndi ég sýna honum hryðjuverkamenn saga höfuðið af blaðamönnum á meðan þeir öskra á kameruna og útskýra loks fyrir honum að ekkert sé það viðbjóðslegt að ekki sé nú þegar búið að búa til klámmyndband upp úr því og skora á hann að gúggla því bara.

TPV-Total Perspective Vortex

En ef ég ætti virkilega að rugla Lovecraft í ríminu og ræna hann þeirri vitglóru sem enn væri eftir myndi ég lesa fyrir hann „The Hitchhiker´s guide to the galaxy.“

Ef Lovecraft sýndi okkur fram á hvað smæð okkar væri hryllileg, hvað líf væri tómlegt og hvað þekking okkar væri blessunarlega takmörkuð, þá sýndi Douglas Adams okkur fram á hvað öll þessi atriði, smæðin, tómleikinn og þekkingarskorturinn væri hlægilegur. Og í einum kafla nær hann að afbyggja nærri allan hrylling Lovecrafts.

Í bókinni Restaurant at the end of the world er Zaphod Beeblebrox troðið inn í pyntingartækið „Total Perspective Vortex.“ Þetta tól gefur fórnarlambi sínu augnabliks innsýn í óímyndanlegan óendanleika alheimsins og rænir það þar með geðheilsu sinni.

Beeblebrox reynist fyrsta greinda lífveran til að koma úr tækinu ósködduð, jafn-sannfærður og áður um mikilvægi sitt fyrir alheiminn og lái honum það hver sem vill. Eina leiðin til að lifa í sturluðum alheimi er að láta eins og allt það sem þú vilt ekki vita sé ekki raunverulega til. Það voru möguleikarnir sem Lovecraft bauð okkur:

annað hvort missum við vitið eða flýjum ljós opinberunarinnar aftur í öryggi og frið nýrrar myrkar aldar.“

Ég tel að meirihluti mannkyns hafi þegar gert upp hug sinn. Við munum af fúsum og frjálsum vilja loka háskólum, hætta dagblaðaútgáfu, kjósa Donald Trump og trúa síðan því sem við viljum trúa um stærð alheimsins, og síðast en ekki síst, kynhvöt mörgæsa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni