Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Úr kassanum og aftur inn

Úr kassanum og aftur inn

Félagsmiðlar hafa breytt því hvernig við meltum og veltum fyrir okkur list. Þegar þessi orð eru rituð eru ótal færslur um #nakinníkassa á twitter sem fanga pælingar heillar kynslóðar sem á að vera í prófum en er að fylgjast með nöktum fyrsta árs listaháskólanema í kassa. Flestir djóka, sumir hneykslast, alls kyns hugsanir streyma á tvítinu. Þessi viðbrögð eru mjög frábrugðin því sem durational listamenn fengu fyrir netið, en gerir listaverkin bara skemmtilegri fyrir vikið. Umræðan fer fram í beinni, alveg eins og gjörningurinn, og allir fylgjast með í gegnum netið. (Meira að segja þeir á kaffistofunni við hliðina á kassanum horfa frekar á vídjóið).

 

En svona til gamans skulum við rifja upp nokkrar innsetningar og gjörninga í svipuðum dúr:

Í fyrra dvaldi franski listamaðurinn Abraham Poincheval inni í uppstoppuðum birni í 14 daga. Það var í Musée de la chassé et nature 1-14 Apríl, en inni í birninum hafði listamaðurinn bækur sem hann gat lesið, vatn og mat. Safnið sem er með því skemmtilegra í Parísarborg inniheldur að mestu gömul málverk, byssur og uppstoppuð dýr, en fór í mikla endurnýjun lífdaga fyrir nokkrum árum þegar það tók að bjóða nútíma-listamönnum að koma inn og nýta safnkostinn til að skapa ný verk.
 

Marina Abramovic er óneitanlega drottning Endurance-listsköpunarinnar. Þetta verk frá árinu 2003, the House with an ocean view, virkar eflaust kunnuglegt á suma fyrir þær sakir að það kom fyrir í Sex and the city-þætti. 


Forsíðumynd þessa bloggs er þó fengin frá Belgíska listamanninum Jan Fabre sem ...

 

árið 1980 læsti sig inni í hvítu rými og teiknaði með kúlupennum í þrjá sólarhringa. Verkið nefndist „The Bic Art Room.“ 

 

 

David Blaine er frekar þekktur sem galdramaður og ætti því kannski ekki heima í svona upptalningu ... en wikipedia segir að hann sé endurance-artist og hví skyldi bloggið mitt andæfa al-netinu?
Frozen in Time er gjörningur þar sem David Blaine lokaði sjálfan sig inni í ísklump á Time Square í 63 klukkutíma. Áhugafólk um hægðir mun hafa gaman af því að vita að hann hafði rör sem leiddi út, (líka holu til að anda út um). 

Aðrir gjörningar eru í svipuðum anda. T.d. er einn þar sem hann lét grafa sig undir jörðu ... og ætli við verðum ekki að flokka Houdini með endurance-listamönnum líka þótt hugtakið sé yngra en hann sjálfur.

 

 

Tehching Hsieh er konungur endurance-verka ef Abramovic er drottningin. Hsieh gerði þrettán eins-árs gjörninga á tímabilinu 1978 til 1999 og hætti loks að gera list árið 2000. Virkilega sysifýskt verk.

 

 

Þetta þarf að útskýra í texta því vídjóið segir ekki alla söguna. Árið 1972 frá 15-29 Janúar lá Vito Acconci undir gólfinu í gallerí Sonnabend. Eða öllu heldur byggði hann nýtt viðargólf sem hann gat legið undir og rúnkað sér í átta tíma á hverjum degi. Í hátalarkerfi gallerísins mátti heyra Vito fantasera um gallerígestina sem gengu ofan á honum með orðum eins og: „You´re ramming your cock down into my ass“ eða „You´re pushing your cunt down over my face.“
Marina Abramovic endurgerði svo verkið síðar í Seven Easy Pieces.

 

Þessi upptalning gæti haldið áfram lengur. Nakinn í kassa er verk sem ég hef haft gaman af að fylgjast með og þá ekki síst umræðunni sem spinnst í kringum það, en það er fyrst og fremst viðbrögð samfélagsins og þeir þátttökumöguleikar (eða komment-möguleikar) sem netið býður upp á sem mér finnst spennandi. Á einungis örfáum dögum hefur Almar Atlason tekist að verða umtalaðasti íslenski listamaðurinn eða jafnvel umtalaðasti Íslendingurinn í dag. Og áður en hann kemur úr kassanum verðum við kannski sem samfélag í heild sinni búin að ræða verkið, taka afstöðu til þess og melta, áður en hann hefur svo mikið sem sagt eitt aukatekið orð.
 



 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni