Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Stundum erum við vond við okkur sjálf

Í grunnskóla lærði ég um vondu Danina sem bönnuðu Íslendingum að versla við útlendinga og mergsugu okkur á sama tíma og þeir seldu okkur myglað mjöl.

Síðar rann upp fyrir mér að málið væri aðeins flóknara en svo. Ekki það að Ísland hafi ekki verið nýlenda, ekki það að Danmörk átjándu aldar hafi ekki verið einræðisríki sem níddist á þegnum sínum, það er bara að hluti af kúguninni var innlend. Við vorum líka vond við okkur sjálf. Á meðal forfeðra okkar flestra eru bæði undirokaðir aumingjar og kúgarar. Það eru þeir sem þurftu að stela lambalæri til að bjarga fjölskyldum á vonarvöl, það eru þeir sem hýddu fólk fyrir að nota snærisbúta til að veiða fisk. Að hluta til gekk sú kúgun út á að tryggja ríkustu bændunum ódýrt vinnuafl, þeir kærðu sig ekki um að berjast við sjávarútveginn um það og gerðu sitt besta til að hindra að þéttbýli myndaðist. 

Vistarbandið gerðum við okkur sjálfum. Og Ísland var aldrei stéttlaust land, hvorki nú né þá.

Í dag búum við líka í flóknum heimi. Ódýrt vinnuafl er flutt til landsins svo að ekki þurfi að hækka laun. (Á sama tíma eru lægstlaunuðu verkamenn með helmingi hærri laun á Færeyjum og í Noregi). Atvinnulífið er líka í alls kyns höftum.

Það er eitthvað magnað við það að á sama tíma og ég lærði um einokunarverslunina var ég látinn þamba skólamjólk frá MS. Hver veit nema dag einn muni skólakrakkar læra um það fyrirtæki, hvernig einu sinni það hindraði alla aðra í að búa til góða mjólk og osta, á sama tíma og það seldi Íslendingum ofsykrað skyr. (Og olli jafnvel offitufaraldri í leiðinni).

Svo er það réttarkerfið sem virðist ávallt ná að refsa snærisþjófunum en sjaldan hinum.

Í öllu falli finnst mér við vera óþarflega vond við okkur sjálf og aðra. Mætti ekki drífa í því að hækka lágmarkslaun og persónuafslátt, og á sama tíma gera það auðveldara fyrir bændur að framleiða alls kyns mjólkurvörur? Ef það er eitthvað sem að búa í Frakklandi hefur kennt mér þá er það að góður ostur eru mannréttindi. Ég vil búa á Íslandi þar sem allir hafa efni á góðum ost. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni