Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Stjörnustríð!

Stjörnustríð!

Þetta blogg, þessi rýni inniheldur fullt af söguspillum. Sumir verða mjög reiðir og æstir ef þeir lesa eitthvað um myndina áður en þeir hafa séð hana og sjálfsagt að virða það. Þið hin sem hafið séð eða stendur á sama er velkomið að halda áfram að lesa.

 

Mátturinn sefur

 

Nýja stjörnustríðsmyndin Mátturinn rumskar (við þurfum að endurvekja þá hefð að þýða titla í auglýsingum er það ekki?) er miðlungs mynd sem verður verri því meir sem maður íhugar hana. Hún og þær framhaldsmyndir sem Disney hefur planað hefur tekist það sem hvorki formyndum George Lucas né tölvuteiknuðum viðbætum hans náðu að gera. Um leið og það var ljóst að sagan héldi áfram fór Star Wars af þeim stalli að vera nútíma goðsaga yfir í að vera framhaldssería í anda James Bond. M.ö.o. tókst mynd JJ Abrams að afhelga fyrstu myndirnar þrár. Opinbera formúluna og gera hana banal.

 

Það er afrek út af fyrir sig.

 

Svo ég ítreki frekar þá er Mátturinn rumskar ekki slæm mynd. Hún er miðlungs. Hún er ófrumleg (vísvitandi að sjálfsögðu). Hún snertir á öllum þeim punktum sem fyrsta mynd í stjörnustríðs þríleik á að gera. Það er gríðarstórt, plánetueyðandi gereyðingarvopn, við höfum vélmenni í leit að eiganda sínum á eyðimerkurplánetu með mikilvæg skilaboð (alveg eins og í fyrstu myndinni) og við höfum vonda kall með grímu og skerí rödd.

 

Sumum finnst kunnugleikinn þægilegur. Nokkrar kunnuglegar vísanir væru að sjálfsögðu í lagi ef myndin hefði eitthvað nýtt fram að færa, en því miður gerir hún það ekki. Stjörnu stríðs heimurinn er ekki orðinn forvitnilegri, athyglisverðari, dýnamískari eða betri á nokkurn hátt. Að því sögðu er óþokkinn Kylo Ren þokkalega skemmtilegur, maður kemst ekki hjá því að flissa pínulítið þegar hann tekur grímuna af sér, en það er ágæt tilbreyting að sjá öfgamann á gelgjunni (fær mann til að gera hugrenningartengsl við ISIS í leiðinni). Maður spyr sig samt hvort það hefði ekki verið hægt að láta hann mæta Han Solo í lok myndarinnar án þess að gera vísun í enn betri senu úr Empire Strikes Back þar sem Svarthöfði heggur höndina af Loga. Var ekki hægt að velja aðra sviðsmynd í stað þess að enn eina ferðina klippa/líma upp úr gömlu myndunum.

 

Svo er það Rey. Rey á flotta upphafssenu þegar hún klífur inn í yfirgefnu flaki Stjörnuspillis (Stardestroyer). Flestar senur með henni eru vel heppnaðar, en persónusköpunin þjáist alvarlega af „sterku-kvenpersónu-heilkenninu“ svokallaða. Logi geimgengill og Han Solo gerðu mörg mistök í myndunum en lærðu af því. Logi fer frá einum mentor til annars, sem kennir honum á máttinn. Rey er ekki bara góður flugmaður, með meiri þekkingu á vélum og geimskipum en Han Solo og Tóbakstugga samanlagt. Hún er líka strax í fyrstu myndinni komin með álíka vald á mættinum og Logi er með eftir að hafa eytt helmingi myndar í þjálfun hjá Yoda. Líkast til er það af því handritshöfundum finnst óþægilegt að hafa kvenpersónu sem þarf á því að vera björguð af karlpersónum, þeim finnst erfitt að skrifa díalóg þar sem hún lærir eitthvað af Han Solo eða öðrum karlmanni. Það er hægt að skrifa sig fram hjá svoleiðis og samt sýnt okkur kvenpersónu sem ekki er fullkomin alveg frá byrjun. Satt að segja er ég ekki viss um að Rey hafi nokkuð að læra frá Loga geimgengli í næstu mynd. (Og hvað var málið með það lokaskot? Hallærisleg kvikmyndataka).

 

Að því sögðu var flottur bardaginn hennar og Kylo. Stenst samanburð við aðra sverðabardaga úr myndunum. Geimskipabardaginn í lokasenunni var ekki eins góður, þar aftur vantaði einhvern frumleika eins og á svo mörgum öðrum stöðum í myndinni.

 

Það var engin sérstök hönnun sem stóð upp úr og var athyglisverð. Að því leytinu til eru kaflar 1-3 sem George Lucas hefði betur sleppt því að gera fyrir fimmtán árum, talsvert betri. Já. Ég skrifa það hér með, persónurnar í Phantom Menace eru álíka athyglisverðar og pappaspjöld, og hin ungi átta ára Anakin er jafn óþolandi og Jar Jar Binks, en Pod Race senan er flott, geimskipið sem persónurnar ferðast á til Coruscant flott, hallarborgin á Naboo skemmtilega býzönsk, það er fullt af búningum (og virkilega flott tónlist sem fylgir sæmilega töff óþokka Darth Maul … sem því miður var óathyglisverður út af glötuðu handriti).

En það var einhver sköpun í Phantom Menace. Að baki nýju myndinni er hins vegar ekkert nema vel útpæld fagmennska sem er í raun bara dulbúningur fyrir skort á hugrekki og … leti.

 

P.S.

Og svo má kvarta yfir því að það sé óþarflega mikið af geim-nasistum í þessari mynd. Það var alltaf þannig séð nasista-væb í illa Keisaraveldinu, en þetta var kannski full mikið.
Í öðru lagi, hvað er málið með allar tilviljanirnar sem þarf til að plottið hangi saman í myndinni. Það kviknar á R2D2 af því bara, Han Solo finnur fálkann akkúratt á réttu augnabliki til að bjarga hetjunum, og hvað svo sem er í gangi með baksöguna hennar Rey þá er ég ekki viss um að ég vilji vita það ef það er J.J. Abrams sem fann upp á henni. (Maðurinn sem færði okkur Lost þættina er maður sem kann að byrja sögur en hefur ekki hugmynd um hvernig hann á að enda þær).

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni