Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Selurinn Snorri-minningargrein

Selurinn Snorri-minningargrein

Selurinn Snorri er allur. Það er ekki Selurinn Snorri í allegórísku barnabókinni sem hvatti til viðnáms gegn nasistum og var bönnuð í Noregi. Sú bók lifir enn góðu lífi. Ég er að skrifa um selinn Snorra sem bjó í Húsdýragarðinum og sem ég man glögglega eftir að heimsækja þegar ég var í barnaskóla.

Í selsárum og mannsárum vorum við sennilega svipað gamlir. Hann syndandi í blárri lauginni, ég bankandi á glerið með hor rennandi úr nefinu.

Um andlát hans las ég á mbl.is og veit ekki hvort ég hafi verið að aðstoða við verkfallsbrot með því, en get þó lofað því að þetta blogg styður allar kröfur blaðamanna og telur þá jafnvel mega biðja um meira. Reyndar ættu blaðamenn moggans að krefjast þess að laun ritstjórans verði lækkuð í refsiskyni fyrir að styðja verkfallsbrot, en það er önnur saga.

Mig langar að eyða meiri orðum í selinn Snorra. Hann var fæddur 1989 og varð því þrítugur. Tilviljun örlaganna vildi svo til að hann var veiddur eins árs gamall og sleppt út í litla sundlaug í Laugardalnum. Selir í náttúrunni búa ekki í sundlaugum eða baðkörum, allra síst sundlaugum sem eru minni en stofur í sumum einbýlishúsum. Landselir geta orðið tveggja metra langir, spáum aðeins í því.

Snorri gat ekki talað svo hann gat ekki sagt okkur frá því hvað honum þótti um þessa fangavist. Var maturinn góður? Leið honum vel?

Selir eru vanir því að synda langar vegalengdir frjálsir, veiða sér fjölbreytta fæðu eins og litla þorska, sandkola, ufsa, alls kyns síli, og svo elska þeir smokkfiska. Ég skil seli ágætlega tel ég, verandi sá súshí-unnandi sem ég er, en selir hafa jafnvel synt langt upp ár til að veiða sér lax.

Það er í eðli þeirra, flakka frjálsir um miklar víðáttur, hvíla sig á klettaskerjum, róta með nefinu eftir strandbotninum og synda eins og þeim lystir.

Hvað fannst Snorra um að vera sviptur því?

Ég veit það ekki, en ég tel ágætis vísbendingu felast í því hvað einn af kópunum hans gerði um árið. Það rataði í fréttir í ágúst árið 2015 að selskópur hefði náð að skríða út úr Húsdýragarðinum inn á tjaldsvæði í Laugardalnum. Það er mikið afrek fyrir sel, jafnvel fullvaxta sel, því eins og við öll vitum hafa selir ekki fætur og ferðast því hægt yfir grjót, girðingar, malbik og gras.

Margir hrifust af þessu einstaka afreki unga kópsins sem stefndi rakleiðis þangað sem náttúran kallaði, út í hafið. Hefði hann náð þangað er nokkuð víst að hann hefði spjarað sig ágætlega. Þrátt fyrir að vera fæddur í fangavist þá hafði kópurinn það sem dýr í náttúrunni þurfa helst, baráttuvilja og hreysti.

Hvort faðir hans eftir meira en tveggja áratuga fangavist hefði getað veitt sér til matar er eitthvað sem ég þori ekki að hugleiða. En einhvern veginn hugsa ég að kópurinn hefði kannski náð því, kannski, fyrst hann var búinn að ná svona langt.

En selir eru ekki jafnokar manna á landi og um leið og fregnir af flakki kópsins bárust starfsfólki Húsdýragarðarins var búið að góma hann.

Kópurinn endaði sem refafóður tveimur dögum síðar.

Og nú er ég ekki einn af þeim sem hneykslar sig á því þegar dýragarðar fóðra ljón með gíraffakjöti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ljón ólíkt mér geta ekki lagt sér Oumph til munns (þó það sé svo líkt kjöti að ég finn ekki á því neinn mun), en ég get spurt spurninga um siðsemi dýragarða, og geri það. Refir borða kjöt. Selir borða fisk. Og þjóna mikilvægu hlutverki í lífríkinu.

En hvað er hlutverk þeirra í Húsdýragarðinum? Hvað er markmiðið með því að fanga landsel, dýr sem er í útrýmingarhættu við Íslandsstrendur og setja það í laug sem er svo lítil að við myndum ekki einu sinni kenna ungbarnasund í henni?

Auðvitað er gott að ungir krakkar geti komið og séð sel. Mér fannst það magnað á sínum tíma. En selir búa ekki í litlum laugum. Ef við ætlum að halda selum innilokuðum í þrjátíu ár, skuldum við þeim ekki að minnsta kosti að þeir fái undir sig almennilegt svæði til að hreyfa sig á, með einhverju sem líkist raunverulegum heimkynnum þeirra?

Dýr finna til. Fyrir nokkrum áratugum töldum við að pandabirnir gætu ekki fjölgað sér í dýragörðum. Síðan uppgötvaðist nánast fyrir tilviljun að með því að gefa pandabjörnum aðeins meira fermetrapláss að þeir fengu aftur kynhvötina. Pandabirnir sem eru alræmdir fyrir þessa eiginleika að ná ekki að fjölga sér eiga ekki í þessum vandræðum í þeim hálendissvæðum sem þeir koma frá. Staðreyndin er bara sú að þegar þeir eru lokaðir inni, okkur til skemmtunar og fróðleiks, þá verða þeir þunglyndir og latir, og þá gerist það sama og gerist oft hjá manneskjum sem líður illa. Þær missa kynhvötina.

Vandamál pöndunnar er það sama og milljóna annarra lífvera á þessari plánetu. Plássleysi. Þær hafa misst landflæmin sem þær eitt sinn ráfuðu um og þó svo búið sé að hanna handa þeim sérstök leiksvæði og bambusskóga í gerviheimi dýragarða þá sjá greindustu verurnar í gegnum blekkinguna og þjást.

Svo hvernig leið selinum Snorra. Hvatti hann kópana sína til að flýja? Vonaði hann að kópurinn sem slapp hefði náð til sjávar?

Það fáum við aldrei að vita. En við vitum samt eitt.

Við vitum það öll.

Þessi litla laug er dýraníð og við ættum ekki að láta það viðgangast lengur. Annað hvort ættum við að loka lauginni eða gefa selunum það pláss sem þeir þurfa til að vera hamingjusamir. Því ef við getum ekki gefið þeim viðunandi líf í fangavist, þá ættum við ekki að ræna þá frelsinu.

 

 

 

E.S. Myndir í grein eru wikimedia myndir og sýna ekki Snorra.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni