Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Refafóður

Refafóður

Ég nenni ekki að vera hræsnari. Stundum langar mig að vera grænmetisæta til að mótmæla hvernig matariðnaðurinn framleiðir kjöt. Það er nefnilega eitthvað dularfullt við einnar evru kjúklingabringu, alveg eins og maður ætti ekki að treysta fimm evru skyrtu í HM. Þá veit maður að framleiðsluaðstæður geta ekki verið réttar.

En ég nenni eiginlega ekki. Svo er ég heldur ekki viss hvort að lífrænn matur sé raunhæfur fyrir allan heiminn eða bara sport fyrir ríka vesturlandabúa. Fyrr eða síðar munum við öll á endanum borða skordýra-hrísgrjónastöppu í hvert mál því heimsmarkaðsverð á kjöt og fiski verður svo himinhátt, en þá verð ég vonandi nógu gamall til að finna ekki bragðmuninn.

Ætla að leyfa mér smá hræsni. Í staðinn fyrir að skrifa um hrikalegar aðstæður í kjúklingabúum eða svínabúum þá ætla ég að skrifa smá um húsdýragarðinn. Og öll sætu dýrin. Því það er svo þægilegt að vera reiður. Enda borða ég ekki selakjöt í hvert mál.

Refir eru sætir. Refi þarf að fóðra. Það er gaman að sjá refi.

Selir eru sætir. Seli þarf að fóðra. Selir þurfa stóra laug.

Það er í sjálfu sér ekkert að því að fóðra refi með sel. Það hneykslaði mig heldur ekki þegar ljón voru fóðruð á gíraffakjöti í dýragarðinum í Kaupmannahöfn. (Hvað í ósköpunum er náttúrulegra en ljón að éta gíraffa?)

Húsdýragarðurinn missti samt af góðu PR-tækifæri. Það sjá allir. Frægur selskópur. Hugsið bara út í hvítabjörninn Knút í Þýskalandi sem dró fólk inn.

Þegar Jón Gnarr bauð sig fram í borgarstjórn grínaðist hann með ísbirni í húsdýragarðinn. Ég hef séð hvítabirni þjást í dýragörðum erlendis. Þetta eru dýr sem þurfa gott pláss og lífið í dýragarði er erfitt fyrir þá. Það þarf að kæla þá á sumrin, þeir þurfa djúpa laug, þeir þurfa klettaskjól, mikið kjöt og jafnvel dýragarðir sem hafa haft efni á því hafa samt haft vansæla birni.

Engu að síður held ég að tækifæri séu í einhverju flottara en húsdýragarði, eins konar norður-dýragarði. Ekki með hvítabjörnum. Hreindýr, refir og selir eru alveg nóg. Það myndi þurfa stærri laug fyrir selina. En af hverju getum við ekki gefið þeim það? (Nóg af sundlaugum hér á landi).
Selskópa má nefnilega þjálfa í að veiða fisk. Lifandi fisk. Það væri sjónarspil fyrir gesti. Og stór PR-viðburður á haustin þegar selskópunum er sleppt út í náttúruna. Það myndi ná forsíðum blaða, vekja forvitni túrista, heilla krakkana og svo framvegis... það myndi slá rosa margar flugur. (Það er vel hægt og gert í dýragörðum í Finnlandi og Lettlandi t.d.).

Ég er ekki að segja að það sé siðferðislega rétt endilega að vera með dýragarð, en ef við á annað borð ætlum að hafa slíka stofnun í Reykjavík þá væri það rétti mátinn til að reka hana.

Og hvað með refafóðrið?

Arðurinn af miðasölunni sem nýja sela-laugin myndi skapa myndi hæglega duga fyrir lambalæri í hvert mál. Annað sætt dýr. Gómsætt.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni