Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Pólitískt hæli fyrir ökuþóra

Fyrir um mánuði síðan kom upp hneykslismál í Noregi. Þingkona hafði ofrukkað fyrir ferðakostnað.

"Við höfum skoðað þetta alvarlega mál. Við biðjum nú lögregluna um að hefja rannsókn til að fá á hreint hvað hefur gerst. Við viljum líka fá að vita hvort þetta sé refsivert, sagði Marianne Andreassen forstöðukona í stjórnsýsludeild norska Stórþingsins."

Ástæðan var sú að rökstuddur grunur var um að kjörinn fulltrúi, Hege Haukeland Liadal, hefði stundað fjárdrátt með því að ofrukka akstursgreiðslur. Svo virðist vera sem hún geti ekki gert grein fyrir nokkur þúsund kílómetrum og lögreglurannsókn sé nú í fullum gangi.

Það er svívirðilegt að fylgjast með svona ógeðfelldu einelti hjá nágrannaþjóð okkar hinumegin við Norður-Atlantshafið. Ég skora á Alþingi að tafarlaust veita Liadal stöðu flóttamanns á Íslandi og neita svo öllu framsali. Síðan legg ég til að henni verði veittur ríkisborgararéttur í framhaldinu, svo hún geti boðið sig fram til Alþingis og haldið áfram góðum störfum á sviði lagasetningar.

Auk þess legg ég til að Siðanefnd Alþingis fordæmi aðför systurstofnunar þess, norska Stórþingsins, að hinni vammlausu Hege Haukeland Liadal.

Og að lokum þá vil ég að siðanefnd hvetji sænska þjóðþingið til að biðja þingmennina fyrrverandi Michael Svensson og Stefan Jakobsson afsökunar. Þessir menn voru látnir segja af sér fyrir það að ofrukka fyrir ferðakostnað. Ég legg til að við veitum þeim fálkaorðu í sárabætur.

Eflaust ætti sænska þingið að ávíta þá kollega þeirra sem kröfðust afsagnar þeirra og köstuðu þannig rýrð á störf þingsins.

Skammist ykkar, svei attann. Það er hreinlega ógeðfellt að fylgjast með þessu. Að hugsa sér að fólk hafi verið látið segja af sér fyrir það eitt að taka leigubíl í partý til vinar síns og látið eins og það hafi verið starfskostnaður. Ísland, sem er jú land einkabílsins og einkaframtaksins, ætti að vera griðastaður fyrir þá sem voguðu sér að keyra. Verum skjól fyrir ökuþóra heimsins. Gerum Alþingi að pólitísku hæli fyrir þessar þjóðvegahetjur Norðurlanda, og sýnum þannig pólitískt hugrekki til að taka á erfiðu málunum.

Þessu ótengt ættum við að sjálfsögðu að leyfa Uber og Lyft á Íslandi, svo aðrir borgarar geti notið góðs af öllum akstrinum sem þingmenn og ráðherrar munu taka á sig tengt starfi sínu. Slá þannig tvær flugur í einu höggi.

E.S. ég er ekki með neinu móti að kasta rýrð á hina háæruverðugu stofnun, Alþingi með þessum skrifum, hún sér um það sjálf.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu