Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Frjálsir einstaklingar, Frjálsir líkamar

Frelsi, frelsi, frelsi. Eitt orð, margar merkingar.

Sumir vilja meina að maðurinn sé frjáls til að fjárfesta í vopnaframleiðslu-fyrirtækjum, en ekki frjáls til að kaupa sér bjór eftir klukkan sex á kvöldin.

Að hann sé frjáls til að reka manssalshringi svo lengi sem hann kalli þá starfsmannaleigur, en ekki frjáls til að sækja um atvinnu ef hann er flóttamaður.

Stundum fæ ég ógeð á orði sem nánast aldrei er notað til að tala um frelsi handa manneskjum til að anda heldur bara frelsi fyrirtækja til að menga.

En frelsi er samt mikilvægt orð, svo mikilvægt að maður verður stöðugt að endurheimta það úr klóm skaðlegrar markaðssetningar.

Fyrir ekki svo löngu var umræða á Alþingi um líffæragjafir. Nú er það komið í lög að gert er ráð fyrir því að við öll séum samþykk því að gefa líffæri ef við erum ekki lengur að nota þau. Það er vitaskuld hræðilegt þegar ung manneskja lætur lífið í slysförum, en það getur bjargað fleiri en einu mannslífi ef hjarta, lungu, lifur eða nýru komast ósködduð þaðan.

En þessi lög tryggja líka óskertan rétt okkar til að eiga okkur sjálf. Það er ekki hægt að þvinga konur eða karla til að gefa blóð, beinmerg eða líffæri séu þau mótfallin því, jafnvel þó það hafi engin áhrif á heiladauðan líkama þeirra og líffærin rotni engum til gagns. Ef við erum andvíg því að líkami okkar sé notaður, þá nær sá réttur okkar út fyrir gröf og dauða. Og að sjálfsögðu gildir hann bara enn sterkar meðan við erum enn á lífi.

Þessi yfirráð okkar yfir líkamanum sem hýsir okkur eru grundvallaratriði. Jafnmikið grundvallaratriði og réttur okkar til að trúa á eitthvað, eða sleppa því að trúa á eitthvað, að segja eitthvað eða sleppa því að segja það, og að fá okkur í kvöldmat það sem okkur sýnist. Líkamar okkar eru jafnvel heilagri en heilar okkar. Fólk reynir oft að troða skoðunum sínum upp á mig í sífellu, en ég hef aldrei lent í því að nokkur reyni að ryðjast inn til mín og þvinga mig til að borða eitthvað sem ég kæri mig ekki um.

(Ömmur fá að vísu undantekningu frá þessari reglu, ömmur hafa heilagan rétt sem er eldri en stjórnarskrár og mannréttindasáttmálar til að þvinga börn og barnabörn til að éta meira jafnvel þótt allir séu löngu orðnir pakksaddir. En ríkisstjórnir fá ekki þetta vald).

Meira að segja bólusetningar sem geta bjargað mannslífum verða seint þvingaðar upp á okkur, og það þarf sterk rök til að svipta fólk réttinum til að neita lyfjagjöf. Það er hápunktur forræðishyggjunar að þvinga lyf ofan í fólk og þarf oft dómsúrskurð til að framfylgja. 

En segjum sem svo að þvert á alla mannréttindasáttmála að Alþingi myndi samþykkja lög sem myndu ráðast á þennan mikilvæga sjálfsákvörðunarrétt. Segjum sem svo að dag einn banki upp á hjá mér fulltrúi frá heilbrigðisráðuneytinu og tilkynni mér að ég eigi að mæta upp á landspítala með þvagsýni og fara svo í ómskoðun og viðtal.

Nú? Af hverju í ósköpunum?

Það þarf að athuga hvort þú sért nógu heilbrigður til að gefa blóð, beinmerg eða líffæri.

Ég hef ekki áhuga á að gefa blóð, beinmerg eða líffæri.

Þú hefur ekkert val. Þetta er mánaðarleg skoðun og svo tekur ríkið ákvörðun. Blóðið, beinmergurinn og líffærin munu nýtast vel því við munum nota stofnfrumurnar í þeim til að framleiða fleiri Íslendinga svo við þurfum ekki að flytja inn erlent vinnuafl.

Afsakið, ertu geðbilaður eða eitthvað?

Þetta var samþykkt á alþingi og nú eiga allir fullvaxta karlmenn að gefa líkama sína til að tryggja að íslenska þjóðin sé nógu hraust og þurfi ekki að flytja inn erlent vinnuafl.

Eh, þetta er minn líkami.

Ekki segir alþingi það nú.

Bíddu er ekkert um það í stjórnarskránni.

Ekki þessari vinur. Á morgun klukkan 7:30 upp á landspítala. Ómskoðun, þvagsýni og svo viðtal.

Er einhver leið fyrir mig til að komast út úr þessu?

Þú getur auðvitað talað við nefndina.

Já, þá ætla ég að gera það.

Þú verður að hafa góðar ástæður. Það eru mannslíf í húfi.

Það sem þykja sjálfsögð réttindi fyrir karla þykja oft ekki sjálfsögð réttindi fyrir konur. Núna nýverið voru harðar deilur inn á þingi hversu langt réttur kvenna til að ráða yfir eigin líkama næðu, og margur frelsisriddarinn féll á þessu prófi. Það er kannski skiljanlegt, því ég þurfti eiginlega sjálfur að hugsa mig vel um hvað svipting á líkamlegu sjálfræði þýðir. Ég get auðvitað reynt að ímynda mér hvernig það er að vera þungaður. Ég get reynt að ímynda mér aðstæður þar sem ég myndi vilja enda þungunina. En það er erfitt. Eiginlega allar aðstæður þar sem utanaðkomandi aðilar myndu segja mér hvernig ég ætti að nýta líkama minn verða svo absúrd að þær eru eiginlega óhugsandi. Nema ég væri kona.

Fjármagnið má flæða óheft, það skal ekkert evrópskt eftirlit segja mér hversu mikið ég má menga andrúmsloftið, og það eru mannréttindabrot að ég fái ekki stæði við Laugarveginn. En Guð forði okkur frá því að kona krefjist þess að fá að ráða hvort hún gangi með barn.

Fáir hafa verið duglegri en sumir í þeirra hópi að meina börnum sem komin eru úr móðurkviði og á flótta undan stríðum eða öðrum hörmungum, frelsi, öryggi og menntun. Þetta eru alþjóðlegar línur sem við sjáum víða. Í Bandaríkjunum getur það auðveldlega farið saman að vera andvígur öllum fóstureyðingum, en á sama tíma séð ekkert að því að fædd börn séu lokuð inni í búrum, rifin úr faðmi foreldra sinna og neitað um öryggi,  húsaskjól og menntun. Í Evrópu eins og hérlendis eru það sömu hóparnir sem telja börn á flótta vera réttlaus á sama tíma og þau tala fyrir réttindum fósturvísa til að erfa frímerkjasöfn foreldra sinna.

Þarna er ég að hugsa til fyrrum dómsmálaráðherra meðal annars, en líka nokkra karla sem telja sig vera að ganga með dómsmálaráðherra-embætti í maganum. Þeir hafa oft talað um rétt kvenna til að selja kynlíf og þeirra til að kaupa það. Hvernig það skerði frelsi að maður þurfi að greiða skatta, eða jafnvel bara að maður geti ekki lagt bílnum sínum nákvæmlega þar sem manni sýnist í miðbænum. Ef þessir frelsisriddarar væru sjálfum sér samkvæmir, þá væri hægt að panta sér þungunarrof í gegnum bílalúgu á Laugarveginum og greiða með millifærslu frá leynilegum bankareikningi á Tortóla. Það væri sko frelsi.

En stundum er frelsi bara frelsi handa stórfyrirtækjum, ekki frelsi fyrir konu til að taka ákvörðun. Frelsi er eignarréttur, erfðaréttur og einkabíll, og frelsið endar þar sem leggöngin hefjast.

Samt eru konur líka menn, ólíkt fyrirtækjunum sem eru víst bara pappírar og stundum bara stafrænt fótspor, og menn eru líkamar. Frjálsir líkamar í frjálsu landi, með réttinn til að stofna mansalshringi ef þeir heita starfsmannaleigur, skrá trúarbrögð sín í gagnabankann sem stjórnvöld halda utan um trúarskoðanir, kaupa bjór ef hann er til sölu í ríkisbúðinni og leggja upp á gangstéttum úti um allan bæ ...

Og líka vera óléttar ef þeim sýnist eða bara ekki.

Er ekki frelsið yndislegt?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu