Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Meira um söfn

Meira um söfn

Við höfum ekki náttúruminjasafn á Íslandi. Nóg af náttúru samt. Það þarf ekki að vera stórfenglegt hús. Ekki einu sinni nýtt. Bara sæmilega veglegt til að það sé ekki kjánalegt. Eitthvað meira en geymslurými fyrir geirfugl og kristalla.

Jón Gnarr gerir mál úr þessu í grein sinni í fréttablaðinu þessa helgi. En það má þó segja að frjáls markaður hafi fyllt upp í eyðurnar að einhverju leiti. Við höfum hvalasöfn og safn tileinkað jarðfræði í Reykjavík. Svo ekki sé minnst á typpasafnið.

Það væri gaman samt að geta séð Geirfuglinn einhvers staðar í einhverju sem líkist ekki kompu. Það er hrikalega sorglegt að hugsa til þess að 2000 safnmunir liggja undir skemmdum því þeir eru í svo lélegri geymslu. Það er heil beinagrind af steypireyði sem bara liggur án þess að íslenskir skólakrakkar geti barið hana augum og séð hversu stórfenglegar verur búa í hafinu kringum landið.

Svo er hitt, það vantar enn þá einhvern stað til að sýna íslendingasögurnar. Ef ekki væri fyrir þær þá væri Ísland líkast til ekki sjálfstæð þjóð. Það er sérkennilegt að hafa barist fyrir að fá handritin sem Danir áttu að hafa stolið (varðveitt) aftur heim, til þess eins að gera svo ekkert með þau. Kannski ættum við bara að deila þeim með Noregi, Svíþjóð og Danmörku, sem myndu vafalaust gera þeim hærra undir höfði heldur en við? (Þetta er jú þeirra saga líka).

Ég meina það og ég meina það ekki. Með sömu röksemdafærslu mætti senda helstu málverk úr listaverkasögu Íslands út á þeim forsendum að ekki væri neinn staður fyrir varanlega listasögusýningu á landinu.

En það er alveg hægt að finna út úr þessu. Og það þarf ekki að vera dýrt. Náttúruminjasafn og Listasafn Íslands gætu t.d. fundið út úr því hvernig deila mætti gamla Landsbankahúsinu í miðbænum milli sín þannig að pláss væri fyrir geirfugla og gömul málverk.

Væri það ekki bara nokkuð töff?
 

P.S.

Hér er blogg um sama mál. Hér er greinin eftir Jón Gnarr.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni