Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Ljónin hans Bartoszeks

Ljónin hans Bartoszeks

Ég á stundum erfitt með að skilja hvers vegna ungur, greindur og frjálslyndur maður eins og Pawel Bartoszek kýs að vera í flokki með Hannesi Hólmstein, Davíði Oddsyni, Jóni Steinari Gunnlaugssyni og öðrum stjórnsömum íhaldsmönnum. Eitt virðist þó laða fólk að sjálfstæðisflokknum og það er sú sannfæring að þeir sterku hafi ávallt réttinn. Þessi sannfæring er oft dulin sem lagahyggja. Eitt skemmtilegasta dæmið um þennan þankagang er kómísk sannfæring Hannes Hólmsteins um það að óþokkarnir í myndinni Avatar séu frumbyggjar plánetunnar, en að innrásarliðið sem ætlar að umbreyta frumskógum Pandóru í námur séu í fullum rétti. Mjög kómísk grein.

 

Niðurstaðan í grein Hannesar byggir á þeirri grundvallarsannfæringu um að sá sterki eigi alltaf réttinn. Og sú hugsun kristallaðist ágætlega í grein Pawels í fréttablaðinu þessa helgi þar sem hann ákveður að verja tannlækninn sem veiddi ljónið Cecil. Pawel byrjar á því að gefa í skyn að allir sem fordæma tannlækninn séu í raun að afmennska hann. Fólk sem í skjóli fjöldans kalli blóðþyrst á ómennskar refsingar. Síðan snýr hann sér að lagalegum rökum, því allt sem er löglegt er að sjálfsögðu rétt:


Nokkrar staðreyndir. Ljón eru ekki flokkuð sem dýr í útrýmingarhættu, stofninn er sagður „viðkvæmur“. Það er löglegt að veiða ljón í Simbabve. Það er löglegt að veiða ljón með boga. Það er löglegt að ginna ljón af verndarsvæði með bráð. Það er löglegt að veiða fullvaxta karldýr, þar sem dráp þeirra hefur minnstu áhrifin á stærð stofnsins.

 

Í fyrsta lagi er ekki löglegt að ginna dýr af verndarsvæði.  Það er að minnsta kosti ekki í anda laganna því markmið með verndarsvæðum er jú að vernda dýr. (Aðstoðarmennirnir hafa verið kærðir fyrir glæpinn).

Í öðru lagi má vera að það sé ekki beinlínis bannað að drepa dýrin með boga, en það er heldur ekki bannað að nota skeið geri ég ráð fyrir. Ef tannlæknirinn hefði pyntað dýrið til dauða með skeið þá hefði hann væntanlega verið í fullum lagalegum rétti því það eru engin lög sem beinlínis banna það? (Við skulum hafa í huga að ljóninu blæddi hægt út yfir tveggja daga skeið einmitt af því að veiðimaðurinn valdi að nota boga í stað nútímalegra vopns).

Það virðist ekki skipta miklu máli. Í hugarheimi sjálfstæðismannsins er rétturinn alltaf hjá hinum sterka. Tannlæknirinn er víst manneskja og ljón er bara ljón.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni