Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Jólaleikritið í ár

Bjarni Ben er ekki svo vitlaus pólitíkus að hann ráðist á forseta Íslands fyrir það að deila mat út til fátækra. Sem formaður sjálfstæðisflokksins þarf hann ekki að hafa áhyggjur af því hvað hann skrifar á twitter, sérstaklega. Þetta er flokkur félagslegra Darwinista svo jafnvel þótt fjármálaráðherran hefði sagt að forsetinn væri að skemma genamengi Íslendinga í samstarfi við fjölskylduhjálpina hefði það engu breytt um fylgi hans. (Eða flokk hans).

Þetta var bara greiði. Ólafur Ragnar er íhaldsmaður sem stendur á móti stjórnarskrárbreytingum og á móti því að Íslendingar kjósi um aðildarumsókn (þjóðaratkvæðagreiðslur eiga bara að fara í gegnum heldri aðalsmenn á borð við hann sjálfan, honum hugnast lítið að í nýju stjórnarskránni geti þingmenn eða almenningur kallað eftir þeim). 

Þarna eru hann og ríkisstjórnin sammála. Og ríkisstjórnin vill gjarnan hafa Ólaf áfram. En það er bara verst hvað hún er óvinsæl, og tilhneiging Íslendinga til að kjósa forseta sem stjórnarandstöðu-afl.

Þess vegna þarf að setja upp leikrit. Og helst stilla því þannig að séu menn á móti Ólafi þá séu menn á móti jólagjöfum, öryrkjum og ellilífeyrisþegum.

En ég kvarta ekki. Það var vitað mál að Óli væri á leið í framboð. Og íslenskir forsetar ættu að vekja athygli á fátækt (og þótt menn séu seinir eftir 16 ára valdasetu með ótal kampavínsboðum með bankafólki þá er betra seint en aldrei).

Ég er aðallega þakklátur að frambjóðandinn hafi frekar valið að fókusera á fátækt heldur en hryðjuverkaógn í kosningabaráttunni sem er fram undan.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni