Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Góð sýning í ókláruðu húsi

Góð sýning í ókláruðu húsi

Ætla að leyfa upprunalegu færslunni að standa hér fyrir neðan ... en því miður stendur ekki til að reisa safn á þessum stað. Enginn virðist vita hvað eigi að reisa þarna eftir að hætt var við að reisa safn þarna. Mjög sérkennilegt. Húsið væri nefnilega eitt flottasta safn höfuðborgarsvæðisins ef það væri klárað.



Fór á Listeríu í gær, sýningin er haldin í ókláraða safnahúsinu á
Seltjarnarnesi og það er hægt að mæla með henni. Húsið er fallegt þótt það sé rétt svo fokhelt, en hráleikinn gerir það eiginlega skemmtilegra að heimsækja, sérstaklega aðvaranir um ójöfnur í gólfi og holur. Listamennirnir eru Finnbogi Pétursson, Ívar Valgarðsson, Svava Björnsdóttir, Kristinn E. Hrafnsson og Ragnar Axelsson.

 

Sýningin er vel heppnuð þótt sum verkana líði fyrir að vera of kunnugleg. Myndabækur RAX eru til sölu í öllum bókabúðum, oftast við hliðina á lundum og öðru túristatengdu, og þótt þær séu mjög áhrifamiklar þá hefur maður séð þær býsna oft. Sömuleiðis kemur Finnbogi ekki heldur á óvart hafi maður séð verkið hans í Hringur í Orkuhúsinu, en það er samt upplifun að koma niður í kjallarann og finna víbringinn. Verk þeirra tveggja passa afskaplega vel í kuldalegt og grátt rýmið, og reyndar verk hinna listamannana þriggja. Rýmið er eins og sniðið að Ívar Valgarðssyni og kúlum hans.

 

Safnahúsið á Seltjarnarnesi á eftir að verða flott bygging. Ég hafði reyndar ekki hugmynd um að það stæði til að byggja almennilegt sýningarpláss í Seltjarnarnesinu, hélt einhvern veginn að bæjarfélagið hefði ekki þannig menningarlegan metnað, en það kemur skemmtilega á óvart. Kannski að það gæti einhver sannfært bæjarstjórnina um að styrkja aftur leiklistarstarfsemi í gamla Norðurpólnum.

 

Mæli eindregið með sýningunni.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni