Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Góð ráð handa brátt fyrrum ráðherra

Ef ég væri Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. Úff. Þetta hljómar eins og leiðinleg byrjun á stílæfingu fyrir grunnskólanemendur. Ég myndi auðvitað segja af mér, en fyrst myndi ég viðurkenna að kennarar hafi meira vit á því hvernig eigi að kenna heldur en ráðherrar. Ég myndi hlusta á ráðgjöf þeirra, veita þeim aukið sjálfstæði og viðurkenna að hæfileikinn til að ná góðri niðurstöðu á Pisa-prófi eigi ekki að koma á undan lestraránægju.

 

En segjum sem svo að ég væri virkilega menntamálaráðherra. Ég myndi auðvitað fá mér átján ára viský í stofunni heima, setja einhvern píanókonsert á fóninn og kveikja mér í vindli. Síðan myndi ég bjarga pólitísku lífi mínu með því að panta flugmiða til Feneyja.

 

Eða það er það sem ég myndi ráðleggja honum ef ég væri fjölmiðlafulltrúinn hans. Já, mér finnst það eiginlega þægilegra. Af því að ég myndi aldrei leyfa einhverju orkufyrirtæki að eiga mig. Svo er líka að vera meðlimur í sjálfstæðisflokknum eins og að vera í útvíðum gallabuxum, frekar mikið 2007 og slæm hugmynd að ganga í árið 2015. En ef ég væri fjölmiðlafulltrúi Illuga myndi ég segja:
„Ok. Illugi, þú ert fokkd. Þú ættir að fara til Feneyja það er eina vitið. Svo lengi sem við erum að tala um það hvernig þú stofnaðir eignarhaldsfélag um íbúðina þína og seldir til félaga þíns þá ertu fokkd. Venjulegt fólk kemst ekki upp með svona búllsjitt, það þarf að borga af verðtryggðu lánunum sínum út í rauðan dauðann og þakka fyrir það ef barnabörnin þeirra sitja ekki uppi með reikninginn. Auðvitað hafa sjálfstæðismenn massíva þolinmæði og þeir elska menn sem ekki láta góða fólkið segja sér fyrir verkum. Þeim finnst bara töff að vera hrokafullur og frekur. Sagði ekki hann Dabbi einu sinni að ef maður misnotaði ekki aðstöðu sína þá væri maður að misnota aðstöðu sína? Svo láttu ráðuneytið borga ferð til Feneyja.“

„Snæbjörn, hvað ertu að rugla,“ svarar Illugi. „Þú færð góðan pening fyrir að vera fjölmiðlafulltrúi.“

„Bíddu. Sko þú ert í Árna Johnsen stöðu núna. Sjálfstæðismenn hafa ekkert á móti því að menn steli frá þjóðleikhúsinu og noti tékkahefti annarra manna til að reisa sér glæsihýsi í Vestmanneyjum. Þeir fyrirgefa allt. En þeir leyfa mönnum ekki að ógna fylginu. En ef það kemst upp um mann og skoðanakannanir sýna flokk í 20% fylgi mun fyrr eða síðar koma að hreinsun. Fyndið að bæði þú og Árni séuð í veseni af því þið búið í flottara húsi en þið hafið efni á.“

„Ekki líkja mér við Árna Johnsen. Ég kann að spila á flygil. Hann ræður ekki einu sinni við Bubba-lög.“ Illugi starir ofan í viskýglasið. Drepur á vindlingnum og lítur út um gluggann. Þessi íbúð var andskoti dýr. Djöfulsins helvíti, kannski hefði ég bara átt að gera eins og venjulegt fólk, selja hana og flytja í minna húsnæði?

Hann virðir ráðgjafann fyrir sér. Skeggjaður og síðhærður náungi. Virðist langa til að vera hipster en gengur einhvern veginn ekki alveg nógu langt til að það virki.

„Ok, Snæbjörn út með það. Hvað í fjandanum hefur það að gera með að ég fari til Feneyja?

„Illugi minn. Hefurðu ekki séð Wag The Dog? Það þarf stríð svo að fólk gleymi því að þú sért í vasanum á alþjóðlegu orkufyrirtæki. Og þú ert heppinn, það er búið að lýsa stríði á hendur okkur.“ Ráðgjafinn er yfirvegaður þegar hann opnar næstdýrustu viskýflöskuna við borðið og hellir sér. Hann tekur sér kúnstpásu sem ergir ráðherrann. En að lokum: 

„Þú þarft að skipta um umræðuefni. Hvað sem þú ert að gera í lestrarmálum er ekki að skila sér. Þú þarft að hugsa stærra. Þú ferð til Ítalíu sem ráðherra og krefst þess að borgaryfirvöld opni fyrir þér íslenska skálann. Og það verður það eina sem fólk mun tala um. Meira að segja listamennirnir sem hata þessa ríkisstjórn munu gretta sig og segja að þarna sért þú að berjast fyrir tjáningarfrelsinu og eftir það mun engin nema kannski Stundin vera að pæla í Orku-málinu. Þú munt vera álitinn djarfur. En pointið er að þú færð þá til að tala um eitthvað annað og hörðustu gagnrýnendur þínir munu fara með þér í lið.“

„Ég skil hvað þú meinar. En þetta er samt riský fyrir mig. Ég meina ef það er eitthvað sem hægrið hatar meira en listunnendur þá eru það múslima-sympatíserar.“

„Illugi, við erum ekki að tala um að reisa mosku á Þingvöllum. Þú ert bara að kitla þjóðernisstoltið. Við viljum gjarnan leika hetjur og þykjast ætla að taka á móti hálfu Sýrlandi ef það kemur okkur í alþjóða-fjölmiðla, en við meinum ekkert með því. Þetta verður eins og hvalveiðarnar. Þú ert að móðgast fyrir hönd Íslands, skapa athygli í heimspressunni og fyrst og fremst verja stolt Íslands. Já, við hötum þessa fokking lattélepjandi Seyðfirðinga ókey, en þetta eru okkar lúserar og það erum við sem spörkum í magann á þeim meðan þeir liggja en ekki einhverjir ítalskir lúsablesar.“

Illugi kinkar kolli. Hann veit að hann er desperat og þarf að skipta um umræðuefni. Þegar fólk hugsar Illugi hugsar það spilling. Af hverju ekki frekar að láta það hugsa um Feneyjatvíæringinn? Og svo er líka tiltölulega hlýtt í Feneyjum á þessum tíma árs.

Þegar ráðherra les þetta blogg hugsar hann með sér: Þessi Snæbjörn er bara vitlaus bloggari, en ef pólitísk framtíð mín er að fuðra upp hví ekki að láta hana enda með glæsibrag? Ég gæti farið til Feneyja og varið málfrelsið. Sagt: Hey, þið getið ekki lokað skálanum okkar. Þið mynduð ekki voga ykkur að loka franska skálanum, breska skálanum, ísraelska eða þýska skálanum. Ekki láta ykkur detta í hug að við leyfum ykkur að valta svona yfir okkur. Við Íslendingar stöndum saman og auðvitað ætlum við ekki að leyfa mosku í Reykjavík frekar en þið ætlið að leyfa mosku í Feneyjum en fjandinn hafi það, þið getið ekki bara lokað skálanum okkar. Við erum þjóð á meðal þjóða, við erum í Nato, EES, Sameinuðu þjóðunum, strákarnir okkar komust á Evrópumótið í Fótbolta, við höfum tvisvar í röð orðið í öðru sæti í Eurovision, við áttum sterkasta mann í heimi og fallegustu konu, hvalurinn í Free Willy kom úr Sædýrasafninu í Hafnarfirði, Halldór Laxness fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum og þótt að CIA í samstarfi við Bjarna Benediktsson eldri hefði kostað hann allt verðlaunaféð þá höfum við sjálfstæðismenn samt lesið bækurnar hans, klappað okkur á bakið sem bókmenntaþjóð, sem listaþjóð, sem menningarþjóð, þannig að andskotinn hafi það, þið komið ekki svona fram við okkur.

Þið komið ekki svona fram við okkur.

Við látum ekki flugvallavini í Feneyjum hrækja framan í íslensku þjóðina og tökum því þegjandi, Illugi, við förum út og björgum pólitísku lífi okkar.

 

Eða þannig. Líklega nær ekkert að bjarga pólitísku lífi þínu núna Illugi. Segðu bara af þér og gerðu eitthvað annað. Það er lítið mál.

But at least go out with style. Þú gætir náð að afreka eitthvað á stuttri tíð þinni sem ráðherra.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni