Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Gerviskegg á bráðamóttökunni

Ég fékk fyrir mistök drög af fréttatilkynningu send á mig í tölvupósti frá innanríkismálaráðuneytinu:

Innanríkismálaráðherra kynnir:

Gerviskegg inn á bráðamóttökur! Frá og með deginum í dag munu fórnarlömb kynferðisofbeldis öll sem eitt fá úthlutað gerviskeggi þegar þau koma inn. Gerviskeggið mun vera þess eðlis að það haldist límt í rúmlega hálft ár eða þann tíma sem áætlað er að málið fari í gegnum héraðsdómstól. Gerist þess þörf má sækja um úthlutun á nýju gerviskeggi, en sjálfkrafa verður nýju skeggi úthlutað fari málið fyrir hæstarétt.

Gerviskeggið mun gera viðkomandi kleift að segja frá líkamsárásum, lyfjabyrlun eða jafnvel ákáfi og þuklun án þess að orð manns séu dregin í efa. Með gerviskegginu munu mál ekki firnast á einni nóttu, með gerviskegginu er hægt að koma jafnvel einu og hálfu ári síðar og segja frá því þegar maður kinkaði kolli en var of drukkinn til að raunverulega geta gefið samþykki, og mun sú útskýring duga frammi fyrir öðru skeggjuðu fólki. Gerviskeggið er tímabær nýjung fyrir dómskerfi Íslands sem mun tryggja það að bætur berist á tíma, refsingar gerenda verði ekki lágmarkaðar og að síðast en ekki síst, ekki verði reynt að finna sök hjá þolandanum.

Sérfræðingar hafa komist að þeirri niðurstöðu að fólk með skeggrót eigi oft erfitt með að setja sig í aðstæður þeirra sem ekki hafi skeggrót. Til eru undantekningar á reglunni, tekið hefur verið eftir viðhorfsbreytingum hjá skeggjuðum einstaklingum sem eignast varanlega skegglaus afkvæmi, en engu að síður má fullyrða að samúð, þolinmæði og skilningur aukist um nærri 150% með tilkomu gerviskeggisins.

Reynist dreifing gerviskeggja á bráðamóttökunni árangursrík þannig að þolendur kynferðisafbrota verði teknir jafn alvarlega óháð kyni mun innanríkismálaráðuneytið íhuga úthlutun blárra augnlinsa handa hælisleitendum. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni