Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Gagnslaus og frek

Íslensk útgerðarelíta vill að þú greiðir fyrir olíuna á bátnum og skipið sjálft með launum þínum. En auðvitað eignastu ekkert í dallinum.

Íslensk útgerðarelíta vill að þú gefir fiskinn í sjónum. En hún ætlar ekki að gefa tilbaka í samfélagið neitt. Ekki greiða skatta til að reka skóla, eða spítala. Ekki vill hún heldur greiða gjöld til að byggja hafnargarða eða vegi sem hún þarf til að reka sig.

Íslensk útgerðarelíta fær yfirleitt allt sem hún vill. Afslátt af sköttum, góða aðstöðu og vinnuafl sem er menntað, með heilbrigðisþjónustu og gott vinnusiðferði. Íslenskt starfsfólk er hverrar norskrar krónu virði og eftirsótt víða um heim. Um sumum finnst allt of dýru verði keypt.

Núna vill útgerðarelítan að Akranes reisi nýjan hafnargarð og borgi fyrir það, en ætlar sjálf ekki að leggja neitt til og ekki greiða neinum hærri laun. Nema stjórnendum, þeir fá 33% hækkun og HB Grandi fær margra milljarða arð.

En hún vill alltaf meira. Sjálf hefur hún ekkert fram að færa, og hefur fært allt sitt yfir á Tortóla. Veðjar gegn Íslandi og Íslendingum. Hún er ekki með þér í liði. En hún krefst þess samt að þú spilir með sér á vellinum og skorir sjálfsmörk því ekki nennir hún að standa í þessu, hún er að hitta viðskiptalögfræðinginn sinn í Lúxemborg og má ekki vera að þessu.

Sjómannaverkfallið var fínt, en um leið og það kom loðna inn í myndina þurfti að slútta partýinu. Og það var gert á vafasaman máta, við vitum ekkert um hvort kosninganiðurstaðan sé rétt en framkvæmd var ekki samkvæmt lögum og reglum. Með herkjum tókst að fá útgerðina til að greiða vinnufatnað og matarpening, en krafan var fyrst og fremst að ríkið ætti að greiða það. Eins og það dygði ekki til að ríkið og sveitarfélög reistu hafnirnar, leggðu vegina, veittu skatta-afslætti, sæju um landhelgisgæslu og sjúkraflug, svo ekki sé talað um allar rannsóknir á sjónum, alla viðskiptasamninga við útlönd, og svo sjálfa krónuna sem verður ávallt felld þegar útgerðinni hentar.

Nú vilja sjálfstæðismenn fella aftur niður veiðigjöld. Kalla það aðgerð til að tryggja atvinnuöryggi, eins og veiðigjöldin séu ekki þau sömu úti um allt land. Svo vilja þeir veita skatta-afslátt fyrir styrki til stjórnmálaflokka. Þá mun það nú loksins borga sig fyrir útgerðina að styrkja þá, ekki nóg með stjórnmálamennirnir vinni fyrir þig, þú sparar meira að segja pening með því að múta þeim.

Við þurfum sem betur fer ekkert á þessu fólki að halda. Fiskurinn er sameign þjóðarinnar, hefur alltaf verið og mun alltaf vera. Og sé hægt að sigrast á Bretunum þá hlýtur að vera hægt að losna við þessa höfuð-lús.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni