Fyrir og eftir Sigmund Davíð

Áður en stóra Tortóla-hneykslismálið kom fram ætlaði ég að skrifa stutt blogg og spyrja eftirfarandi spurninga:
Værir þú kæri lesandi forsætisráðherra, og aðalsjúkrahús landsins væri að molna niður hvað myndir þú gera?
Myndir þú,
A) koma framkvæmdum af stað sem fyrst.
B) geyma að gera nokkuð í málinu þar til ár væri í kosningar og koma svo með yfirlýsingar um að spítalinn væri á röngum stað og það þyrfti að byrja upp á nýtt að teikna og skipuleggja nýja sjúkrahúsið?
Held að flestir myndu velja A, í stað B, en af einhverjum ástæðum kaus Sigmundur að byrja núna. Kannski af því hann vildi gera spítalann að kosningamáli í stað þess að einfaldlega gera hann að forgangsatriði um leið og hann yrði forsætisráðherra.
Aðalforgangsatriði Sigmundar hefur verið að taka yfir þjóðminjasafnið og endurvekja vofu Guðjóns Samúelssonar. Hann hefur ekkert gert í að leita að framtíðarlausnum í myntmálum, ekkert gert í húsnæðiskrísunni sem framsókn skapaði hjá ungu fólki, ekkert gert í landspítala-málum annað en að tefja fyrir uppbyggingu heilbrigðiskerfisins.
Segjum sem svo að þú værir forsætisráðherra og teldir að nýji spítalinn ætti ekki að rísa við Hringbraut. Það er sjónarmið sem ég hef fullan skilning á. Mér finnst hæpið að reisa spítala þar, (ekki bara út af þrengslum, heldur líka af því að til að þetta gangi upp þarf að bora göng í gegnum öskjuhlíðina svo umferð komist hratt og örugglega að spítalanum).
Miðað við að bygging nýja spítalans hefur þegar tafist í nærri áratug, þá væri eðlilegt að byrja á því sem forsætisráðherra á fyrsta degi að tjá þessar efasemdir. Að koma því í gegn strax, hvar spítalinn ætti að rísa svo það megi hefja framkvæmdir.
Þess í stað hefur SDG setið hjá á meðan tvö þing hafa staðfest að reisa eigi við Hringbraut.
En eins og þið lesið núna er þessi pistill úreltur. Það er hæpið að Sigmundur sitji mikið lengur sem forsætisráðherra, og hæpið að hann komi nokkru í verk meðan hann rígheldur í ráðherrastólinn. (Hið kaldhæðnislega er þó að meðan við ræðum vanhæfi hans og bíðum vantraustsyfirlýsingar er ekkert að gerast í uppbyggingu landspítalans svo hægt sé að geyma sjúklinga annars staðar en í bílskúr eða framm á gangi).
Að sumu leyti hefur forsætisráðherratíð hans minnt svolítið á þegar Sjálfstæðisflokkurinn í örvæntingarfullri tilraun til að halda völdum í borginni gerði Ólaf F. að borgarstjóra. (Nei, ég er ekki að segja að Sigmundur eigi við geðsjúkdóm að stríða, þótt Kári Stefáns sé búinn að ýja að því í grein, ég er að segja að Sjálfstæðismenn hafa aftur leitt til valda sérvitring með mikinn áhuga á gömlum húsum, ríka þörf fyrir persónulega aðstoðarmenn og orðræðu sem hvetur til andúðar á minnihlutahópum).
Hvernig munum við minnast þessa tíma? Þegar Ísland hafði forsætisráðherra sem strax á fyrsta mánuði ásakaði alla fjölmiðla landsins um að vera í samsæri gegn sér? Sem hagaði sér eins og kjáni í viðtalsþætti á Rúv? Mann sem hvarf í tíma og ótíma, og sá sér ekki einu sinni fært að sinna skyldum þjóðhöfðingja og taka þátt í samstöðugöngu í París í fyrra?
Ég er barn Davíðstímans og ég ólst upp við þjóðhöfðingja sem var hrokafullur, dónalegur, sem einkavæddi ríkiseignir á vafasaman máta en þagði af sér öll spillingarmál með kergjufullri þrjósku. Sá ráðherra sem reynir nú að endurskrifa söguna með leiðurum sem enginn les, átti helsjúkan aðdáendahóp sem afsakaði allan dónaskap og öll stjórnsýslubrot með svo mikilli meðvirkni að eflaust hefði verið hægt að sjá hana frá tunglinu með berum augum. Meðvirkni sem nærri því gerði út af við þetta samfélag í efnahagslegu og félagslegu tilliti.
Mér líður eins og ég hafi upplifað þau ár aftur í samþjappaðri þriggja ára mynd.
Við höfum ríkiseignir einkavæddar á vafasaman máta.
Við höfum spillingamál sem reynt er að þegja af sér.
Við höfum ótrúlegan valdhroka.
Lélega hótfyndni.
Stöðugar árásir á frjálsa fjölmiðlun í landinu.
En Davíð Oddsson átti aldrei peninga í skattaskjóli svo ég viti til.
P.S.
Nenniði að hætta þrennu kæru álitsgjafar:
Ekki segja, enginn er að halda því fram að nokkuð ólöglegt hafi átt sér stað. Ekki segja að þetta sé allt löglegt. Það vitum við ekki ennþá. Eruð þið viss um að þið getið fullyrt um það áður en þið lesið greinina sem kemur í Suddeutsche Zeitung? Eruð þið viss um að þið getið fullyrt um nokkurn skapaðan hlut þegar það kemur að fjármálum forsætisráðherra? (Ef þið eruð að segja að þetta sé allt löglegt og að enginn sé að segja það sé ólöglegt, þá eruð þið bara að apa upp það sem framsóknarþingmenn eru að mata ykkur á).
Ekki heldur segja að Sigmundur hafi gengið manna harðast fram gegn kröfuhöfum. Það vitið þið heldur ekkert um. Það eina sem við vitum er að kröfuhafarnir samþykktu samninga strax og spöruðu milljarða með því að komast hjá stöðugleikaskatti. Þar með talið eiginkona Sigmundar.
Ekki segja að það sé ekkert skattalegt hagræði af því að geyma peninga á Tortóla. Fólk geymir ekki peninga á Tortóla í öðrum tilgangi, held að seðlunum sé slétt sama um loftslagið. En það er annars gott að fá staðfestingu á því hvað forsætisráðherra finnst raunverulega um íslensku krónuna.
P.P.S.
Býsna hetjulegur hrægammur fyrir ofan ekki satt?
Athugasemdir