Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Eru Íslendingar teprur?

Eru Íslendingar teprur?

Ég skemmti mér alltaf yfir Skaupinu. Brandararnir þar eru þó alltaf 10 mínútum of langir, það er vandamál sem virðist ekki hægt að laga. (En takið bara eftir því að Landa-sketzarnir sem voru fyndnastir í Skaupinu voru líka þeir stystu).

Þetta Skaup var alveg ágætt. Margir vilja hafa það beittara, ég sjálfur held að það sé bara fínt að hafa það létt grín því það virðist ekki hafa nein áhrif á Íslendinga að reyna að hrista upp í þeim með ábendingum um misskiptingu og pólitíska spillingu. Þvert á móti. Eflaust gerði Örn Árnason Davíð Oddsyni greiða með því að leika hann svona skemmtilega, ef maður hlær að einhverjum þá verður hann í huga manns hálf-meinleysislegur og viðkunnanlegur jafnvel. Var það kannski spaugstofan sem hélt sjálfstæðisflokkinum við völd frá 1990 til 2008? 

Ég veit það ekki. Ástæður óvinsælda Sigmundar Davíðs hafa ekkert að gera með Hannes Óla (þvert á móti, Hannes Óli er mun viðkunnanlegri en Sigmundur), heldur má finna ástæður þeirra hjá forsætisráðherranum sjálfum.

Í þessu ágæta Skaupi var einn áberandi galli. Aðal viðburður ársins, brjóstabyltingin #freethenipple var hvergi sjáanleg. Þorði Rúv ekki að sýna ber brjóst í sjónvarpsútsendingu sem 90% þjóðarinnar horfði á? Eða voru það handritshöfundarnir sem þorðu því ekki sjálfir?

Eru brjóst kannski í eðli sínu of mikið alvörumál, alvarlegri en sýrlenska flóttamannakrísan (sem fékk sinn sketz) eða Almar nakti í kassanum (sem einnig fékk sitt grínatriði)?

Þetta þykir mér forvitnileg spurning. En í mínum huga er svarið tvímælalaust stórt já, Íslendingar eru teprur sem roðna og flissa, en eru stöðugt að reyna að sannfæra sjálfan sig um að þeir séu frjálslyndasta og víðsýnasta þjóð í heimi. 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni