Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Þegar fíkjulaufin sigra

Þegar fíkjulaufin sigra

List, líkt og góður brandari, er mest spennandi þegar hún dansar á mörkum þess að vera siðsamleg.

List er spennandi þegar hún er ógeðsleg.

Mikil ósköp hlýtur Michelangelo að hafa fundist hann vera krassandi þegar hann skreytti Sistínsku kapelluna og Carafa Kardínáli krafðist þess að hann málaði fíkjublöð yfir typpin. (Michelangelo brást við með því að mála mann afar líkum Carafa inn á vegginn sem dómara í helvíti).

Barátta Carafa fyrir fíkjulaufum endaði þó með sigri kardinálans og það féll í skaut málarans Daniele da Volterra að mála laufin. Ég get ekki ímyndað mér annað en að það hljóti að vera niðurlægjandi að skrá sig inn í listasöguna sem fíkjulaufsmálari Michelangelo.

Þetta typpastríð sextándu aldarinnar rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá fréttir um að ítalskar endurreisnarstyttur væru pakkaðar inn í pappakassa svo íranskur forseti í opinberri heimsókn þyrfti ekki að móðgast. Og reyndar rifjuðust fleiri skemmtileg söguleg atvik upp, til dæmis þegar íslenska lögreglan þurfti að loka Falun Gong mótmælendur inni svo að íslenska stjórnmála-elítan gæti hlustað á Jiang Zemin, kínaforseta, syngja karokí í Hörpunni. Afsakið. Perlunni. (Því miður var Harpan ekki komin og því þurfti lélegur hljómburður hvolfþaksins á Öskjuhlíð að duga).

Ritskoðunin gekk svo langt að jafnvel gulur litur var falinn fyrir forsetanum. En það fylgdi ekki sögunni hvort að typpi hefðu þótt ögrandi. Mögulega ekki.

Það er hollt að hafa í huga að allir tímar hafa einhvers konar ritskoðun. Við erum aldrei fullkomlega frjáls í því sem við segjum eða hugsum. Siðmenning og samfélög loka alltaf á eitthvað.

Eitt athyglisverðasta vídjólistaverk sem ég man eftir er myndin Magic Bullet eftir sænska listamanninn Markus Öhrn. (Ég skora á listasafn Reykjavíkur að hafa einhvern tímann sýningu á verkum hans, Bergman í Uganda er önnur stórfengleg mynd sem allir ættu að sjá).

Magic Bullet er 49 klukkutímar af ritskoðuðu efni frá árinu 1934 til 2002. Þetta er semsagt allt kvikmyndaefni sem sænska Kvikmyndaeftirlitið krafðist þess að yrði klippt úr myndum svo þær fengust sýndar í kvikmyndahúsum. Magic Bullet er þannig frábær heimild um það sem þykir við hæfi og það sem þykir ógeðfellt í sænsku samfélagi í gegnum áratugina.

Í fyrstu er það pólitísk orðræða sem verður fyrir valinu. Síðar ofbeldi. Það eru nokkrar klukkustundir frá sjöunda áratugnum þar sem hver slagsmálasenan, pyntingarsenan og stríðssenan birtast sjónum. Síðan umbreytist álit nefndarinnar. Upp úr 1990 rétt fyrir lok myndarinnar hættir eftirlitið að klippa burt ofbeldi úr myndum, alveg eins og það hætti að fjarlæga pólitískan áróður eftir seinni heimsstyrjöld og fer að einbeita sér að brjóstum, píkum og typpum. Síðasta klukkustundin er nánast eins og heimildarmynd um mannslíkamann.

Líkaminn sem við öll eigum er að sjálfsögðu spennandi og óendanleg uppspretta ánægju og átaka, en ég er ekki viss hvort hann sé tabú. Það er erfitt að segja til um hvað er tabú, ég veit að í Íran eru typpi tabú, píkur, brjóst og sítt kvenmannshár á almannafæri.

En hvað er tabú á Íslandi, hér og nú. Líkast til akkúratt það sem stendur ekki í þessari grein, og kannski eitthvað sem hvorki ég, né þú kæri lesandi kærum okkur að pæla í.

E.S.

Dag einn vona ég að fornleifauppgröftur í Rómarborg leiði til þess að öll þau typpi sem hoggin voru af styttum á tímum ritskoðunar finnist. Mögulega geymdu einhverjir páfar stykki við náttborðið, en mörgum þeirra var vafalaust komið fyrir í fjöldagröf fyrir stein-reður án líkama og liggja þar gleymd og grafin. (Eða voru kannski notuð til að fylla inn í holur hrynjandi bygginga?) Komi typpin í ljós væri gaman að sjá þau saman, mögulega í einhverri stórfenglegri samsýningu, typpi í aldanna rás eða hugsanlega innsetningu í einhverju listagallerí. Möguleikarnir eru auðvitað óendanlegir með svona fjölhæf tól (sem að vísu skal játast að í flestum tilvikum eru frekar stráksleg, samanskroppin og lítil) og ég er viss um að þú kæri lesandi getur ímyndað þér nokkur skemmtileg not.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni