Afstöðuleysi er ekki dyggð
Of margir vilja meina að sitji þeir í lygnum polli skoðanaleysis öðlist þeir sjálfkrafa einhvers konar óumdeilanlegan virðuleika. En hlutleysi í stórum málum er oft lítið annað en hugleysi. Stundum hlýtur maður að hafa afstöðu. Ég efast stórlega um að nokkur Íslendingur hafi verið algerlega hlutlaus um það hvort Ísland ætti að vera sjálfstætt ríki undir lok 19. aldar. Menn hljóta að hafa séð á því ýmsar hliðar. Bent réttilega á að erfitt væri fyrir svona smáa þjóð að reka allar stofnanir, svo ekki sé minnst á utanríkisstefnu og gjaldmiðil. Og aðrir sem hafa séð það sem ófrávíkjanlega kröfu.
Það er engin dyggð að vera hlutlaus um þrælahald. Hvorki árið 1850, stuttu áður en borgarastyrjöld braust út í Bandaríkjunum, né árið 2016. Þá eins og nú er lágu verði bómullarfatnaðar haldið niðri með níðingsskap þótt verktakarnir séu ekki í suðurríkjum Bandaríkjana heldur komnir til suðausturasíu. Sambærileg hagfræðileg og pólitísk öfl eru hér á sveimi.
Það er heldur engin sérstök dyggð að vera hlutlaus um framtíð jarðar. Eða náttúruvernd. Slíkt er ekki hlutleysi í raun.
Því hafna ég öllum sem segja að forseti Íslands eigi að vera forseti virkjunarsinna og náttúruverndarsinna jafnt. Það er kjaftæði. Forseti getur allt eins verið hlutlaus um hvort kenna eigi íslensku í grunnskólum og hvort Ísland eigi að vera sjálfstætt ríki. Þegar ég syng þjóðsönginn, hvort sem það er fyrir fótboltaleik eða bara í sturtunni þá hugsa ég til landsins. Ekki fólksins í landinu, heldur landið sem ég vona að megi varðveita fyrir fólkið í framtíðinni.
Um það verð ég aldrei hlutlaus.
Gleðilegan þjóðhátíðardag!
Athugasemdir