Af nafnlausum óhróðri
Íslendingar eru fúsir til þess að skrifa alls kyns skoðanir undir nafni. Það er til fólk sem játar að það trúi að geimverur hafi lent á Snæfellsnesi, telji að jörðin sé 6000 ára gömul, að glúten sé skaðlegt ... allar þessar skoðanir þorir fólk að játa á sig og koma fram undir nafni. En eitt virðast fáar raunverulegar manneskjur vilja bendla sig við.
Það er að tala illa um Guðna Th. forsetaframbjóðanda.
Nú er ég ekki stuðningsmaður hans. Nei, ég hóf aðkomu mína að kosningabaráttunni þegar ég bankaði upp á hjá bekkjarsystur minni úr LHÍ, Elísabetu Jökulsdóttur og fékk mér kaffi með henni á gamlársdag og hvatti hana til að bjóða sig fram. Gegndi svo stöðu kosningastjóra meðan ég var á landinu, en núna sé ég aðallega um að uppfæra twitter-reikninginn. Hún er sá forseti sem væri hollast fyrir okkur að hafa ... en ekki umfjöllunarefni þessa pistils.
Ég er farinn að taka eftir alls kyns óhróðri berast út um þennan Guðna á netinu. Mér fannst það skrítið því ég þekki fáa sem er eitthvað sérlega illa við þennan ágæta mann. Óhróður þessi kemur ekki fram undir nafni. Facebook-prófílarnir sem því dreifa eiga nærri enga vini, ég finn þá ekki í Íslendingabók (hvorki í áttunda né níunda ættlið við mig eins og þið flest hin) og eina áhugamál þeirra virðist vera að kommenta í kommentakerfum og facebook-grúppum til að láta okkur vita hvað Guðna er ofboðslega illa við Íslendinga.
Hefur álíka taktík tíðkast áður í íslenskri pólitík?
Vissulega eru margir með gervi-prófíl sér til gamans. Það er ekki glæpur svo lengi sem hann er ekki notaður í persónuárásir eða einhvers konar fjársvikastarfsemi. En þetta er eitthvað annað.
Sennilega hafa stuðningsmenn ákveðins frambjóðanda pirrað sig á hversu fáir taka undir með þeim á netinu. Sumt þora þeir sjálfir jafnvel ekki að segja. Enda myndi ég frekar gangast við því að trúa á geimveruna Bárður af Snæfellsási heldur en að trúa því að fræðileg umfjöllun um þorskastríðin sé einhvers konar landráð. Menn vita upp á sig sökina í þessum efnum.
Örlítið minnir þetta mig á Pútín, sem lætur rússneska ríkið reka skrifstofur þar sem fólk í fullri vinnu kommentar á vestrænar fréttir og umræðu-forum til að verja ríkisstjórn Rússlands og ráðast gegn lýðræði á vesturlöndum með vafasömum samsæriskenningum. Svo voru nýverið fréttir um að Correct the Record- stuðningsgrúppa Hillary Clinton borgaði fólki fyrir að rökræða við Bernie Sanders stuðningsmenn á netinu og jafnvel skemma stuðningssíður hans.
Svona er bandarísk pólitík sturluð, og áróðursstríðið milli Rússlands og vesturveldana ekki síður klikkað en á tímum kalda stríðsins.
En mér datt ekki í hug að íslenskur pólitíkus myndi leggjast svona lágt.
Athugasemdir