Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Af myntbandalögum

Af myntbandalögum

Ég hef ekki hugmynd um hvað verður um evruna í framtíðinni. Ég hef ekki getuna til að spá fyrir um það. Hins vegar veit ég að krónan mun rísa og hníga, sveiflast og stökkbreyta verðtryggðum lánum svo lengi sem hún lifir.

Þetta bloggkorn er ekki um það.

Mér finnst bara athyglisvert að rifja það upp nú þegar Grikkland er á barmi þess að vera rekið út, eða ganga sjálft úr evrópusambandinu, að þetta væri alls ekki fyrsta sameiginlega myntin til að fara.

 

Latneska myntbandalagið sem stofnað var árið 1865 af Frakklandi, Belgíu, Ítalíu og Sviss lifði af ýmsar sviptingar, m.a. niðurlægingu Frakklands árið 1870 í stríði við Þýskaland, svo heimsstyrjöld þar sem Frakkar og Þjóðverjar tókust á um sömu landamærahéröð, þar til það var lagt af 1927. (Tveimur árum fyrir kreppuna miklu).

Eins og Þýskaland og Frakkland eru hryggjarstykkið í Evru dagsins í dag, var Frakkland miðpunktur myntbandalagsins. Viðmiðið var frankinn sem Napóleon fyrsti hannaði, og meðlimaríki slógu mynt eða prentuðu samkvæmt sama sniði. Silfur og gullskildingar voru fastmótað gengi móti hvort öðrum samkvæmt reglunum sem komu fram í samningi ríkjanna (og mig grunar að í nærri öllum fantasíuheimum spunaspilsins D&D hljóti svipað myntbandalag að ráða lögum og lofum). Þetta samkomulag átti eftir að verða helsti akkilesarhæll sambandsins en þegar silfur lækkaði í verði á heimsvísu varð arðbært fyrir braskara að kaupa gullmynt með silfurskildingum samkvæmt stöðlum sambandsins. 

Árið 1867 gekk Grikkland í sambandið. Rúmenía, Spánn og Austuríki Ungverjalönd döðruðu öll við inngöngu en hermdu eftir stöðlum sambandsins frekar en að óska eftir inngöngu. Það sama gerðu suðurameríkuþjóðir á borð við Perú, Kolombíu og Venesúela. Í bandaríkjunum sjálfum var pólitísk hreyfing fyrir því að ganga í myntbandalagið og gerði seðlabankinn þar tilraunir með myntsláttu að fyrirmynd frankans í undirbúningi fyrir slíka inngöngu. Það mætti því segja að latneska myntsambandið hafi ekki síður haft áhrif á heimshagkerfið heldur en evran. (Pundið breska, gjaldmiðill heimsviðskiptana eflaust leikið svipað hlutverk á móti myntsambandinu og Bandaríkjadalur gerir í dag á móti evrunni).

Margir Íslendingar óska þess að til væri einhvers konar sameiginleg norræn mynt. Af ýmsum ástæðum hugnast fólki slíkt betur en Evrópusambandið. Það vita þó ekki allir að á tímabili var Ísland hluti af slíku sambandi. Nei, ég er ekki að tala um Kalmarsambandið, hið stuttlifða konungsríki Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur, heldur skandínavíska myntbandalagið sem stofnað var 1873 og hafði hið latneska bandalag að fyrirmynd.

Den skandinaviske møntunion var upprunalega bara á milli Svíþjóðar og Danmerkur. Þótt Noregur væri með sama konung og Svíþjóð á þeim tíma hafði landið heimastjórn og gat því ráðið sinni eigin mynt, en Noregur gekk til liðs við nágrannaríkin tveimur árum síðar.

Þetta myntbandalag lifði af fullt sjálfstæði Noregs 1905 og Ísland hefði verið sjálfkrafa meðlimur við fullveldi sitt 1918, en því miður endaði myntbandalagið þegar Svíþjóð sagði sig úr því og tók upp nýja gjaldeyrisstefnu við upphaf fyrri heimsstyrjaldar 1914. Það hefði sennilega breytt Íslandssögunni og sögu Norðurlandanna talsvert ef myntbandalagið hefði lifað af. Kannski væru þjóðirnar jafnvel enn nánari.

 

En ekkert er ómögulegt í þeim málum. Sagan sýnir okkur að myntir koma og fara. Ísland mun ekki alltaf hafa krónu, það tel ég nokkuð víst. Spurningin er bara hvaða gjaldmiðlar og myntbandalög komi til greina á næstu árum. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni