Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Að vera ómissandi

Hvernig væru stjórnmál á Íslandi ef fólk væri ekki alltaf svona ómissandi? Kynslóðaskipti í íslenskri pólitík gerast mjög hægt. Formenn stjórnmálaflokka sitja miklu lengur en gengur og gerist á meginlandinu, við höfum haft sama forsetann frá því ég var tólf ára (er þrítugur í dag), höfðum sama forsætisráðherra í meira en áratug og svo mætti lengi áfram telja.

 

Það sem kveikir þessar vangaveltur mínar er þessi frétt: Helle Thorning Schmidt sagði af sér sem formaður sósíaldemokrata í Danmörku. Stjórn hennar hélt ekki velli, en þrátt fyrir það er flokkur hennar stærsti þingflokkurinn og varla hægt að segja að hún hafi tapað neinum kosningum. Íslenskur pólitíkus myndi sitja áfram. T.d. finnst Árna Pál það ekkert tiltökumál þótt að Samfylkingin hafi skroppið saman um helming í seinustu þingkosningum, þótt að hann njóti ekki stuðnings nema tæps helmings flokksmeðlima og að flokkurinn komi frekar illa út í skoðanakönnunum. En hann er ekki eini stjórnmálamaðurinn á Íslandi sem væri að haga sér öðruvísi ef hann væri danskur.

Tökum til dæmis Sigmund Davíð sem dæmi. Myndi danskur forsætisráðherra una því að 80-90% þjóðarinnar álitu hann ótraustverðugan? Að flokkurinn mældist með 8-9% fylgi? Það væri alveg öruggt mál að ef Venstre (sem er systurflokkur framsóknar og mun líkast til fara með forsætisráðuneytið í næstu dönsku stjórn) væri að mælast svona yrði hallarbylting. Reyndar væri það óþarfi, formaðurinn myndi víkja fyrir einhverjum öðrum sem nyti meira trausts.

Þessi þráseta hamlar ferskum skoðanaskiptum og eðlilegri endurnýjun. Þótt að við séum lítil þjóð þá er nóg að hæfu fólki, greindu, sniðugu, skapandi og svo framvegis. Það er ágætis regla hjá pírötum að hafa bara 8 ára tímabil fyrir þingmenn sína, og ég styð allar hugmyndir sem lúta að því að takmarka kjörtímabil forseta, forsætisráðherra og annars valdafólks við tvö kjörtímabil. Stjórnmálamenn eru nefnilega ekki eins og góð vín, með aldrinum verða þau alltof bitur og hrokafull. Ef Davíð Oddsson hefði haft vit á því að hætta eftir tvö kjörtímabil og fara að skrifa myndum við eflaust flest minnast hans með hlýhug. 

Hvernig væri það ef þingið væri í stöðugri róteringu? Myndi það endurspegla þjóðina betur? Að minnsta kosti myndu fleiri raddir heyrast og fleiri hugmyndir yrðu skoðaðar, og væri það ekki ágætt?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Loka auglýsingu