Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Að fórna Grikklandi fyrir hvað?

Að fórna Grikklandi fyrir hvað?

Fyrir nokkru síðan þegar ég heimsótti Rúmeníu rakst ég á konu í Búkarest sem sagðist hafa borðað nærri öll exótísk dýr heimsins. Hún kvaðst hafa bragðað gíraffakjöt, fílakjöt, alls kyns antílópur. Ég var meira forvitinn en hneykslaður svo ég spurði hvernig það bragðaðist.

Illa, sagði hún. Þessi dýr voru öll sjálfdauð. Foreldrar hennar höfðu verið líffræðingar á tímum Ceausescu og öll dýr sem dóu í dýragarðinum enduðu upp í háskóla til krufninar eða til að fara í uppstoppun. Kjötið var grátt og seigt. En hún kvaðst vera heppin. Önnur börn af hennar kynslóð fengu aldrei kjöt.

Ceausescu gerði margt klikkað. Einræðisherrar eins og hann geta lagt heilu hverfin í rúst til að uppfylla geðsjúkar fantasíur (sem spretta líkast til upp úr einhverri minnimáttarkennd eða löngun til að lifa eilíflega). En það klikkaðasta sem hann gerði var að ákveða á sjöunda áratugnum að Rúmenía ætti að borga allar skuldir sínar við umheiminn á nokkrum árum. Allan mat sem hægt væri að selja fyrir gjaldeyri skyldi flytja út, jafnvel þótt það þýddi að ekki yrði nægur matur til að skammta fyrir innbyggja. Áætlanir einræðisherrans gengu eftir. Honum tókst að greiða upp skuldirnar. En það kostaði ótal vannærð börn og dauðsföll líka. Önnur og skynsamlegri stefna hefði þýtt ríkari og þróaðri Rúmeníu í dag.

Það eru til alls kyns skuldir. Í sumum tilvikum er ótrúlegt ranglæti fólgið í þrjósku alþjóðasamfélagsins gagnvart skuldurum. Lengi þurfti Haítí að borga Frakklandi skaðabætur fyrir uppreisn sína. (Já, afkomendur þræla þurftu að borga fyrrum kúgurum sínum skaða fyrir eignatjón). Svo eru það lönd eins og Argentína sem þurfa að borga skuldir sem einræðisstjórn kom á. Grikkir bera ábyrgð á skuldum sínum. Alveg eins og Íslendingar. Spilling stjórnmálalífsins og ábyrgðarleysi kjósenda kom báðum löndum á slæman stað. 

Samt sem áður þá er meira en fjármálalegur stöðugleiki í húfi þegar svona risavaxnar tölur eru millifærðar. Oft á tíðum eru mannslíf í húfi. Og kannski alltaf þegar skuldir ríkja eru til tals, það sem fer í að borga vexti fer ekki í heilbrigðisþjónustu eða mat.

Þegar maður les fréttir dagsins byrjar maður að velta fyrir sér, er Grikkland þess virði að fórna fyrir bókhald banka? Mikið hljóta það að vera góðir bankar.

P.S. magnað að hugsa til þess að þegar haldið var upp á að fyrsti kvenforseti sögunnar hefði verið kosinn fyrir 30 árum síðan var núverandi forseti í boði til heiðurs Goldman Sachs. Goldman Sachs ber talsverða ábyrgð á núverandi ástandi Grikklands.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni