Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

1943

Það er ekki víst að ykkur öllum þyki þetta merkilegt, en fyrir einhvern af minni kynslóð (fæddur 1984) þá er tilhugsunin um nýjan forseta árið 2016 góð af einni ástæðu.

Ólafur Ragnar Grímsson var fæddur 1943. Hann er ári eldri en lýðveldið Ísland.

Næsti forseti verður að öllum líkindum fyrsti forsetinn til að vera fæddur eftir sjálfstæði. Hún/Hann mun því að sjálfsögðu sjá Ísland svolítið öðru vísi augum.

Ég veit að næsti forseti verður öðruvísi því hún verður fædd á tíma þegar Ísland var þegar orðið sjálfstætt land. Jafnvel land með nóbelsverðlaunahafa, sterkasta manni heims, fallegustu konu heims, einhverja staðfestingu á því að það væri alvöru þjóð sem byggi þarna. Næsti forseti mun ekki þurfa að ferðast um heiminn og reyna að sannfæra útlendinga um að íslensk víkinga-gen geri okkur sérstök. Næsti forseti getur því verið hógværari, sagt: „Við erum lítil þjóð, en er það ekki í lagi? Við erum ekki endilega best, en okkur líður ágætlega í eigin skinni. Það er gott að búa á Íslandi, en það er ekki fullkomið.“

Það væri held ég alveg frábært.

Annars er ég búinn að taka að mér það verkefni að vera kosningastjóri fyrir næsta forseta, Elísabetu Jökulsdóttur. (Þetta er ólaunuð en gefandi staða). Sem kosningastjóri felst hlutverk mitt aðallega í því að líta í kaffi til hennar, hlusta á hvað hún sé að velta fyrir sér að gera næst og segja henni svo að gera það bara. Bráðum mun ég hjálpa henni að opna twitter-reikning, þá fer framboðið virkilega á flug. (Ef það er ekki farið á flug nú þegar.)

Sjáið feisbókarsíðu-framboðsins hér.

P.S.

Svo má bæta því við að rétt eins og Þorgrímur Þráinsson þá er Elísabet mikill fótboltaaðdáandi og hefur skrifað barnabækur. Stuðningsmönnum Þorgríms er því óhætt að kjósa Elísabetu líka.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni