Viðhorf til valdsins
FYRST vil ég taka fram að Bára Halldórsdóttir er gömul vinkona mín. Við höfum þekkst í meira en áratug. Ég frétti þó ekki af því að hún var sú sem tók upp tal Klaustursþingmanna fyrr en það kom fram í fjölmiðlum. Upp frá því hef ég stutt dyggilega við bakið á henni í þessu máli, bæði vegna gamals vinskapar og vegna þess að ég hef trú á hennar málstað - enda erum við vinir nákvæmlega vegna þess að við eigum okkur sameiginleg gildi og skoðanir. Ég vil taka þetta fram til að fólk sé upplýst um þessi tengsl og geti dregið sínar eigin ályktanir af þeim. Ég er ekki hlutlaus en það þarf ekki að vera hlutlaus til að hafa skoðanir.
Illugi Jökulsson skrifar í dag ágætan pistil um úrskurð Persónuverndar í máli Miðflokksmanna gegn Báru. Þar dregur hann fram athugasemdir á vegum Fésbókarsíðu Miðflokksins í Mosfellsbæ sem vöktu athygli mína. Sér í lagi þessi hér:
Þarna er verið að endurvarpa klikkuðum dylgjum Miðflokksmanna um að Bára hafi verið handbendi einhverra ótilgreindra afla sem hafi vélað hana til þess að taka upp talið á Klaustri - þvert á það sem hún segir sjálf og þvert á það sem segir í úrskurði Persónuverndar. Þetta eru ekkert annað en órar hjá Miðflokknum en þessi athugasemd frá útibúi flokksins í Mosfellsbæ finnst mér varpa ljósi á hvaða viðhorf eru líklega þar undirliggjandi.
Viðhorfið er það að öryrkjar eru í raun ekki fullir þátttakendur í samfélaginu heldur þurfi þeir alltaf að vera einhvers konar leiksoppur einhverra annarra merkilegri aðila, álpist þeir til þess að taka þátt og hafa áhrif. Út frá því viðhorfi er sá möguleiki að öryrki geti einhvern tímann storkað valdamiklum aðilum á borð við þingmönnum auðvitað sérstaklega fjarstæðukenndur. Það bara hlýtur að vera eitthvað meira undir, það er bara gefið. Slagurinn hlýtur alltaf að vera á milli sterkra pólitískra afla og ef einhver einstaklingur í 'veikri félagslegri stöðu' blandar sér í hann og nær athygli þá bara getur hann ekki verið algjörlega á eigin vegum. Hann bara hlýtur að vera að vinna fyrir einhvern af þeim stóru og sterku.
Þetta finnst mér sjálfum afskaplega gamaldags viðhorf, sem gengur þvert á þá þróun sem við höfum séð undanfarið, viðleitnina til að draga fram fólkið sem er í bágri stöðu og gera það gildandi sem þátttakendur í samfélaginu. Sprottið hafa upp ýmsar hreyfingar í því skyni að valdefla öryrkja, verkafólk, þolendur ofbeldis, innflytjendur og aðra sem hingað til hafa verið lítið eða ekkert áberandi á hinu pólitíska sviði. Margir flokkar hafa sprottið upp sem tala um valdeflingu hinna bágstöddu, að færa valdið til þeirra. Samt má í raun segja að þetta sé ekki einu sinni sérstaklega ný þróun, því hreyfingar hinna valdaminni hafa víða og oft í gegnum söguna náð alls konar árangri þegar fólk nær að samstilla sig og nýta reynsluheim sinn til að koma góðu til leiða. En til einföldunar skulum við segja að hið gamla sé að útvaldir stjórnmálamenn sjái um hlutina fyrir hina bágstöddu en hið nýja sé valdefling hinna bágstöddu. Þangað tel ég sjálfur að sagan sé að stefna, eða allavega að hún eigi að vera að stefna.
Merkilegt nokk þá snerist hluti samtalsins á Klaustri einmitt nákvæmlega um þetta atriði, deilur um það hversu skynsamlegt það væri nú að setja einhverja öryrkja í framvarðarsveit stjórnmálanna. Klaustursþingmenn voru þannig gagngert saman komnir til að þjappa sig saman gegn þessu, stilla sér upp sem varðmönnum gömlu leiðarinnar. Það er sennilega einmitt vegna þess hvað þeir telja sjálfa sig merkilega og ómissandi, en einhverja öryrkja ekki réttborna til valda, sem þeim svíður að hafa verið 'nappaðir' af einhverjum öryrkja úti í bæ.
Þó eru það mögulega mistök að stilla bara Klaustursþingmönnum upp sem sérlegum varðmönnum hins gamla, en engum öðrum valdhöfum sem ekki náðust á upptöku. Þessi viðhorf eru afskaplega rótgróin, jafnvel viðtekin. Þó rífast megi endalaust um hvað af því sem kom fram hjá Klaustri eigi bara við um Klaustursþingmenn en ekki aðra þá held ég að þetta viðhorf sé ekki eitt af því. Ég held að þetta séu hjólför sem ekki verður komist upp úr með því að gera eingöngu Klaustursþingmenn að blórabögglum fyrir þessum viðhorfum. Þeir bera að vísu ríka ábyrgð á sínu og það þarf að berjast gegn ofstopafullri viðleitni þeirra til að brjóta Báru til að verja eigin stöðu (sem er einmitt bara angi af því viðhorfi að þeir einir eigi að hafa völd) - en stærri myndin týnist ef endalaust er hamrað á þeim eingöngu.
Nei, þetta snýst líka um miklu meira en Bára á móti Klaustursþingmönnum eða Klaustursþingmenn á móti öðrum þingmönnum. Þetta snýst um grundvallarviðhorf til valdsins sem Klaustursmálið afhjúpaði, og þeirri spurningu er mikilvægt að hver og einn svari fyrir sig. Það er hafið yfir flokkadrætti, snýst um manneskjur og veruleika þeirra - manneskjur eins og Báru Halldórsdóttur. Það var nákvæmlega vegna þess að hún taldi að hennar veruleiki ætti erindi í stjórnmálin sem að hún í fyrsta lagi ákvað að taka upp Klausturssamtalið og í öðru lagi ákvað síðan að stíga fram og axla ábyrgð á því.
Það væri synd og skömm ef þessi veruleiki gleymdist í einhverjum biluðum samsæriskenningum sem snúast um að afmá hann og ómerkja, af því hún var nógu hugrökk til að reyna að draga hann fram. Frekar þarf að nýta tækifærið til að draga fram hversu margar ósýnilegar Bárur eru þarna úti og hvernig þeim hefur verið haldið niðri af þeim sem vilja fá að halda valdinu hjá sér.
Athugasemdir