Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Leikir með tölur

Leikir með tölur

Það getur verið kostulegt að fylgjast með málflutningi þeirra sem eru sannfærðir um að Reykjavíkurborg sé að öllu leyti verr rekin en önnur sveitarfélög.

Í slíkum prédikunum hinna sanntrúuðu borgarhatara er stundum gripið í tölur en lestur þeirra á tölunum minnir oft á skrattann að lesa Biblíuna. Haldið er í þær tölur sem henta málflutningnum best en öðrum sleppt - og tölurnar túlkaðar á hinn versta og oft fáránlegasta veg í þokkabót.

 

Leikur með fasteignasköttum

Hvergi er talnaleikurinn jafn pínlega augljóst og þegar hinir sanntrúuðu reyna að sýna fram á að borgin skattpíni eigendur íbúðarhúsnæðis meira en önnur sveitarfélög.

Einfalda staðreyndin er sú að skattar á íbúðarhúsnæði eru næstlægstir í Reykjavík en lægstir á Seltjarnarnesi. Þetta má glögglega sjá af tölum um álagðan fasteignaskatt á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar sést líka, ef skoðað er aftur í tímann, að svona hefur þetta lengi verið. Borgin hefur kappkostað við að halda álagningu á íbúðarhúsnæði í lægri kantinum.

Hvað gera hinir sanntrúuðu þá til að forðast að tala um þessa staðreynd um skattprósentuna? Jú, þeir grípa í töluna sem er heildar álagður fasteignaskattur, deilt á íbúa, og tekst með þeim hætti að fá borgina ofarlega á lista (reyndar er borgin í 16. sæti alls árið 2018 en ekki því efsta samkvæmt þessum mælikvarða, þó Viðskiptablaðið segi hana hæsta - það má sjá af tölunum frá Sambandinu).

Þetta er hins vegar afskaplega heimskuleg og villandi leið til að greina skattbyrði íbúanna, af því að þarna inni er allt húsnæði; íbúðarhúsnæði, opinberar byggingar og atvinnuhúsnæði.

Þegar tölurnar eru skoðaðar almennilega sést að sá þáttur sem skýrir að mestu leyti að heildarálagningin er hærri á hvern íbúa í Reykjavík en í nágrannasveitarfélögum er sá að þar er meira af atvinnuhúsnæði á íbúa - og þar af leiðandi að jafnaði meiri tekjur af húsnæði á íbúa (þetta skýrir muninn mun meira en munurinn á skattprósentunni á atvinnuhúsnæði milli sveitarfélaganna). Það er ekki vont að það sé mikið af atvinnuhúsnæði á hvern íbúa heldur gott - til marks um öflugt atvinnulíf í sveitarfélaginu sem gefur af sér tekjur fyrir íbúana.

Ef skatttekjum af íbúðarhúsnæði eingöngu er dreift niður á íbúa, sem er hinn rétti mælikvarði á meðalskattbyrðina, er borgin nefnilega lægst allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, og reyndar með allra lægstu sveitarfélögum á landinu. Seltjarnarnesbær sem er með lægstu prósentuna er með hærri meðalálagningu af því að íbúðarhúsnæði þar er að meðaltali verðmætara en í Reykjavík. Svona lítur þetta út fyrir 15 stærstu sveitarfélögin:

Borgarbyggð 79.133 kr. / íbúa
Sveitarfélagið Skagafjörður 52.849 kr. / íbúa
Reykjanesbær 45.815 kr. / íbúa
Akureyrarkaupstaður 43.513 kr. / íbúa
Garðabær 42.533 kr. / íbúa
Hafnarfjarðarkaupstaður 41.632 kr. / íbúa
Seltjarnarneskaupstaður 40.632 kr. / íbúa
Ísafjarðarbær 40.314 kr. / íbúa
Kópavogsbær 40.222 kr. / íbúa
Mosfellsbær 39.902 kr. / íbúa
Sveitarfélagið Árborg 36.580 kr. / íbúa
Fjarðabyggð 36.014 kr. / íbúa
Vestmannaeyjabær 35.179 kr. / íbúa
Akraneskaupstaður 33.453 kr. / íbúa
Reykjavíkurborg 32.280 kr. / íbúa

 

Um það er í raun ekki mikið meira að segja. Samkvæmt öllum eðlilegum mælikvörðum, skattprósentu annars vegar og meðalálagningu á íbúa hins vegar, er borgin meðal allra minnst ásælnustu innheimtendum skatta á íbúðarhúsnæði og hefur verið það um árabil.

Það er því einfaldlega rangt sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hélt fram í grein í Morgunblaðinu í gær, að „Í Reykja­vík hef­ur verið lögð sér­stök áhersla á að hækka [skatta af launafólki og húseigendum] og sker borg­in sig úr öðrum sveit­ar­fé­lög­um á höfuðborg­arsvæðinu.“ Það hefur þvert á móti verið lögð áhersla á að lækka skatta á íbúðarhúsnæði.

 

Leikur að tekjum

Oddvitinn virðist líka halda því fram að út af þessari meintu skattpíningu séu tekjurnar ekki vandamálið í Reykjavík; hún hafi meiru úr að moða en önnur sveitarfélög. Samkvæmt ofangreindri greiningu á tekjum af fasteignasköttum gæti þetta fljótt á litið verið rétt, þar sem borgin er vissulega með hærri tekjur af fasteignasköttum en aðrir af því þar er meira af atvinnuhúsnæði á hvern íbúa, og hún er vissulega með hæsta leyfilega útsvar (eins og reyndar stór meirihluti sveitarfélaga).

Skoðum þá heildarskatttekjur á íbúa á höfuðborgarsvæðinu, út frá gögnum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um sundurliðun á rekstri á íbúa (nýjustu tölur frá 2017), og teljum allt með; útsvarstekjur, fasteignaskatta og greiðslur úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þarna munar um ýmsa þætti, svo sem skattprósentur, tekjur íbúanna og hversu mikið sveitarfélögin fá frá jöfnunarsjóði.  Niðurstaðan er að borgin er vissulega með hærri tekjur á íbúa en Seltjarnarnesbær, Kópavogur og Hafnarfjörður - en lægri tekjur en Mosfellsbær og Garðabær:

Garðabær 764.846 kr. / íbúa
Mosfellsbær 759.340 kr. / íbúa
Reykjavíkurborg 744.215 kr. / íbúa
Hafnarfjörður 726.105 kr. / íbúa
Seltjarnarnes 713.890 kr. / íbúa
Kópavogsbær 703.081 kr. / íbúa

 

Reyndar eru þjónustutekjur ekki þarna inni en ég efa að borgin sé þar mikið hærri en aðrir, svona til dæmis miðað við að leikskólagjöld eru hvergi lægri en þar. Því snúir hægrafólk reyndar gjarnan til verri vegar með því að segja að þessi gjöld eigi að vera hærri til að standa undir kostnaði. Þar er oft breitt yfir raunverulegan klassískan hægri/vinstri-ágreining sem þarna er til staðar um að hversu miklu leyti almennir skattar eiga að standa undir þessari þjónustu og að hversu miklu leyti þeir sem njóta hennar eigi að standa undir henni. Frekar er þessu stillt upp sem enn einu dæminu um að borgin sé einfaldlega rangt rekin - hægriskoðunin er gerð að hinni réttu leið. Það reyndar flækir þá umræðu töluvert að Seltjarnarnesbær er með næstlægstu leikskólagjöldin og er þar af leiðandi að fylgja sömu stefnu og borgin, að halda þeim í lágmarki. Er bærinn þá líka að gera rangt að mati annarra Sjálfstæðismanna sem gagnrýna þá leið sem borgin fer? Því hef ég ekki séð svarað og ég held að þar sé fátt um svör.

Það sem er hins vegar rétt í samhengi við tekjurnar er að borgin er almennt með tekjur í hærra lagi þessi árin. Þar munar mestu um tekjur af sölu byggingarréttar og gatnagerðargjöldum af þeirri húsnæðisuppbyggingu sem hefur verið í gangi. Þannig verður það áfram næstu árin, eins og fram kemur í greinargerð með fjárhagsáætlun borgarinnar 2019 - 2013. Rétt eins og er með tekjurnar af öllu verslunarhúsnæðinu í borginni þá má hæglega snúa þessu á jákvæðan veg; að uppbyggingin standi undir nauðsynlegum fjárfestingum borgarinnar. Auðvitað er líka hægt að ráðast á þetta á þeim forsendum að reksturinn sé ekki sjálfbær til lengdar, að forsendurnar um það inn í framtíðina séu óraunhæfar - en einn galli við þá nálgun er að þá þyrfti viðkomandi samhliða því að viðurkenna að húsnæðisuppbygging er mikil í Reykjavík þessa dagana, sem er þvert á enn eina klisju þeirra sem hafa allt á hornum sér gagnvart borgina. Sú nálgun útheimtir líka dýpri greiningu á rekstrinum en uppsláttur í stuttri blaðagrein býður upp á og er þess fyrir utan auðvitað allt annað mál en fullyrðingar um að það sé mikil og sérleg skattpíning sem sé að standa undir tekjum borgarinnar.

 

Leikur að kostnaði

Hvað má þá segja um þá fullyrðingu oddvitans að „Borg­in er með miklu meiri kostnað á íbúa sam­kvæmt sam­an­b­urðartöl­um hjá Sam­bandi sveit­ar­fé­laga.“? Kannski í fyrsta lagi það að þetta heitir Samband íslenskra sveitarfélaga þó það sé nú ekki aðalatriðið. Í öðru lagi það að ég verð að játa að ég finn engar tölur frá Sambandinu sem sýna fram á 'miklu meiri' kostnað borgarinnar. Að vísu sýna tölur um heildargjöld á íbúa í A-hluta fram á að borgin er með mest útgjöld á höfuðborgarsvæðinu en ekki myndi ég kalla þetta 'miklu meiri' kostnað en t.d. á Seltjarnarnesi:

Reykjavíkurborg

882.000 kr. / íbúa

Seltjarnarneskaupstaður 856.000 kr. / íbúa
Mosfellsbær 817.000 kr. / íbúa
Garðabær 777.000 kr. / íbúa
Hafnarfjarðarkaupstaður 736.000 kr. / íbúa
Kópavogsbær 724.000 kr. / íbúa

 

Spurningin í samhenginu er síðan fyrst og fremst hvernig er verið að verja þessum gjöldum. Oddvitinn nefnir til sögunnar nokkra kostnaðarliði úr Reykjavík, svo sem innkaup án útboða, meintan vöxt stjórnkerfisins og starfslokagreiðslur. Er allt þetta hærra en í öðrum sveitarfélögum? Hversu mikið hærra þá? Þessu er ósvarað í greininni, enda markmiðið sem fyrr ekki að kafa djúpt heldur að henda fram hlutum sem eiga að láta borgina líta illa út. Það er alls ekki útilokað að þarna séu sparnaðartækifæri og það er gott að standa vaktina gagnvart þeim en enn og aftur þá er samanburðurinn mjög grunnur, í raun ekki til staðar í þessu tilfelli.

Ég get sjálfur leikið mér aðeins að samanburði milli sveitarfélaga með því að skoða útgjöld sveitarfélaganna til einstakra málaflokka, aftur úr sundurliðun á rekstri frá 2017.

Þegar framlög til félagsþjónustu eru skoðuð sést til dæmis að Reykjavíkurborg er þar með hæstu útgjöldin á íbúa. Akureyri fylgir þar fast á hæla og svo Skagafjörður, svo Fljótsdalshérað og Mosfellsbær en hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þar fyrir utan eru næstum (Seltjarnarnesbær og Garðabær) eða bókstaflega (Kópavogsbær) hálfdrættingar á við borgina. Einhver gæti haldið því fastlega fram að þarna sé sóun í gangi hjá borginni og að hin sveitarfélögin séu með eðlileg framlög til félagsmála, en það held ég að sé mjög erfiður slagur að taka. Persónulega myndi ég segja að peningum í félagsmálin sé vel varið og að það séu hin sveitarfélögin sem leggja of mikið í þau af því þau láta borgina halda þeim uppi - en að halda því fram útheimtir auðvitað ákveðna gagnrýni á hin sveitarfélögin og hana er Eyþór án efa tregur til að taka undir. Sjálfstæðismenn eru þá frekar gjarnir á að sleppa umræðu um útgjöld til félagsmála og samanburði þar við önnur sveitarfélög.

En hvað þá með útgjöld til fræðslu- og uppeldismála, sem eru langstærsti útgjaldaliður sveitarfélaganna? Þar er borgin neðst á höfuðborgarsvæðinu og reyndar neðarlega þegar allt landið er skoðað. Er það gott eða slæmt? Ég er alveg viss um að Eyþór myndi snúa því umhendis í neikvæðar fréttir, þetta sé alls ekki til marks um að verið sé að nýta fjármuni vel í þágu stærðarhagkvæmni heldur sé verið að spara óhóflega. Hið rétta svar er sennilega einhvers staðar þarna á milli en þarna er mælikvarðinn 'kostnaður á íbúa' alveg augljóslega ekki sá eini sem skiptir máli.

Þegar kemur að skipulags- og byggingarmálum á höfuðborgarsvæðinu er borgin hærri en Kópavogur, Mosfellsbær og Hafnarfjörður - en Seltjarnarnes og Garðabær eru með margfalt hærri útgjöld á íbúa en borgin. Hvað er í gangi þar? Er meiri sóun á Seltjarnarnesi og Garðabæ, eða bara meiri umsvif þetta árið?

Í umhverfismálum er borgin með næstlægst útgjöld á íbúa en Hafnarfjörður með lægst. Er Hafnarfjörður þá að standa sig miklu verr en borgin í umhirðu, eða nýtir fjármunina bara betur? En ef Hafnarfjörður nýtir þá svona vel, eru hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þá að sóa þeim meira en borgin?

Svona mætti halda áfram en ég læt staðar numið hér, enda tilgangurinn fyrst og fremst að sýna fram á að það er ekkert endilega einfalt mál að kafa ofan í samanburðinn og svarið er alveg augljóslega ekki alltaf að borgin sé verst.

 

Leikslok

Punkturinn er sumsé sá að veruleikinn er flóknari en svo að borgin sé að gera allt illa en aðrir vel og að ekki sé verið að nýta stærðarhagkvæmnina nægilega. Það er ekki nóg að henda bara fram einhverjum illa rökstuddum fullyrðingum og þyrla upp ryki um að borgin sé illa rekin - nema auðvitað meðal hinna sanntrúuðu sem eru sannfærðir um þetta sama hvað. Þeim nægja hvaða hálmstrá sem er. Þeim nægir bara hin allra grynnsta greining á rekstri hennar til að jákórinn taki undir. Þegar kjörnir fulltrúar eiga í hlut er það bara til marks um hugsanaleti, að fólk sé hreinlega ekki að leggja nægilega vinnu í sína vinnu, sem er sú að átta sig á veruleika borgarinnar. Það er alveg margt sem hægt er að gagnrýna og skoðanir fólks á því hvað á að verja peningum í, hversu miklu á að eyða og hvernig á að afla þess eru eðlilega misjafnar - en þá má gagnrýnin alveg byggjast á einhverju aðeins dýpra en trúarjátningum um að borgin sé bara illa rekin og einfeldingslegum túlkunum á tölum út frá þeim.

Liður í trúarbrögðunum er að afneita vandamálum annars staðar en í Reykjavík. Sveitarfélagið sem þarf augljóslega að hafa raunverulegar áhyggjur af er Seltjarnarnesbær, líkt og ég rakti í pistli mínum um fjármál sveitarfélaga 2018 - bærinn hefur nú verið rekið í halla tvö ár í röð og í gögnunum um tekjur sveitarfélaganna glittir aðeins í ástæður þess. Það er ekki nóg með að sveitarfélagið sé með lágt útsvar heldur er það líka með frekar lítið af atvinnuhúsnæði á hvern íbúa, með tilheyrandi lágum tekjum af sköttum á atvinnuhúsnæði. Reyndar er Kópavogsbær með aðeins hærri tekjur á íbúa í heildina en nær samt að reka sig í plús með lægri útgjöldum - en það þarf þó ekkert endilega að vera til fyrirmyndar. Kannski að Seltjarnarnesbær þurfi að skera útgjöld niður til að vera nær Kópavogi en kannski þar þurfi að hækka útsvar. Eitthvað þarf þó að gera.

Stærsta áskornarefnið fyrir sveitarfélög almennt eru hins vegar, enn og aftur, hinir sameiginlegu hagsmunir sem þau hafa öll af því að tekjustofnar þeirra verði endurskoðaðir. Það er löngu tímabært að Sjálfstæðismenn gangi af villutrúnni um hina illa reknu Reykjavík og fari að tala af heiðarleika og kostgæfni um rekstur sveitarfélaganna. Þetta er orðið alveg sérstaklega pínlegt þegar Seltjarnarnesbæ er að blæða út - en samt er þráast við að halda því fram að borgin sé vandamálið og reynt að láta hana koma illa út í samanburði við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, þar með töldum Seltjarnarnesbæ. Þvílík firring. Byrjum þá bara á fyrsta prófinu, sem er það hvort sveitarfélagið er yfir höfuð rekið með afgangi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Lífsgildin
1
Blogg

Lífsgildin

Til­finn­inga­mál fyr­ir lang­reyð­ar

Um­ræða um af­líf­un hvala í land­helgi Ís­lands fór fram í Viku­lok­un­um á Rás 1, laug­ar­dag­inn 13. maí 2023. Þar voru rædd­ar slá­andi nið­ur­stöð­ur í skýrslu Mat­væla­stofn­un­ar um með­ferð á lang­reyð­um, hvort rétt­læt­an­legt væri að veiða hvali með þeim hætti sem gert er. Vel­ferð þeirra er aug­ljós­lega fórn­að fyr­ir óljósa hags­muni en dauða­stríð­ið er oft veru­lega lang­vinnt og sárs­auka­fullt....

Nýtt efni

Dropinn dýrastur á Íslandi
Fréttir

Drop­inn dýr­ast­ur á Ís­landi

Bens­ín­lítr­inn er hvergi dýr­ari inn­an EES-svæð­is­ins en á Ís­landi og raun­ar er bens­ín­verð á Ís­landi það þriðja hæsta í heim­in­um. Álög­ur sem hið op­in­bera legg­ur á bens­ín eru þó hærri í sex­tán ESB-ríkj­um en þær eru á Ís­landi.
Volaða land
Bíó Tvíó#239

Volaða land

Í síð­asta þætti Bíó Tvíó í bili ræða Andrea og Stein­dór kvik­mynd Hlyns Pálma­son­ar frá 2022, Volaða land. Fleiri þætt­ir eru í boði á Pat­reon síðu Bón­us Tvíó: www.pat­reon.com/biot­vio
Þroskahjálp: Rafbyssuvæðing lögreglunnar „hrollvekjandi tilhugsun“
FréttirRafbyssuvæðing lögreglunnar

Þroska­hjálp: Raf­byssu­væð­ing lög­regl­unn­ar „hroll­vekj­andi til­hugs­un“

Sér­fræð­ing­ur og fram­kvæmda­stjóri hjá Þroska­hjálp segja að sam­tök­in hafi áhyggj­ur af raf­byssu­væð­ingu lög­regl­unn­ar. Þroska­hjálp hef­ur fund­að með embætti rík­is­lög­reglu­stjóra vegna þessa. Ástæð­an er sú að lög­regl­an hafi ekki nægi­lega þekk­ingu á stöðu fólks með fötl­un sem hún kann að þurfa að hafa af­skipti af.
Kjartan hættir sem stjórnarformaður
FréttirLaxeldi

Kjart­an hætt­ir sem stjórn­ar­formað­ur

Kjart­an Ólafs­son er hætt­ur sem stjórn­ar­formað­ur Arn­ar­lax eft­ir að hafa leitt fé­lag­ið um ára­bil. Stofn­andi stærsta hlut­hafa Arn­ar­lax, Gustav Witzoe, kem­ur inn í stjórn­ina.
Hækkanir á afborgunum valda magaverk
Fréttir

Hækk­an­ir á af­borg­un­um valda maga­verk

Af­borg­an­ir á hús­næð­is­láni sex manna fjöl­skyldu á höf­uð­borg­ar­svæð­inu hafa hækk­að um 116 þús­und krón­ur á 18 mán­uð­um. Fjöl­skyld­an hef­ur þurft að ganga á sparn­að til að ráða við reglu­leg út­gjöld og er nú í því ferli að breyta lán­inu úr óverð­tryggðu í verð­tryggt til að ráða við af­borg­an­irn­ar.
„Ég hef ekki einu sinni fengið boð í atvinnuviðtöl“
Fréttir

„Ég hef ekki einu sinni feng­ið boð í at­vinnu­við­töl“

Rafa­ela Georgs­dótt­ir hef­ur um langt skeið leit­að að störf­um þar sem mennt­un henn­ar gæti nýst en án ár­ang­urs. Rafa­ela er mennt­að­ur lög­fræð­ing­ur frá Bras­il­íu með sér­hæf­ingu í um­hverf­is­vernd.
Hvað kostar lítri af mjólk?
Fréttir

Hvað kost­ar lítri af mjólk?

Þing­menn þjóð­ar­inn­ar gisk­uðu á verð á ein­um lítra af mjólk og svör­uðu öðr­um spurn­ing­um um verð­til­finn­ingu sína.
Hvalveiðar Kristjáns sem djúpleikur
Ingi Freyr Vilhjálmsson
PistillHvalveiðar

Ingi Freyr Vilhjálmsson

Hval­veið­ar Kristjáns sem djúp­leik­ur

Hval­veið­ar Kristjáns Lofts­son­ar snú­ast um ann­að og meira en pen­inga þar sem þær eru órök­rétt­ar út frá fjár­hags­legu sjón­ar­miði. Mann­fræð­ing­ur­inn Clifford Greetz rann­sak­aði hana­at á Balí fyr­ir meira en hálfri öld en þar má finna skýr­ing­ar sem geta hjálp­að til við að skilja ástríðu Kristjáns fyr­ir hval­veið­um.
Verðbólgan er meira hagnaðar- en launadrifin
Stefán Ólafsson
Aðsent

Stefán Ólafsson

Verð­bólg­an er meira hagn­að­ar- en launa­drif­in

Það er beint sam­band milli auk­ins hlut­ar fyr­ir­tækja af þjóð­ar­kök­unni og auk­inn­ar verð­bólgu, en nei­kvætt sam­band milli hlut­ar launa­fólks og verð­bólgu.
Ísland situr á vannýttum mannauði meðal innflytjenda
Fréttir

Ís­land sit­ur á vannýtt­um mannauði með­al inn­flytj­enda

Hlut­fall inn­flytj­enda sem lok­ið hafa há­skóla­námi er nærri því tvö­falt á við inn­fædda Ís­lend­inga með­al fé­lags­manna í að­ild­ar­fé­lög­um ASÍ og BSRB. Rann­sókn­ir sýna að inn­flytj­end­ur, einkum kon­ur, eru oft og tíð­um of­mennt­að­ar fyr­ir þau störf sem þær sinna.
Bensínverð það sama og fyrir ári en hlutur olíufélaga hefur tvöfaldast
Greining

Bens­ín­verð það sama og fyr­ir ári en hlut­ur olíu­fé­laga hef­ur tvö­fald­ast

Við­mið­un­ar­verð á bens­ín­lítra er tæp­lega 308 krón­ur nú en var 307 krón­ur fyr­ir ári. Í maí í fyrra tóku olíu­fé­lög­in sem selja Ís­lend­ing­um bens­ín 31,24 krón­ur af hverj­um seld­um lítra. Nú taka þau 62,67 krón­ur af hverj­um seld­um lítra.
Friður hins heilaga refs?
Flækjusagan

Frið­ur hins heil­aga refs?

Hefðu Bret­ar átt að semja frið við Hitler ár­ið 1940 til að koma í veg fyr­ir frek­ara mann­fall?