Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Fjármál sveitarfélaga 2019

Fjármál sveitarfélaga 2019

Fimmti árlegi pistill minn um fjármál sveitarfélaga kemur beint inn í mikla umbrotatíma þar sem er í raun búið að henda út reglubókinni um opinber fjármál tímabundið.  Allar forsendur eru brostnar þannig að uppgjör síðasta árs eru meira sagnfræðileg heimild en nokkuð annað.

Að því sögðu þá er kannski markverðast að Seltjarnarnesbær, sem ég hef fylgst náið með vegna sérstöðu þess sveitarfélags, nær loksins að rétta af samstæðureksturinn þó að A-hlutinn sé enn í halla. Þetta virðist aðallega vera fengið með auknum þjónustutekjum, en 'Aðrar tekjur' samstæðu hækka úr 875 milljónum í 1.045 milljónir milli ára á meðan kostnaður hækkar lítillega og tekjur af útsvari og fasteignaskatti standa nánast í stað. Enda hafa borist fréttir m.a. af því að Seltjarnarnesbær hafi hækkað leikskólagjöld eftir að hafa reyndar ásamt Reykjavíkurborg undanfarin ár skorið sig sérstaklega úr með þeirri stefnu að hafa þau lægri en hjá öðrum sveitarfélögum. Það virðist hins vegar sem fyrr vera algjörlega óhugsandi að rétta af A-hlutann með því að hækka útsvar en í rekstrarúttekt sem birt var fyrr á árinu er mælt með ýmsum hagræðingaraðgerðum, þrátt fyrir að í henni blasi við hið augljósa að skatttekjur á hvern íbúa eru óvanalega lágar í sveitarfélaginu. Það er hins vegar greinilegt að  þeim sem gerðu úttektina var uppálagt að hagræða en ekki koma með tillögur að auknum tekjum og því er hún eins og hún er. Þess má geta að stéttarfélagið Efling hefur þegar andmælt harðlega uppsögnum vegna hagræðingaraðgerða og útvistunar og það er ekki útséð með hvernig frekari aðgerðir af þessum toga muni leggjast í starfsfólk bæjarins.

Nóg um það, því sem fyrr segir þá eru forsendur allar verulega breyttar og sveitarfélögin sjá fram á verulega breytt rekstrarumhverfi á næstu árum á meðan efnahagsskellurinn ríður yfir. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur, sem og mörg einstök sveitarfélög, gefið út greiningar þar sem fyrirséð er mikið tekjufall en einnig aukin útgjaldaþörf, sem er að sjálfsögðu ekki góð samblanda fyrir fjárhagsstöðuna. Ein forsenda virðist þó óbreytt, sem er skortur á samráði ríkisins við sveitarfélögin. Ríkið hefur vissulega að einhverju leyti brugðist við með stuðningi við sveitarfélögin og með því að kippa tímabundið úr sambandi viðmiðum á borð við jafnvægisreglu í tekjum og skuldareglu sem er að finna í sveitarstjórnarlögum en sveitarfélögin hafa bent á að það þurfi mun meira. Reyndar er núna búið að stofna starfshóp til að greina stöðu sveitarfélaganna þannig að vonandi er fullur vilji til að taka þessa vinnu alvarlega, sem reyndar (eins og ég hef ítrekað bent á í þessum pistlum mínum um fjármál sveitarfélaga) hefur að hluta verið lengi fyrirliggjandi, því að sveitarfélögin hafa um árabil kallað eftir endurskoðuðu rekstrarumhverfi. Efnahagshrun gerir þá vinnu enn meira aðkallandi, að því sé svarað hvernig umhverfið mun líta út í næstu uppsveiflu. Í uppgangi ferðaþjónustunnar náðist t.d. aldrei að svara ákalli um að sveitarfélög og þá sérstaklega þau sem báru mestan kostnað vegna uppbyggingar og ágangs, fengju hlutdeild í tekjum vegna ferðamennsku. Vonandi verður hægt að undirbúa það betur þegar ferðaþjónustan tekur aftur við sér.

Í samhengi við þessa umræðu um stöðu sveitarfélaganna vegna Covid-19 faraldursins er síðan ekki hægt að láta hjá líða að minnast á furðulega deilu Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, við Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, oddvita Viðreisnar og formann borgarráðs. Þær eru til komnar vegna þess að Hildur vildi meina að 'meirihlutinn í borginni' hafi sent ríkinu ákall um svokallaða neyðaraðstoð út af fjárhagsstöðunni. Þórdís Lóa tók því hreint ekki vel og benti á að öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi tekið sig saman til að senda slíkt ákall saman. Við því brást Hildur með því að draga fram umsögn borgarinnar um efnahagspakka ríkisstjórnarinnar, skrifaða af fjármálaskrifstofu með hjálögðu minnisblaði starfshóps sem var fenginn til að meta stöðu borgarinnar. Það á að hennar mati að sýna fram á að staða borgarinnar er mun verri en annarra sveitarfélaga, líkt og nýjasta grein hennar um deiluna ber með sér. Skemmst er frá því að segja að þetta er hreinlega rangt eða í skásta falli verulega ýkt hjá henni og virðist fyrst og fremst byggjast á óbilandi þörf Sjálfstæðismanna til að halda þeirri línu til streitu að borgin sé verr rekin en önnur sveitarfélög, sama hvað tautar og raular og sama hvað upp á kemur. Sem dæmi má nefna þá dregur hún fram þá gömlu tuggu sem ég hef áður farið yfir að það að borgin sé með tekjur af sölu byggingarréttar sé til marks um að reksturinn sé ósjálfbær, sem er afskaplega einfeldningsleg framsetning þar sem að sjálfsögðu eru sum útgjöld borgarinnar líka 'eins skiptis', eða sveiflukennd þannig að það er ekki bara nóg að benda á að sumar tekjur eru sveiflukenndar til að halda því fram að reksturinn sé ósjálfbær. Svo er nú ekki eins og önnur sveitarfélög hafi ekki líka verið með tekjur af sölu byggingarréttar undanfarið, þannig að þar er komin ein ástæða fyrir því að það er hreint ekki nóg að benda bara á að þær eru til staðar til að sýna fram á sérlega slæma stöðu borgarinnar. Reyndar er það alveg sérstaklega súrt að halda áfram með þennan málflutning þegar það er nýbúið að sjást í ársreikningi borgarinnar að hún hefur alveg mátt við því að missa þessar tekjur án þess að fara í halla - á árinu var gert ráð fyrir tæplega 4 milljarða tekjum af sölu byggingarréttar en þrátt fyrir að þær hafi ekki reynst vera nema um 25 milljónir þá var rekstrarniðurstaðan í A-hluta samt sem áður yfir milljarður í afgang.

En þetta er allt auðvitað svona og hefur verið - einfaldir frasar sem eiga að afgreiða það í eitt skipti fyrir öll og sýna fram á með einföldum hætti að borgin er illa rekin, þegar veruleikinn er aðeins flóknari. Nema auðvitað að því leyti að þegar alvöru mælikvarðar svo sem rekstrarniðurstaða og veltufé frá reksti eru skoðaðir þá hefur borgin komið ágætlega út í nokkur ár í röð en það er náttúrulega þess vegna sem að Sjálfstæðismenn þurfa stöðugt að vera að draga fram sína eigin mælikvarða til að hræra í. Á meðan hundsa þau auðvitað algjörlega þá staðreynd að samkvæmt öllum mælikvörðum er t.d. Seltjarnarnesbær alveg augljóslega í verri málum en borgin  (líkt og sést í áðurnefndri úttekt á stöðu fjármála þar) þannig að það er eiginlega alveg sérstaklega ósvífið að hamast svona á borginni, væntanlega alveg þvert gegn betri vitund.

Ég get því miður ekki sagt að það komi mér rosalega mikið á óvart að meira að segja í fordæmalausu efnahagshruni þá sé þetta forgangsmál hjá Sjálfstæðismönnum, að láta þessa áróðurslínu sína og umræðurugling þvælast fyrir þeirri mikilvægu vinnu sem nú liggur fyrir, að skapa samstöðu um nauðsynlega vinnu og aðgerðir til að koma sveitarfélögunum í sameiningu í gegnum þetta ástand. Líkt og ég hef oft áður haldið fram þá eru sveitarfélögin almennt bara í nokkuð sambærilegri stöðu fjárhagslega og í samræmi við það þá standa þau frammi fyrir nokkuð sambærilegum áskorunum núna í hruninu. Það er kannski helst að sveitarfélög á landsbyggðinni sem hafa reitt sig sérstaklega mikið á ferðaþjónustu verða fyrir óvanalega hörðum skelli, enda hefur þingið nú þegar ákveðið að veita þeim sérstakan stuðning. Áróðurslínan um hina illa reknu Reykjavíkurborg er hins vegar sem fyrr, einfaldlega rugl, og þvælist fyrir nauðsynlegri vinnu sem byggist á gögnum en ekki óskhyggju.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni