Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Að taka vel á móti flóttafólki

Að taka vel á móti flóttafólki

Staða flóttafólks á Íslandi er enn og aftur í brennidepli.

Ekki er langt síðan að fullorðnir hælisleitendur vöktu athygli og jafnvel hneykslan sumra með því að taka undir sig Austurvöll tímabundið í því skyni að vekja athygli á kröfum sínum gagnvart stjórnvöldum sem snerust meðal annars um að engum yrði brottvísað frá landinu. Ekki fer miklum sögum af því hvort þeir hafi hlotið nokkra áheyrn hjá stjórnvöldum.

Börn á flótta

Það sem tekist er á um núna eru hins vegar brottvísanir barna, og þá sér í lagi brottvísanir þeirra til Grikklands. Flóttafólk er ekki sent héðan aftur til Grikklands þó það hafi farið þangað í gegn - en hins vegar er ekki öruggt að það verði ekki sent til baka ef það hefur fengið formlega vernd í Grikklandi. Þannig er búið að setja nöfn og andlit á nokkur flóttabörn sem hafa komið sér ágætlega fyrir hérlendis en til stendur að vísa aftur til Grikklands á þeim forsendum að þau séu með vernd þar og eigi því að vera örugg þar. Haldinn var fjölmennur mótmælafundur um þetta baráttumál í síðustu viku en áður höfðu til að mynda mótmæli nemenda í Hagaskóla um sama málefni vakið athygli.

Baráttan hefur leitt til þess að ráðherrar eru farnir að tjá sig ögn meira efnislega um málefnið en áður, og hefur sitjandi dómsmálaráðherra meðal annars beitt sér fyrir breytingu á reglugerð um útlendinga í þá veru að rýmka heimildir  til að taka mál barna á flótta til efnislegrar meðferðar. Skoðanir fólks á þessari breytingu eru misjafnar. Persónulega tel ég þetta frekar lítið skref og fyrst og fremst táknrænt, þar sem þessar heimildir eru í raun til staðar fyrir - en sem táknrænt skref er það samt sem áður mikilvægt af því það sýnir ákveðna viðleitni til viðbragða og sýnir líka fram á hvaða svigrúm stjórnvöld hafa í raun til að móta regluverkið í kringum móttöku flóttafólks og réttindi þess.

Þetta samtal er eiginlega rétt að byrja og það er ýmislegt í málflutningi ráðherranna sem bendir til þess að það sé ekki mikill vilji í augnablikinu til að breyta miklu í kerfinu, nema að því leyti að hraða málsmeðferðinni. Bæði forsætisráðherra og dómsmálaráðherra tala um að ástandið í Grikklandi sé kannski ekki svo slæmt. Forsætisráðherra hefur líka gefið út að fjöldi þeirra sem fái hæli hér sé ekki endilega lágur miðað við höfðatölu þó hún hafi reyndar bætt við að gera mætti betur m.a. gagnvart viðkvæmum hópum, og þar skyldi maður vona að átt sé við börn og að bæta eigi réttarstöðu þeirra. Annað sem gefur ekki heldur endilega góð fyrirheit er sú staðreynd að dómsmálaráðherra lagði fram í apríl frumvarp sem þrengir töluvert að réttindum flóttafólks til að fá efnismeðferð á sínum málum og gerir beitingu Dyflingarreglugerðarinnar sem og brottvísun fólks sem hefur þegar fengið vernd í öðru ríki að meginreglu. Það er því óvíst hvort að með samþykkt þess frumvarps yrði einu sinni fólk sem hefur farið í gegnum Grikkland án þess að fá þar vernd öruggt gagnvart brottvísun, sem þó er tilfellið núna. Frumvarpið fer mjög augljóslega í þveröfuga átt við það að gera betur við flóttafólk, börn þar með talin því enga sérstaka vernd fyrir börn er þar að finna.

Örugg ríki og óörugg

Eitt sem hefur stundum áður verið tekist á um í sambandi við flóttafólk er hvort stjórnvöldum sé stætt á því að skilgreina sum ríki almennt sem örugg og neita alfarið að taka umsóknir fólks frá þeim ríkjum um vernd til efnismeðferðar. Er þar átt við ríki eins og Albaníu og Georgíu sem eru á jaðri Evrópska efnahagssvæðisins, sem þýðir að borgarar þaðan njóta ekki sama ferðafrelsis innan þess svæðis og fólk sem er þar fyrir, en sækja samt sem áður margir hverjir inn í það og reyna því að nýta sér þær leiðir sem eru í boði. Staðan í því máli er hins vegar núna sú að þessi ríki eru skilgreind sem örugg og því er öllum sem þaðan koma vísað frá - enda hefur umsóknum þaðan fækkað verulega sem hefur leitt til fækkunar heildarumsókna. Persónulega hef ég nokkra samúð með því sjónarhorni að frekar eigi að setja í forgang móttöku flóttafólks sem er frá 'raunverulega' hrjáðum löndum - en að öðru fólki eigi þá líka að bjóða upp á aðrar leiðir til að koma hingað og setjast að. Landið er almennt ansi lokað og væri örugglega ennþá lokaðra ef aðild okkar að EES 'neyddi' okkur ekki til að veita fólki úr þeim ríkjum ákveðin grundvallarréttindi.

En hvað um það - hvað sem fólki kann að finnast um það þá er staðan sú að það er búið að loka á fólk frá ákveðnum ríkjum sem eru skilgreind sem örugg sem þýðir að það eru allir möguleikar til þess að gera betur við fólk sem er frá 'raunverulega' hrjáðum löndum á borð við Afganistan og Írak, en umsóknum þaðan hefur verið að fjölga, ekki síst umsóknum frá fólki sem hefur þegar fengið vernd í Grikklandi. Einhver ástæða er fyrir því að fólk leitar annað þrátt fyrir að hafa fengið vernd, hvað þá þegar það er með börn með sér en tekur samt áhættu á að rífa sig upp enn og aftur og leita tækifæra í nýju landi. Þetta er veruleikinn sem blasir við og spurningin er bara hvernig á að bregðast við honum.

Stefna og stefnuleysi

Ýmsir stjórnmálamenn tala fallega um að taka skuli vel á móti flóttafólki og að Ísland geti axlað þar aukna ábyrgð. Í reynd virðist þetta hins vegar erfitt í framkvæmd, hlutirnir verða ansi flóknir þegar ræða á útfærslu og þeir sem sitja við stjórnvölinn eru gjarnir á að vísa bara í gildandi lög, á starfsfólkið sem er að framkvæma þau eða tala um að nú þurfi bara að stofna enn eina nefndina og jafnvel fá manneskju utan þings til að leiða vinnuna. Þróunin núna, sem fyrr segir, virðist þó vera meira í áttina að því að ráðherrar eru tilbúnir til að ræða þessi mál efnislega og skýra afstöðu sína til efnisatriða þegar eftir því er gengið. Það er vel og vonandi heldur það samtal áfram.

Ég held nefnilega að eins og oft áður þá sé stefnuleysi rót vandans. Það er í raun ekki búið að móta almennilega stefnu um þessi mál; vinnan við síðustu lagabreytingar frá 2016 held ég t.d. að hafi ekki verið sérstaklega vel heppnuð að því leyti. Það vantar algjörlega að skoða þessi mál í heildarsamhengi, reikna til dæmis bæði með kostnaði og ábata af mismunandi leiðum (það getur hæglega verið þjóðhagslegur ábati til lengri tíma af móttöku flóttafólks) - og ekki síst taka tillit til grundvallar mannúðarsjónarmiða sem hafa ekkert endilega mikið með hagnað eða tap að gera.

Það væri til dæmis lítið mál að ákveða að öll börn ættu hið minnsta rétt á efnislegri meðferð á sínum umsóknum - þó ég viðurkenni að ég sé ekki sérfræðingur þá verð ég út frá minni rannsókn á laga- og regluverkinu að draga í efa þá fullyrðingu dómsmálaráðherra að ekki sé hægt að veita börnum slíka vernd án þess að það gangi líka yfir fullorðna. En hvað um það, þetta er bara það sem ég held, en það sem ég veit fyrir víst er að svigrúm stjórnvalda út frá lögum og reglugerðum er alveg töluvert. Þetta er því fyrst og fremst spurning um vilja til að setja metnað í málaflokkinn og móta góða stefnu. Án stefnu sem gefur fólki leyfi og svigrúm til að hugsa og gera stórt þá myndast þankagangur skortsins, fólk heldur að sér og vill fara eins varlega og mögulegt er. Kerfið ræður sér sjálft.

Til að gera vel þá þarf að hugsa út fyrir kerfin og ákveða að fjárfesta í samræmi við skýra stefnu þar sem skilgreint er nákvæmlega hvað það þýðir að taka vel á móti flóttafólki. Hún er vonandi loksins á leiðinni.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu