Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Gjaldið fyrir trassaskapinn

Gjaldið fyrir trassaskapinn

Sem kunnugt er þá er Ísland núna á svokölluðum gráum lista FATF (Financial Action Task Force), alþjóðasamtaka sem þróa leiðir til að taka á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og fylgja eftir innleiðingu þeirra.  Þetta gerðist vegna þess að stjórnvöld hérlendis hafa ekki brugðist nægilega vel við ábendingum FATF.  Þó það sé sem betur verið verið að bregðast við þessari stöðu núna þá er augljóst mál að ýmis skaði hefur orðið vegna þess að Ísland lenti á þessum lista, gagnvart orðspori landsins til að mynda, sem og beinn skaði fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem hafa lent í vandræðum í viðskiptum og fjármagnsflutningum.

Það er ekki heldur úr vegi að fjalla aðeins um þann skaða sem verður vegna þess að það er verið að rjúka til í flýti og innleiða regluverk samkvæmt leiðbeiningum FATF, í stað þess að það hafi verið gert í ró og næði á sínum tíma og hugað vel að öllum öngum útfærslunnar.

Hér má helst nefna lög um skráningu raunverulegra eigenda sem voru samþykkt í júní í fyrra. Fréttablaðið fjallaði í gær um þá stöðu mála að þau félög sem lögin ná til eigi yfir höfði sér dagsektir ef þau hafa ekki lokið skráningu þann 2. mars. Kristín Gunnarsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu yfirstjórnar Ríkisskattstjóra, segir að skil meðal félagasamtaka, sem flest eru rekin af sjálfboðaliðum, hafi verið mjög slæm og að slík samtök séu meðal þeirra aðila sem munu fá á sig sektir.

Þetta kemur eiginlega ekkert á óvart. Nú er það sennilegast mjög líkleg skýring á því að skil hafa verið léleg hjá félagasamtökum að þau eru einmitt rekin af sjálfboðaliðum sem eru ekki beinlínis vanir því að vera að vakta lagabreytingar sem hafa áhrif á rekstrarumhverfi félaganna og heldur ekki vanir því að þurfa að rjúka til og bregðast við þeim strax, undir hótunum um sektir. Það er hreinlega fordæmalaus staða. Skýringar má líklega einnig finna í því að það er ekki fyrr en mjög nýlega að stjórnendur félagasamtaka hafa verið að átta sig á því að lögin gilda um félagasamtök, sem og í því að leiðbeiningar um það hvernig á að standa að þessu hafa verið frekar takmarkaðar framan af. Starfsfólk Ríkisskattstjóra virðist þannig ekki hafa verið sérstaklega vel búið undir innleiðingu laganna, miðað við hvernig er að verið að vinna þetta þeim megin. Félagasamtök hafa aðallega verið að frétta af þessu máli hvert af öðru og verið að deila (misáreiðanlegum) upplýsingum sín á milli um hvernig á að skrá þessar upplýsingar.

Vel heppnuð og sársakaminni útfærsla á þessum lögum myndi fela í sér miklu skýrari og beinni upplýsingamiðlun beint til félaganna sem lögin hafa áhrif á. Jafnvel mætti hugsa sér virkjun upplýsingatækninnar til að sjálfvirknivæða skráninguna að miklum hluta, þar sem í flestum tilfellum er það stjórn félags sem skráir sig sem eigendur og Ríkisskattstjóri er nú þegar með upplýsingar um stjórnarmeðlimi sem færa mætti á milli skráningarkerfa, með endanlegri staðfestingu frá félaginu sjálfu til að tryggja að upplýsingarnar séu réttar. Í stuttu máli hefði mátt gera þetta með því að hafa miklu meira frumkvæði að því að hafa samband við félagasamtökin og styðja þau í þessari vinnu, í stað þess að láta stjórnir þeirra rjúka til í óðagoti og óvissu. Það hefði hins vegar krafist tíma en tíminn var einfaldlega ekki gefinn.

Það er sérstaklega súrt til þess að hugsa að lögin gáfu upphaflega félögum frest til 1. júní á þessu ári til að greiða úr skráningu raunverulegra eigenda. Í desember var hins vegar keyrð í gegn lagabreyting þar sem fresturinn var færður fram um þrjá mánuði, til 1. mars. Í greinargerð með því frumvarpi var því haldið fram að þar sem fresturinn væri samt sem áður ennþá um þrír mánuðir þá yrði „ekki talið að lagabreytingin sem hér er lögð til hafi verulega íþyngjandi áhrif fyrir lögaðila“. Það má vel vera rétt að áhrifin séu ekki verulega íþyngjandi en lögin hafa samt augljóslega haft íþyngjandi áhrif í formi vinnu sem er lögð á herðar mjög misvel búinna félagasamtaka - og munu miðað við það sem Ríkisskattstjóri hefur gefið út hafa íþyngjandi fjárhagsleg áhrif þegar sektir fara að berast. Þau áhrif munu þá lögum samkvæmt víst bara vera á ábyrgð þeirra sem stjórna þessum félögum, fyrir að hafa ekki sjálf áttað sig á þessum fresti og fundið út úr því í tæka tíð hvernig á að uppfylla kröfur laganna. Fyrirtæki hafa, miðað við að skil hafa verið betri hjá þeim, augljóslega haft burði til að bregðast við í tæka tíð en það er bara fullkomlega skiljanlegt að félagasamtök séu eftirá. Það hefði alveg mátt taka tillit til þeirra veruleika við lagasetninguna. En enn og aftur, þá hefði það útheimt tíma sem hreinlega gafst ekki.

„Vegna hagsmunanna af því að skráningu ljúki með fullnægjandi hætti verður ekki undan því vikist að fella frá og með 2. mars næstkomandi dagsektir á þá lögaðila sem enn hafa ekki skilað fullnægjandi upplýsingum um raunverulega eigendur sína til fyrirtækjaskrár Skattsins,“ segir Kristín Gunnarsdóttir í samtali við Fréttablaðið. Það er sennilega alveg hárrétt að það eru ríkir hagsmunir af því að losna af gráa listanum sem fyrst og ríkir almannahagsmunir af gagnsærri skráningu raunverulegra eigenda félaga. Það að félagasamtök áhugafólks í sjálfboðaliðastarfi þurfi að bera kostnaðinn af því að uppfylla þessa hagsmuni er hins vegar algjörlega forkastanlegt - og algjörlega á ábyrgð þeirra stjórnvalda sem stóðu sig ekki í því verkefni að gera það sem þurfti að gera til að passa það að Ísland lenti ekki á þessum gráa lista til að byrja með.

Hverjar ástæður þessa andvaraleysis kunna nú að vera skal látið ósagt hér en afleiðingar þess eru allavega því miður augljósar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni