Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Ásóknin í það sem er ókeypis

Ásóknin í það sem er ókeypis

Í októbermánuði 2002 var flutt frétt af auknum biðröðum hjá Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og viðbrögðum forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, við þeim tíðindum.

Í endursögn Óla Gneista Sóleyjarsonar var þetta nokkurn veginn svona:

„Í nýliðinni viku var í fréttum að skjólstæðingum mæðrastyrksnefndar fjölgaði nú ört. Sífellt fleiri kæmu til nefndarinnar og þæðu matarpakka, föt, leikföng og aðra styrki. Neyðin hlýtur að vera mikil þegar fólk leitar til nefndarinnar enda finnst fæstum gaman að þiggja hálfgildings ölmusu til að geta náð endum saman. Formaður mæðrastyrksnefndar tók fram að hún teldi öruggt að ekki leituðu allir sem gætu til mæðrastyrksnefndar, til þess væru sumir einfaldlega of stoltir. En margir neyddust til að kyngja stoltinu þegar þeir ættu ekki fyrir fötum á börnin sín og gætu ekki gefið þeim að borða.

Þegar forsætisráðherra var spurður hvort aukin ásókn til mæðrastyrksnefndar væri til marks um vaxandi fátækt í landinu taldi hann svo ekki vera enda væru alltaf nógir til að þiggja þegar eitthvað væri gefins.“

Þetta vakti hneykslan margra en örugglega líka aðdáun sumra hægrisinnaðra sem töldu að þarna væri maðurinn einfaldlega að segja sannleikann. Þó að aðeins minna fari fyrir slíkum viðhorfum nú en áður þá er það rótgróið hægraviðhorf að það þurfi að fara varlega í að deila út gæðum ókeypis þar sem slíkt sé engin langtímalausn á vanda fólks og að slík gæði renni jafnvel til fólks sem ekki þarf á þeim að halda en eru til í að þiggja þau fyrst þau eru ókeypis.

Þó þetta viðhorf taki stundum á sig ansi andstyggilega mynd, eins og í tilfelli ummæla forsætisráðherrans um veruleika fátæks fólks, þá er þetta í grunninn virðingarvert viðhorf þegar því er rétt beitt og á sanngjarnan hátt. Að mínu mati felst rétt beiting í því að vilja horfa til þess að leysa vandamál kerfislægt, til að fyrst draga úr þörfinni á ölmusum af þessu tagi og síðan hjálpa fólki sem þiggur þær að komast á réttan kjöl aftur - vinna sumsé í eftirspurnarhliðinni en ekki bara í framboðinu. Sanngirni felst síðan meðal annars og ekki síst í því beita þessu viðhorfi tiltölulega jafnt, á viðfangsefni stjórnmálanna almennt og jöfnum höndum.

Í þessu ljósi er áhugavert að skoða þau viðhorf sem birtast í þessari grein hægrimanneskjunnar Sigríðar Andersen (sem eru skemmtilegt nokk áþekk þeim sem birtast gjarnan í ritstjórnarpistlum Morgunblaðsins, þar sem áðurnefndur Davíð er nú ritstjóri). Hér átelur hún vinstrafólk fyrir að vera ekki nógu duglegt við að deila út ókeypis innviðum undir bílaumferð og segir að sú afstaða að slíkt sé ekki varanleg lausn á umferðarvanda minni svolítið á „innkaupastjóra í verslun sem telur það ekki ómaksins vert að panta inn vinsælar vörur því þær hverfi svo skjótt úr hillunum“.

Ég hefði þó frekar haldið að nærtækari samlíking væri þá biðraðirnar í Mæðrastyrksnefnd eftir ókeypis mat, fötum og leikföngum. Það skiptir nefnilega verulegu máli fyrir verslanir á frjálsum markaði að geta stillt af verðlag í samræmi við eftirspurn og fundið þannig jafnvægi milli sölutekna og þess hverju þær ráða við að koma út. Stundum telur innkaupastjórinn það nefnilega ekki ómaksins vert að kaupa meira inn af vinsælli vöru heldur getur hann reiknað út að hagstæðara væri að hækka verð á henni gegn minni eftirspurn en auknum tekjum á hverja selda einingu. Aðili sem leggur til ókeypis hluti hefur hins vegar ekki val um þetta atriði, hann getur ekki dregið úr eftirspurn og jafnframt fengið meira út úr fjárfestingu sinni í vörum, verslunarrými og starfsfólki með því að hækka verð því verðið er ekkert. Aukið framboð af ókeypis er þannig allt eins líklegt til að auka bara eftirspurn enn frekar en að svara eftirspurninni.

Það vill svo til að það ásóknin í það sem er ókeypis er algjörlega þekkt fyrirbæri í hagfræðinni og einnig að því er oft beitt á gatnainnviði til að benda á vandann sem er innbyggður í það að elta þar stöðugt eftirspurnina. Þetta fyrirbæri kallast framboðsdrifin eftirspurn (e. supply-induced demand); eftirpurnin er drifin áfram af framboðinu. Þetta er alveg sérstaklega þekkt þegar kemur að gatnainnviðum af því þar er kostnaður notenda við að nýta sér nýju ókeypis innviðina enginn - eða sparar þeim jafnvel kostnað.

Þannig kostar það að nota nýja akrein bílstjórana ekkert en sparar þeim tíma og rýmir aðeins til á þessari tilteknu akstursleið, þannig að það er auðvelt að sjá fyrir sér hvernig þetta getur verið skammgóður vermir, að það fyllist á endanum upp í það sem sparast. Ég tel það hins vegar alveg rétt hjá þáverandi formanni Mæðrastyrksnefndar, að því fylgir vissulega ákveðinn kostnaður að fara og bíða þar í biðröð, jafnvel þó hann sé gefinn ókeypis - ekki bara í stolti og hættunni á samfélagslegri stimplun heldur líka í því að fara á staðinn. Fólk getur deilt um hversu hár þessi kostnaður er í raun og veru en eitt er víst - hann er allavega meiri en sá sem bílstjóri greiðir fyrir að taka nýja akrein á leið sem hann tekur nú þegar reglulega. Þannig ef fólk ætlar að vera sjálfu sér alveg samkvæmt þá er ekki nóg að bera ókeypis gatnainnviði frekar saman við aðra ókeypis þjónustu svo sem gjafir Mæðrastyrksnefndar en við vörur á almennum markaði, heldur þarf líka að skoða rökin fyrir því að framboðsdrifin eftirspurn sé jafnvel meira vandamál í gatnakerfinu en hjá aðilum á borð við Mæðrastyrksnefnd.

Hægrisinnuð leið til að takast á við þetta vandamál sem er innbyggt í gatnakerfið væri sem fyrr segir að skoða kerfislægar lausnir sem draga úr eftirspurninni - en þá erum við komin út í uppbyggingu almenningssamgangna og innviða fyrir hjól, skipulag byggðar sem dregur úr þörf á því að notast við bíl, og allt það sem sumu hægrafólki virðist algjört eitur í beinum af einhverjum hugmyndafræðilegum ástæðum. Að mati þess þá hefur fólk bara einfaldlega 'valið' einkabílinn og það þarf þá að koma til móts við það með meiru fyrir einkabílinn. Þá væri önnur hægrisinnuð leið einfaldlega að rukka fyrir notkun á vegunum, til þess að fá fram eðlilegt samband milli framboðs og eftirspurnar - en einhverra hluta vegna er erfitt að ræða það líka. Sumt hægrafólk bendir þá á að bílaeigendur greiði nú þegar ýmis gjöld sem eigi með réttu að fara í innviði fyrir bíla en þau gjöld eru sjaldnast greidd samkvæmt notkun og hvað þá notkun á tilteknum innviðum þannig að það eru ekkert endilega góð rök. Að eyða peningum bara af því það er verið að rukka þá (frekar en að hætta að rukka þá eða rukka frekar í beinna samhengi við notkun á innviðum) er ekkert sjálfgefið og það er heldur ekkert sjálfgefið að það sé hagkvæmast að eyða þeim í fleiri akreinar eða mislæg gatnamót.

Ekki ætla ég mér nú að leysa þessi mál fyrir fullt og allt í þessum stutta pistli, þykjast hafa hinar fullkomnu lausnir sem byggjast á fullkomnu jafnvægi milli uppbyggingar mismunandi samgöngukosta, skipulagi byggðar og gjaldtöku fyrir notkun mismunandi ferðamáta og mismunandi innviða. Helsti tilgangurinn er að benda á að það samræmist illa hægripólitík að láta eins og framboðsdrifin eftirspurn sé hreinlega ekki til eða skipti ekki máli í samhengi við samgönguinnviði. Hún er augljóslega til og skiptir stundum máli. Svarið er augljóslega ekki alltaf það að eyða bara meiru í innviði.

Fulltrúar meirihlutans í skipulags- og samgönguráði fullyrða að þetta skipti máli þegar kemur að framkvæmdum Vegagerðarinnar við gatnamót Bústaðavegar og Kringlumýrarbrautar og hafa væntanlega einhver gögn og rök fyrir sér í því. Að hægrimanneskjan Sigríður Andersen slái þetta af borðinu með samlíkingu sem á hreinlega ekki við er afskaplega letilegt og lýsir einfaldlega áhugaleysi á því að kynna sér hvað er verið að tala um, sem og áhugaleysi á því að hugsa eigin hugmyndafræði til enda. Það er orðið frekar öfugsnúið þegar hægrafólk er farið að væna vinstrafólk um að sýna ekki nægilegt aðhald, fyrir að skrúfa ekki bara frá útgjöldum umhugsunarlaust - og lætur eins og stjórnmálamenn sem ákveða hvað eigi að leggja til ókeypis séu sambærilegir við búðarfólk sem selur vörur á frjálsum markaði.

En kannski það sé bara svona miklu auðveldara fyrir suma að hugsa út í aðhald þegar 'þiggjendur' eru fátækt fólk.

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni