Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Til hvers eru leikskólar?

Til hvers eru leikskólar?

Allt frá því að meirihluti skóla- og frístundaráðs samþykkti í síðustu viku tillögu stýrihóps um að breyta almennum opnunartíma leikskóla í borginni úr 17:00 í 16:30 hafa verið ansi líflegar umræður um þessa ráðagerð og um fyrirkomulag og tilgang leikskóla almennt. Svo heitar að borgarráð hefur ákveðið að fara ekki í innleiðingu á tillögunni heldur að staldra við, láta framkvæma jafnréttismat á áhrifum hennar og eiga samráð við foreldra.

Mér finnst hins vegar full ástæða til að halda þessari umræðu áfram, þar sem hún er að draga fram alls konar atriði sem hingað til hefur eiginlega verið tekið sem gefnum. Spurning sem hingað til hefur virst vera með einfalt svar - Til hvers eru leikskólar? - er kannski ekki með svo einfalt svar þegar nánar er að gáð, þegar umdeild tillaga dregur fram undirliggjandi spennu og mismunandi sjónarmið.

Við Rannveig Ernudóttir, sem er núna varaborgarfulltrúi fyrir Pírata, skrifuðum grein fyrir rétt tæpum tveimur árum þar sem við færðum rök fyrir því að dagur leikskólabarna væri of langur og að farsælasta lausnin til frambúðar væri að draga úr álagi allra; foreldra á vinnumarkaði, starfsfólks á leikskólum og ekki síst barnanna sjálfra. Það ætti ekki að gefa endalaust eftir gagnvart kröfum atvinnulífsins um viðveru starfsfólks heldur þyrfti stundum að staldra við og huga að því hvað væri börnunum fyrir bestu. Þarna vorum við að taka undir með m.a. stjórnendum leikskóla og því er ekki skrítið að sjá þá halda uppi sama málflutningi nú eftir að þeir höfðu átt frumkvæði að tillögu um að stytta daginn á leikskólum.

Foreldrar og feminískir aktivístar margir hverjir taka hins vegar ekkert sérstaklega vel í þennan málflutning, benda á hvað leikskólarnir hafa gert mikið fyrir jafnrétti kynja á heimilinum og aukna atvinnuþátttöku kvenna, og óttast að álag lendi frekar á konum þegar opnunartími leikskóla er styttur.

Átakalínan hverfist um hvort leikskólar séu menntastofnanir eða þjónustustofnanir fyrir foreldrana/atvinnulífið.

Málið er hins vegar að sjálfsögðu að leikskólarnir gegna fjölþættu hlutverki fyrir samfélagið. Með því að halda því á lofti að það sé kannski ekki eðlilegt að þeir taki endalaust við og ekki endilega best fyrir börnin er með engu gert lítið úr því hvað þeir hafa gert margt jákvætt og hversu mikilvægir þeir eru í grunninn upp á bæði jafnrétti og velferð barnanna. Með því að benda á eina hlið málsins er ekki endilega verið að taka harða afstöðu með henni heldur einfaldlega varpa ljósi á því hvað málið er víðfemt og ekki endilega einfalt.

Það er til jafnvægispunktur þar sem gætt er eins vel kostur er á að öllum sjónarmiðum - en það er bara ekkert víst að við séum þar nákvæmlega núna og þess vegna er tekist á um málið. Er núna jafnvægi milli álags starfsfólks, álags foreldra á vinnumarkaði, og ekki síst álags á börnin? Er jafnvægi milli þess sem ríkið leggur til í formi fæðingarorlofs, barnabóta og annars sem léttir undir með foreldrum og milli þess sem sveitarfélög leggja til? Getur verið að sveitarfélögin séu að fylla of mikið upp í göt með því að nota þeirra sterkasta tæki sem eru leikskólarnir? Hvernig gengur að brúa þetta blessaða bil sem gjarnan er talað um að sé milli fæðingarorlofs og leikskóla? Hver er síðan ábyrgð atvinnulífsins á því hvaða álag það leggur á foreldra (en talsmenn þess virðast vera afskaplega hrifnir af þeirri lausn að láta leikskólana taka við eins og kostur er á)?

Áður en lengra er haldið þarf þannig að skilgreina hver markmiðin með kerfinu eiga að vera og hvernig eigi að ná þeim. Nú virðast til dæmis flest núorðið vera sammála um að það sé gott fyrir öll að stytta vinnuvikuna, en það er tekist á um í hvaða röð eigi að gera hlutina. Stytting leikskóladagsins er að hluta hugsaður sem hvati fyrir vinnuveitendur til að stytta vinnuvikuna (af því að vinnuveitendur hljóta að hafa ákveðinn hvata til að laga sig að veruleika foreldra) en það er alveg eðlilegt að sumum finnist það fullbratt og treysti því ekki að atvinnulífið muni aðlaga sig svo glatt, vilji frekar bíða eftir fullvissu um að þetta muni allt ríma vel saman.

Hér má til síðan líka t.d. benda á þá frekar óþægilegu þversögn sem felst í því að stór meirihluti leikskólastarfsfólks, sem og fólks í mennta- og umönnunarstéttum almennt, er konur. Þannig er það bæði rétt að álag kvenna á heimilum við að sinna börnum hefur minnkað - en jafnframt að álag á konur almennt hefur í raun færst til, frá heimilum og yfir á sérstakar kvennastéttir. Munurinn felst í því að nú er borgað fyrir þessa vinnu en hún er samt ekki metin að sömu verðleikum og ýmis önnur störf sem skapa 'áþreifanlegri' verðmæti, þrátt fyrir að það sé undirstaða allrar annarrar verðmætasköpunar að börn vaxi farsællega úr grasi. Ef eitt stærsta markmiðið er að dreifa álagi vegna uppeldis og menntunar milli kynjanna og þar með líka gæta kynjajafnvægis í því hvaða aðbúnað börn fá í sínum uppvexti og hvaða fyrirmyndir þau hafa er ljóst að við eigum enn afskaplega langt í land. Umönnun barna er einfaldlega ennþá of lágt verðlögð og það er ennþá viðtekin skoðun að konur eigi frekar að sinna þeim verkefnum sem eru lægra verðlögð eða jafnvel alveg ólaunuð. Getum við sett okkur það markmið að það eigi að meta þessa vinnu meira, breyta viðhorfunum til hennar, og kortlagt aðferðir til að ná því markmiði? Það er risastór spurning en mjög mikilvæg.

Einmitt af því að málið er flókið og af því að það er kannski fyrst núna verið að takast almennilega á um þessi grundvallaratriði sem hingað til hefur verið tekið sem sjálfsögðum hlut er mjög jákvætt að borgarráð hafi ákveðið að skoða tillögu um styttingu opnunartíma leikskóla í víðara samhengi. Samtalið heldur þá vonandi áfram af krafti þó svo að það sé búið að hætta við (allavega tímabundið) þá ákvörðun sem varð kveikjan að samtalinu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni