Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Viðskiptablaðið gerist óvart bandamaður kennara – og bætir fyrir það

Það getur verið erfitt að þjóna tveimur herrum. Um daginn steig Viðskiptablaðið feilspor þegar það setti kjarakröfur kennara í nýtt samhengi með stríðsfrétt um stórkostlegar kjarabætur OR. Í kappi sínu við að freta á vinstri mennina í stjórn Reykjavíkurborgar blés blaðið óvænt vindi í segl kennara. Ef bornar voru saman kröfur kennara og launahækkanir hjá Orkuveitunni kom í ljós að kennarar eru bæði hófsamir og sanngjarnir í kröfum.

Ég þykist vita að í baklandi blaðsins hafi ekki verið nema miðlungs ánægja með blaðið eftir þetta. Þess vegna kom það mér ekki á óvart að í síðasta blaði birtist löng og ítarleg loftárás á kennara, skreytt með myndritum. Í löngu og ítarlegu máli má skilja blaðið sem svo að sveitarfélögin hafi frá aldamótum lítið annað gert en að dæla peningum í grunnskólana og kennara – og samt gangi nemendum sífellt verr. Í raun er sagt í greininni (sem er nafnlaus en á ábyrgð ritstjóra) að í skólunum sé illa farið með börn. Það má helst af greininni skilja að kennarar eigi heima í fangelsum frekar en skólum.

Nú verðum við að gefa Viðskiptablaðinu stig fyrir viðleitni. Það ætlaði sér greinilega að bæta upp fyrir það að hafa óvart lent í liði með kennurum í kjarabaráttunni. Vandinn er að höfundur greinarinnar (sem er væntanlega ritstjórinn) veit nánast ekkert um það sem hann er að skrifa og virðist ekkert sérstaklega fær við að afla sér þekkingar um það.

Samkvæmt Viðskiptablaðinu voru 4.876 kennarar á landinu í fyrra (sem er ekki nema u.þ.b. 10% frá réttri tölu, en eins og áður sagði: Stig fyrir viðleitni). Óöryggi blaðsins um töluna er þó strax ljóst því af einhverjum ástæðum mistekst því að teikna línurit með réttum fjölda. Þegar búið er að bæta öllum stjórnendum skólanna við kennarafjöldann endar talan á röngum stað í myndritinu.

Þessi fjöldi kennara (þótt hann sé ritstjórninni augljóslega svolítil ráðgáta) átti sum sé að sýna fram á tvennt: Hve mjög kennurum hefði verið fjölgað og svo ætlaði höfundurinn að nota töluna til að varpa ljósi á laun kennara og kröfur þeirra.

Launakröfur kennara þekkti höfundur greinarinnar ekki og miðaði þess vegna við persónulegar skoðanir einstakra kennara sem rætt hafði verið við á síðustu vikum. 

Blaðið virðist ekki hafa talað við neinn hjá samtökum kennara við undirbúning greinarinnar. Þess í stað var legið í opinberum gögnum sem höfundur greinarinnar átti augljóslega fullt í fangi með að skilja – hvað þá koma til skila. Sæmilegur blaðamaður hefði tekið upp símann og fengið staðreyndirnar sínar á hreint. En hér lamdi ekki á lyklaborð sæmilegur blaðamaður. Hér skrifaði skömmustulegur áróðurskall sem hafði óvart komið lítilmagnanum til varnar og ákvað nú að lúberja hann fyrir framan bullurnar svo ekki færi á milli mála í hvaða liði hann væri.

Blaðið segir að meðalgrunnlaun kennara séu 448 þúsund og meðalheildarlaun 499 þúsund. Þess vegna þurfi að hækka launin um 20,2 til 56,3% til að hækka þau í 600 þúsund krónur (sem blaðið heldur að hafi verið kröfur kennara vegna þess að það veit um kennara sem myndi sætta sig við þau laun). En jafnvel þótt launin yrðu 600 þúsund væru þau enn nokkuð undir meðalheildarlaunum í landinu.

Sannleikurinn er sá að meðalgrunnlaun kennara voru í mars rétt tæpar 480 þúsund krónur og meðalheildarlaun um 525 þúsund. Miðað við 600 þúsund króna forsenduna sem blaðið velur sér þyrftu heildarlaun aðeins að hækka um 14,3%. Málið er þó margslungið og flókið og krefst þess að menn hafi sæmilega innsýn í kjaramál kennara. Það hafa Viðskiptablaðsmenn ekki – sem sést á því að þeir virðast meira og minna byggja grein sína á gömlum, röngum eða úreltum gögnum – og ráða ekki einu sinni við það að halda samkvæmni milli texta og myndrita. Það mætti segja mér að íslensk viðskiptablöð komi verulega illa út í samanburði við slík blöð í öðrum löndum innan OECD.

Ályktunin sem Viðskiptablaðið dregur af skólastefnu sveitarfélaga er meðal annars kjarnaður í þessari efnisgrein:

„Gríðarleg útgjaldaaukning hefur hins vegar ekki skilað neinu, nema versnandi árangri íslenskra grunnskólanemenda. Nú er svo komið að tæpir 9 nemendur eru á hvern grunnskólakennara, en þeir voru tæplega 10,5 árið 1998. Ef aðeins er miðað við kennara með kennsluréttindi eru nemendur á hvern slíkan kennara nú 9,5, en voru 12,7 árið 1998.

Fleiri kennarar, meira menntaðir kennarar og stóraukin útgjöld. Árangurinn er hins vegar verri en enginn.“ 

Svona myndi enginn skrifa sem eitthvað veit um skólamál. Svona myndi ekki einu sinni neinn skrifa þótt hann vissi lítið um skólamál, hefði hann sæmilega dómgreind. Þetta á væntanlega að vera einhver tegund af melódramatík. Árangurinn verri en enginn? Hér hefði sæmilegur ritstjóri dregið strik yfir málsgreinina og skrifað: „þvæla“ eða „innantóm klisja“ í handrit fréttarinnar. 

Það er alveg rétt að kostnaður við grunnskólann hefur stóraukist frá því skömmu fyrir aldamót þegar sveitarfélögin tóku við skólanum frá ríkinu. Þess er ekki getið í blaðinu að mikið af þeim kostnaði kemur kennurum og kjarmálum þeirra ekkert við. Við höfum fjárfest í gríðarlegu magni af steypu á þessum tíma. Við höfum lengt skóladaginn og skólaárið, greitt niður dagvistun og fæði og stigið margvísleg skref til margfalt metnaðarfyllra skólakerfis en hér var á síðustu öld. 

Hið eina sem OECD hefur reglulega sýnt fram á að sé ekki ofalið í kostnaði við íslenska skólakerfið eru kennararnir – sem hafa hér kjör sem samrýmast kjörum kennara í mun fátækari löndum. 

Það er rétt að kostnaður á hvern nemanda hefur aukist hér á landi. Viðskiptablaðið sleppir þó að nefna að þegar tekið er tillit til aldurssamsetningar þjóðarinnar og dreifbýlis þá kemur í ljós að viðmiðunarþjóðir okkar leggja meira til sinna skólakerfa en við (sjá t.d. hér).

Það þarf einfaldlega meira fé til að reka metnaðarfullt skólakerfi í dreifbýlu landi með lágan meðalaldur. Vandinn tengist síðan slakri efnahagsstjórn.  Í kreppum eigum við lítinn pening til að laga málin og þegar við eignumst pening teljum við okkur ekki þurfa á menntun að halda. Menntun er enda hættuleg því hugarfari sem liggur handan við málpípuna á því gjallarhorni sem Viðskiptablaðið er orðið – menn gætu farið að efast um einfeldningslega heimsmynd sína.

Í lok greinarinnar gerir höfundurinn tilraun til að blása kjarki í brjóst lesenda sinna. Það er merkileg lesning. Að sjálfsögðu telur hann að ástæða þess að við stöndum illa í Pisa sé of mikið jafnræði. Allir standi sig illa en með einkaskólum verði hér til einhverskonar elíta sem rúlli upp Pisa. Ég efast ekkert um að höfundurinn haldi að þetta sé rétt. Ég efast heldur ekki um að hann hafi ekki hundsvit á Pisa-könnunum og t.d. því hvernig þau flettu ofan af einkavæðingarbábyljum Svía sem trúðu einmitt nákvæmlega þessu. Þar kom í ljós í Pisa-niðurstöðunum að einkarekstur í skólakerfinu skilaði litlu öðru en auknum kostnaði og verri þjónustu. 

Það er flókið að efla skólakerfi. Pisa-prófin eru lestrarpróf. Nemandi sem er góður í náttúrufræði en lélegur í lestri mun vera lélegur bæði í náttúrufræði og lestri á Pisa-prófinu. Hefðbundinn lestur hefur átt undir högg að sækja. Kannski vegna þess að hér óx úr grasi heil kynslóð barna sem átti foreldra sem græddu allan daginn og langt fram á kvöld, og eftir það var grillveisla en ekki kvöldlestur. Lesturinn verður hægt að laga. Það er bara ekki nóg. Hin stærri mynd er að allra samfélaga innan og utan OECD bíða verulegar áskoranir þegar líða fer á öldina. Gildir þá einu hvort um er að ræða Finna, Singapúra eða Íslendinga. 

Pisa-bylgjan hefur hér eins og annarsstaðar tilhneigingu til að ala á grunnri og ástríðufullri umræðu um menntamál í smá stund. Svo lognast hún útaf. Fyrst og fremst vegna þess að of margir hafa ekki einlægan áhuga á þessum málaflokki. Slíkt áhugaleysi er banabiti samfélaga. Ég set hér í lokin mynd sem sýnir hvað er líklegt til árangurs og hvað ekki þegar kemur að okkar veikasta þætti, náttúrufræðinni:

Hér blasir það við, sem allir sem vit hafa á þekkja, árangur skóla byggir fyrst og fremst á faglegri forystu kennara og stjórnenda. Afskipti fyrirbæra eins og Menntamálastofnunar hafa yfirleitt neikvæð áhrif á árangur ein og sér. 

Við þurfum að mennta framúrskarandi góða kennara, koma þeim inn í skólana og halda þeim þar. Það er töfraformúlan.

Það verður bara ekki gert ef laun kennara eru langt fyrir neðan mörk allra annarra þjóða. Þá skiptir engu máli þótt við séum voða dugleg að fjárfesta í steypu eða dísli á skólabílana.

Það ber að fagna allri raunverulegri umræðu um skólamál. Það er líka ljóst að ákveðin atriði sem snerta lesskilning og vandvirkni eru ekki í lagi í skólunum okkar. En það er kannski ekki skrítið ef samfélagið sjálft gerir ekki meiri kröfur en þær sem birtast í grein Viðskiptablaðsins.

Að Viðskiptablað, sem meira að segja naut einu sinni virðingar, kunni ekki að fara með tölur, myndir eða staðreyndir; geri enga raunverulega tilraun til rannsóknar á viðfangsefninu og fylli upp með glórulausum gífuryrðum og klisjum – sýnir okkur auðvitað að á Íslandi þarf að gera ótal margt miklu betur.

Það er samfélagslegt verkefni okkar allra að tryggja að svo verði.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni