Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Um málfrelsi

Í gærkvöldi hélt Félag áhugafólks um heimspeki viðburð í Hannesarholti um málfrelsið. Þar hélt Róbert H. Haraldsson fyrst erindi og svo voru pallborðsumræður og spurningar úr sal.

Erindi Róberts snerist um að gera grein fyrir klassískum röksemdum um mikilvægi málfrelsis og vangaveltum um takmarkanir þess. Hann benti á að hægt væri að bregðast við tjáningu með þrennum neikvæðum hætti: Með lagasetningu, bönnum og refsingu; með siðferðislegri þvingun almenningsálitsins eða með gagnrýni. 

Hér er hægt að horfa á erindið og umræðurnar.

Þetta kveikti alltsaman auðvitað heilmiklar hugleiðingar í kolli mínum. Það varð ljóst í umræðunum að þau sjónarmið sem mestur hiti var í lúta að því að málfrelsi eða tjáningarfrelsi sé ekki aðeins rétturinn til að tala – heldur líka rétturinn til að heyrast. Í samfélagi þar sem tilteknir hópar eru nánast ósýnilegir eða búa við falska eða brenglaða ásýnd geti umræða, sem sakleysisleg er í sjálfri sér, grafið undan slíkum hópum. Þannig geti skopmyndir eða níð í garð valdalítilla hópa orðið til þess að þeir njóti ekki sannmælis og hafi ekki þann aðgang að samfélaginu sem málfrelsið á að tryggja þeim.

Þetta er flókin hugmynd og ég veit hreinlega ekki hvert hún leiðir mann. Ég held að frekari umræða geti bæði styrkt hana – og grafið undan henni. Ég þarf að hugsa betur um þetta.

Annað finnst mér þó skýrara og á snertipunkt við atriði í upphafserindi Róberts.

Málfrelsisumræða hefur tilhneigingu til að verða velsæmisumræða. Niðurstaðan er þá yfirleitt sú að eitthvað megi en sé óþarft. Þetta var meginröksemd í umræðum um teikningarnar af Múhameð spámanni fyrir nokkrum árum (þótt sú umræða hnitist líka um fyrrnefnda atriðið).

Ég held ég sé ósammála þeirri skoðun að umræðan eigi að vera falleg og góð. 

Ég held að málfrelsið snerti skoðanamyndun í samfélaginu, leitina að sannleikanum jafnvel. Skoðanamyndun geti verið heilbrigð og óheilbrigð – og að sömu lögmál gildi um þessa heilsu og aðra heilsu.

Gott heilsufar er býsna vítt svið. Í tilfelli líkamlegrar heilsu snýst það ekki um tiltekna staðalmynd (þótt slíkt sé oft gefið í skyn). Það er hægt að vera heilbrigður á svo margvíslegan hátt. Hið sama gildir um andlega heilsu. Andlegt heilbrigði er miklu víðara róf en við erum oft látin halda. Hvað varðar líkamlega og andlega heilsu er fjölbreytni grunnþáttur.

Hið sama gildir um skoðana- eða umræðuheilsu. Í heilbrigðu samfélagi eru ólíkar skoðanir. Eflaust halda margir að þeirra skoðanir séu þær einu heilbrigðu og að aðrar skoðanir séu þar af leiðandi verri – en það er í mörgum tilfellum rangt. Skoðanir eru vissulega misgóðar en það er til fullt af heilbrigðum skoðunum og margar stangast þær á innbyrðis. Við einfaldlega rúmum ekki allar þær góðu skoðanir sem við gætum haft – og því þurfum við að velja úr.

Andstæða heilsu er veikindi. 

Veikindi gegna lykilhlutverki í því að vera heilbrigður. Við komumst oft til líkamlegrar heilsu með því að verða veik. Það er af glímunni við sóttkveikjurnar sem við verðum sterkari. Jafnvel þegar við erum bólusett við alvarlegum sjúkdómum til að sleppa við að verða veik þá er það gert þannig að líkaminn er smitaður af veiklaðri útgáfu óværunnar – og látinn sigrast á henni sjálfur.

Vondar skoðanir eru eins og sóttkveikjur.

Ef við útrýmum þeim og sjáum til þess að allar skoðanir séu göfugar og góðar þá búum við í sótthreinsuðu umhverfi. Það kemur niður á heilsu okkar. Til dæmis þannig að ónæmiskerfi okkar verður brogað og við tileinkum okkur ofnæmi.

Á sama hátt og við vitum að börnum er hollt að velta sér upp úr skít, skrapa á sér olnbogana og fá flensu – þá er okkur öllum hollt að alast upp innan um vondar hugmyndir. Okkur er meira að segja hollt að smitast stundum af þeim. Taka glímuna, þrauka gegnum sótthitann og slenið – og koma sterkari út en maður fór inn.

Samfélag hinna góðu skoðana er á endanum ólífrænt samfélag. Samfélag úr tengslum við það hvernig líffræði manna virkar. Það gæti virkað ef við værum vélar – en það virkar ekki meðan við erum menn.

Það sem ég held að skipti mestu máli í að byggja upp skoðanaheilbrigði er að ala upp fólk sem ber leitast eftir heilbrigðum skoðunum. Það er líka eina leiðin til að tryggja lýðheilsu að öðru leyti.

Ég held að sá geti aldrei orðið fyllilega heilbrigður – sem ekki hefur orðið lasinn. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni