Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Við hvern á síminn að tala íslensku?

Google hefur sent frá sér heyrnartól sem eru sérhönnuð til að nota með þýðingarforriti þeirra og talgervli. Í grófum dráttum hefur fyrirtækið nú hannað Babelfiskinn úr skáldsögu  Douglas Adams um puttaferðalög um Alheiminn. Nú getur síminn þinn hlustað á erlend mál og þýtt þau fyrir þig jafnóðum á móðurmál þitt. 

Nú er freistandi að gera grín að vélþýðingum mála – en staðan er löngu orðin þannig að ærin ástæða er til að taka málinu alvarlega. Vélþýðingar munu hafa róttækar afleiðingar á tungumál víða um heim.

Efnisgreinin hér að ofan þýðist svona yfir á ensku í forritinu eins og mál standa nú:

„Now it's tempting to make fun of machine translation - but the situation has long been so bad that it's a serious matter. Machine translation will have drastic consequences in languages around the world.“

Allir sem notað hafa tækni sjá að þótt þýðingin sé vissulega gölluð (enda er galli í íslenskunni) þá hefur þýðingargetan margfaldast á örfáum árum. Raunar ræður forritið mjög vel við einfalt mál. Hefði ég skrifað...

„Það er freistandi að gera grín að tölvuþýðingum. Samt er málið alvarlegt. Slíkar þýðingar munu hafa áhrif á öll tungumál.“

...þá hefði Google þýtt það sem:

„It is tempting to make fun of computer translations. Yet the situation is serious. Such translations will affect all languages.“

Í fljóti bragði sýnist mér að áhrif vélþýðinga muni bjóða íslenskunni upp á þrjá kosti.

1. Ef íslenska nær aldrei flugi en vélþýðingar milli annarra mála gera það, munum við líklega hætta að nota íslensku. Fyrst á einhverjum sviðum – loks að öllu leyti.

2. Ef tölvuþýðing íslensku verður nokkuð góð en að einhverju leyti ófullkomin er ekki ólíklegt að íslenskan muni laga sig að tækninni og ganga gegnum mikla einföldun.

3. Ef vélþýðing íslensku tekst með ágætum á hún möguleika á að þrífast í réttu hlutfalli við gæði þýðinganna.

Ég held að aðrir möguleikar séu varla í stöðunni.

Af öllum þessum kostum er sá síðasti augljóslega bestur. Hinir tveir eru báðir að nokkru leyti hrollvekjandi.

Við stöndum á stærstu krossgötunum í seinni tíma sögu íslenskrar menningar.

Þess vegna er einstaklega ógeðslegt að vakna upp við skoðanakönnun sem segir að 1% íslenskra kjósenda telja menningu aðkallandi kosningamál. Eitt fokkíng prósent! 

En það er svosem í takti við annað. Í neðstu fjórum sætunum í könnununum finnur maður hina vanheilögu þrenningu: Menningu, umhverfismál og menntamál.

Svona þjóð verðskuldar hvorki þessa eyju né tungumálið sem fylgir henni.

Íslenska þjóðin er þjóð þumba. Hún virðist nánast staðráðin í að tortíma sér. Nú rignir inn greinum á miðla þar sem tæknin er töluð niður. Fólk gerir snjalltæki að bitbeini og vill helst ekki sjá að næsta kynslóð noti þau í námi sínu. Fólkið lítur niður á vélþýðingar og skiptir þá engu þótt megnið af þessu fólki gæti t.d. ekki þýtt orðið „bitbein“ yfir á ensku (Google kann það).

Það eru að mörgu leyti tilefni til að taka upp örlagatrú á Íslandi. Eftir hroðalega efnahagskreppu (sem til dæmis er ein rót þess að Spánn rambar á barmi borgarastyrjaldar) barst okkur hjálp úr óvæntum áttum. Fyrst syntu hingað heilu makrílhóparnir til að láta slátra sér – og á eftir þeim komu ferðamenn í röðum. Við fengum allt upp í hendurnar til að bæta fyrir það að hafa látið innviði samfélagsins morkna.

Í stað þess að nota tækifærið og nýta efnahagsbatann til að lagfæra samfélagið okkar – fer hann að mestu leyti í neyslu. Hann sést í því að myllumerkið #balí hefur leyst af hólmi #benídorm. Eða réttara sagt: #bali í stað #benidorm.

Eitt prósent landsmanna telur brýnt að setja menningarmál (þar á meðal tungumálið) á oddinn. Tvö prósent hafa nagandi áhyggjur af umhverfinu. Sex prósent af menntakerfinu.

Er nema von að Platón hafi talið lýðræðið hentuga leið fyrir samfélög til að tortíma sér. Á Íslandi er meirihlutavilji fyrir því.

Menntamál, menningarmál og umhverfismál eru öll til lengri tíma mikilvægari en það hvort stýrivextir séu 0,75 prósentustigum hærri eða lægri. 

Lykilatriðið hér: Til lengri tíma.

Íslendingar hugsa ekki til lengri tíma. Ef það er þurrkur, þá þarf að heyja; ef það er makríll, þá þarf hann að deyja.

Íslensk pólitík er pólitík skammtímalausna og skammtímahagsmuna. Skammtímalausnir geta komið þér til Balí. Skammtímalausnir geta tæmt vasa ferðamanna. Skammtímalausnir geta tryggt þér nýjustu heyrnartólin frá Google og síma sem kann að tala íslensku.

En í ríki skammtímalausna er langtímaafleiðingin sú að þótt síminn kunni smá íslensku, þá hefur hann á endanum engan til að tala við.

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni