Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Ris og fall Viðreisnar

Það er farið að líta út fyrir að Viðreisn falli af þingi í kosningunum seinna í mánuðinum. Fari svo verður við ramman reip að draga í sveitarstjórnarkosningunum næsta vor.

Það er að mörgu leyti synd. Ég held að innan Viðreisnar sé upp til hópa mjög heiðarlegt og umbótasinnað fólk. Og það er virðingarvert að reyna að stofna framboð hægra megin á miðjunni sem leggur áherslu á slík grundvallargildi – nú þegar skítugur popúlismi á upp á pallborðið hér á landi eins og annarsstaðar. Það yrði eftirsjá að Viðreisn.

Flokkurinn virðist nú róa lífróður. Búið er að setja formanninn inn í skáp og keyra á ímynd annarra oddvita.

Ris (og fall) Viðreisnar eru athyglisvert fyrirbæri í íslenskum stjórnmálum. 

Ég skrifaði færslu í fyrravor um ákveðinn trúverðugleikavanda innan Viðreisnar. Síðan hlaut flokkurinn glimrandi kosningu.

Mín upplifun var sú (miðað við fólkið í kringum mig sem kaus flokkinn) að þangað hafi leitað mikið af atkvæðum sem ekki vildu vera hluti af kosningabandalagi „Lækjarbrekkustjórnarinnar“ – en fundu sér ekki stað hjá Sjálfstæðisflokki.

Það leið ekki langur tími frá kosningunum að fólk í kringum mig fór að tala um eftirsjá. Einn vinur minn talaði um koss dauðans, allt sem hann kjósi ónýtist ávallt á kjörtímabilinu.

Ef við gætum sanngirni þá var ábyrgt af bæði Viðreins og Bjartri framtíð að fara í stjórnarsamstarfið í fyrra. Stjórnmálamenn eiga að mynda ríkisstjórnir. Þá hefur Viðreisn skorið sig frá mörgum öðrum flokkum að þar eru menn nokkuð heiðarlegir í svörum og virðast oftast vera að reyna að útskýra hlutina í viðtölum – í stað þess að óskýra þá (sem er hinn almenni stjórnmálasiður). Að þessu leyti finnst mér Benedikt formaður hafa verið mjög góður.

Þorsteinn Víglundsson hefur nokkrum sinnum sýnt frumkvæði að því að leiðrétta augljóst óréttlæti og Þorgerður Katrín hefur staðið upp í hárinu á útgerðarmönnum og bændum.

Að þessu metnu ætti Viðreisn að vera að ganga miklu betur.

Ég held að vandi flokksins sé sá sami og í upphafi.

Þær umbætur sem Viðreisn stendur fyrir þurfa fyrst og fremst að eiga sér stað innan ramma hins borgaralega hægri. Fólkið á bak við flokkinn hefði átt að berjast af meiri krafti við að bæta Sjálfstæðisflokkinn innan frá. Í stað þess að flýja af hólmi án þess að nein veruleg merki hefði verið um baráttu.

Átakafælið umbótaafl er ekki endilega mjög trúverðugt. Og það tekur ekki svo auðveldlega fylgi frá róttækari umbótaöflum.

Í stað þess að hægrið á Íslandi hafi lagast síðustu misseri er það komið í afkáralega stöðu. Formaður Sjálfstæðisflokks gæti hvort tveggja verið kenndur við forystu eða for. Og hann stendur óhaggaður – bæði vegna þess að flokkurinn hefur byggt um hann varðmúr með afspyrnu veikri forystu að öðru leyti og þess að háværustu flokksmennirnir eru orðnir vænissjúkar, afkáralegar öfgafígúrur. Á meðan situr hinn þögli meirihluti og heldur tryggð við flokkinn sinn og umber allt ruglið.

Þetta fólk fylgdi ekki með yfir í Viðreisn. 

Og nú er flokkurinn að lognast út af – þrátt fyrir að erindi hans hafi aldrei verið meira.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni