Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Útganga kennara klukkan 12:30 á miðvikudag

Útganga kennara klukkan 12:30 á miðvikudag

Næsta miðvikudag, síðasta dag mánaðarins, munu nokkrir kennarar hlusta á hádegisfréttir. Verði ekki búið að semja þá ætla þeir að ganga á fund stjórnenda, afhenda uppsagnir sínar og ganga á dyr þann daginn. 

Ellefu hundruð kennarar hafa þegar ákveðið að fylgja þeim út. Þeir skora á alla grunnskólakennara á Íslandi að gera hið sama. 

Þetta verður þriðja útgangan á þremur vikum. Hin fyrsta var klukkan 14:30, önnur klukkan 13:30. Nú verður gengið út 12:30. Það mun hafa áhrif á skólastarf. Stjórnendur skóla fengu að vita af þessu í gærkvöldi. Fjölmiðlar í kvöld.

Útganga er vægasta viðbragð sem kennarar geta sýnt. Ég held þær verði ekki fleiri.

Heilu skólarnir verða rjúkandi rústir í vor.

Þann 1. mars má reikna með að þessir kennarar yfirgefi skólana endanlega. Í eldri lögum var heimilt að framlengja uppsagnarfrest þeirra um þrjá mánuði. Það má ekki lengur. Börn verða án kennslu í vor.

Nema að samningar náist.

Þetta er grátlegt.

Sérstaklega í ljósi þess að mörg sveitarfélög eiga ekki í nokkrum vandræðum með að semja við kennara. Aðeins það fé sem Reykjavíkurborg ætlar sér að eiga afgangs í lok næsta árs fer langleiðina með að greiða þetta. 

Eina ástæða þess að ekki er samið er að sveitarfélögin ákváðu einhliða að gera samkomulag, án aðkomu kennara, við aðra aðila vinnumarkaðarins um að laun kennara mættu ekki batna. 

Nú eru þau í sjálfheldu.

Ungir kennarar skila inn uppsagnarbréfum í tugavís þessa dagana. Eldri kennarar eru bundnir vistarbandi. Þeir hætta á næstu árum. Þá hrynur kerfið í heild. Örfáir stúdentar í kennaranámi munu hvergi nærri duga til að fylla í skörðin.

Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur sveitarfélaga. Ég áfellist Reykjavík. Reykjavíkurborg mun leyfa skólakerfinu að skemmast þrátt fyrir að hún láti foreldra greiða þær upphæðir sem þarf til að fyrirbyggja skaðann. Borgin ætlar einfaldlega halda fénu eftir og safna vöxtum.

Það er komið að ögurstundu. Ég birti hér einn af fjöldamörgum tölvupóstum sem mér hafa borist upp á síðkastið frá fólki úti í samfélaginu:

„Til Ragnars Þórs Péturssonar, grunnskólakennara.

Hef lesið pistla þína um launamál grunnskólakennara og á ekki eitt einasta andskotans orð.

Hvernig stendur á því að almenningur, foreldrar og stjórnvöld skilja ekki að börn eiga BÓKSTAFLEGA ALLT undir góðri grunnskólamenntun ?

Hvers vegna þyrpast ekki þúsundir foreldra út á götur og krefjast mannsæmandi launa handa grunnskólakennurum sem eru ábyrgir fyrir menntun barna þeirra ? Hagsmunir foreldra og barna eru ekki minni en kennara.

Þegar grunnskólakennarar krefjast hærri launa er fjarvera foreldra sýnileg; þeir gera engu að síður harðar kröfur til kennara en dæsa yfir óþægindunum - launakröfur/verkföll - svona prívat

Hafa foreldrar endanlega misst málið að undanskildu e.t.v. 1% ?

Þeir sem leggja grunn að menntun barna bera einfaldlega mesta ábyrgð ALLRA í samfélaginu ?

ENGINN verður kennari, skipstjóri, lögregluþjónn, læknir, rafvirki o.s.frv. NEMA MEÐ GÓÐRI UNDIRSTÖÐU ÚR GRUNNSKÓLA.

Ætti að vera öllum auðskilið.

Er fædd 1938.. I lagi að birta þessi orð, en ekki undir nafni. Kveðja.“

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni