Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Spurningar til framboðanna

Eftirfarandi spurningar sendi ég á frambjóðendur til Alþingiskosninga áðan. Þeir sem fengu þær sendar voru: PíratarSjálfstæðisflokkurVinstri grænSamfylkingBjört framtíð, Viðreisn og Framsókn.  Ég mun birta hér þau svör sem mér berast – og ekki síður: vekja athygli á þeim flokkum sem ekki svara spurningunum eða hafa ekki sett sig nægilega inn í málin til að svara þeim. Með einum eða öðrum hætti eru meiri líkur en minni að málefni grunnskólans endi á borðum þingmanna. Það er eðlileg krafa að þeir geri grein fyrir stefnu sinni fyrir kosninga.

 

Kæru frambjóðendur til Alþingis.

Um leið og ég þakka ykkur framboð ykkar til ábyrgðarstarfa fyrir þjóðina vil ég gjarnan spyrja flokkinn nokkurra spurningar. Svarið skiptir íslenska kennara eins og mig miklu máli. 

Eins og ykkur er kunnugt um eru íslenskir grunn- og tónlistarskólakennarar án kjarasamninga. Grunnskólakennarar hafa fellt tvö afleit samningstilboð á síðustu mánuðum og samninganefnd fullyrðir að sveitarfélögin segi að lengra verði ekki komist.

Á sama tíma berast fréttir af því að laun skólafólks séu að meðaltali þau lægstu á landinu, nýliðun í skólakerfinu er í molum og lífeyrisréttindi þeirra sem nú starfa við kennslu eru í hættu. Þá fer því fjarri að sveitarfélögin uppfylli skilyrði laga um menntun leikskólakennara.

Staðan í skólamálum er því afar alvarleg. Að gefinni reynslu er einn möguleiki í stöðunni sá að átök eigi sér stað, jafnvel verkföll. 

Ýmsir sveitarstjórnarmenn hafa talað fyrir því í nokkur misseri að gerð verði krafa á ríkisvaldið um að lög verði sett á kjarabaráttu kennara fáist þeir ekki til að semja um þau kjör sem sveitarfélögin bjóða. Þá hafa ýmsir krafist aðkomu ríkisins að málum með þeim hætti að það styrki tekjustofna sveitarfélaga svo þau geti staðið undir sjálfbæru menntakerfi.

Mjög líklegt verður að teljast að málefni skólans endi með einum eða öðrum hætti á ykkar borði.

Í tilefni af þessu spyr ég flokkinn:

1. Hefur flokkurinn sett sér stefnu sem komið getur að gagni við að afstýra hinu alvarlega ástandi sem ríkir í kjaramálum kennara og atgervisflótta úr kennarastétt? Hver er hún? Ef ekki, hvers vegna ekki?

2. Munt flokkurinn beita sér fyrir eða samþykkja lög þess efnis að tekjustofnar sveitarfélaga verði styrktir í því skyni að bæta megi kjör kennara?

3. Fari svo að sveitarfélög telji sig ekki geta boðið ásættanleg kjör kemur til greina af ykkar hálfu að setja lög á kjarabaráttu kennara og munuð þið veita slíkum lögum stuðning?

4. Fari svo að ríkisstjórn setji lög á kjarabaráttu kennara, munuð þið samþykkja slík lög innihaldi þau sérstaka fyrirvara sem ætlað er að halda kjörum kennara áfram hlutfallslega lágum, t.d. í því skyni að viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði. 

Um tíu þúsund kennarar og enn fleiri foreldrar myndu gjarnan vilja vita svar ykkar og annarra flokka til þessara spurninga.

Ég mun birta þessar spurningar opinberlega (á bloggsíðu minni: http://stundin.is/blogg/maurildi) og innan hópa kennara á samskiptamiðlum, ásamt nöfnum þeirra flokka sem fá þær sendar. Ég mun ennfremur birta svör sem mér berast og taka fram hverjir kjósa að svara þessu ekki eða hafa ekki sett sér stefnu þrátt fyrir augljóst mikilvægi þessara mála.

Með von um farsælt gengi í verkefnunum framundan,

Ragnar Þór Pétursson

kennari

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni