Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Pólitískur ómöguleiki lífeyrisfrumvarpsins

Þegar Bjarni Ben setti inn í þingið rétt fyrir síðustu kosningar frumvarp um stórfelldar breytingar á lífeyrisréttindum urðu margir hvumsa. Þetta þótti alltof stórt mál og mikið að vöxtum til að troða því gegnum þingið undir tímapressu. Það var þó reynt til þrautar og þegar Bjarni var spurður út í það hvort ekki þyrfti að vinna málið betur sagði hann:

„Jú, ég get alveg deilt því að ég hefði viljað hafa rýmri tíma og meira svigrúm, lengri umsagnarfrest o.s.frv., en ég tel samt að við höfum skyldu til að láta reyna á það til fulls hvort ekki geti myndast samstaða á þinginu.“

Þessi orð staðfesta það sem vitað var. Þetta mál er augljóslega þess eðlis að hér þarf að vanda sig. Það má ekki láta tímaþröng verða til þess að það renni gegnum þingið án eðlilegrar meðferðar eða rýni. Bjarni benti þó á að tvenn grundvallaratriði réttlættu meðferð málsins:

„Það sem færir mér bjartsýni í brjóst hvað það varðar er sú staðreynd að allir þeir sem hagsmuni eiga undir eru aðilar að samkomulaginu og hafa kynnt sér málið nú þegar í þaula.“

Sem sagt: Málið er óumdeilt. Það nýtur stuðnings allra sem að því koma. Og það er að vandlega athuguðu máli.

Þetta eru sannfærandi rök. Jafnvel flókin mál ættu að eiga leið gegnum Alþingi ef þau hafa verið skoðuð í þaula og um þau er breið samfélagsleg sátt. Það liggur við að ég vilji gera niðurlag Bjarna að mínu:

„Þetta mundi allt saman horfa öðruvísi við ef við værum að skella hér fram eftir árangurslausa tilraun til að ná samningum frumvarpi þar sem við segðum: Það hefur ekki tekist neitt samkomulag en þá ætlum við að höggva á hnútinn með þessu frumvarpi. Þá værum við í allt annarri stöðu. Þetta byggir allt á samkomulagi. Þess vegna trúi ég því að þetta sé framkvæmanlegt.“

Þetta er allt rétt. Alþingi ætti ekki undir neinum kringumstæðum að byggja lög um lífeyrismál á því að það ætli að höggva á hnút án samkomulags við þá sem málið snertir. Slíkt væri óframkvæmanlegt. Það væri pólitískur ómöguleiki.

Þrátt fyrir allt fór málið ekki í gegn fyrir kosningar. Það er nú komið inn í þingið aftur – og nú er tímapressan meiri en nokkru sinni fyrr. Málið skal að lögum og það fyrir áramót.

Fjöldi fólks og stofnana hefur sent nú inn umsagnir um frumvarpið. Ef þær eru skoðaðar kemur í ljós að hvorug meginröksemd Bjarna stenst skoðun.

Málið hefur ekki stuðning allra hagsmunaðila. Þvert á móti skiptast umsagnir í nákvæmlega tvo flokka. Þá sem styðja málið og vilja að það verði að lögum innan tíu daga. Í þessum hópi eru meira og minna öll sveitarfélög á landinu sem senda inn staðlað bréf að forskrift Sambands sveitarfélaga. Síðan eru það hinir, stór og lítil samtök launþega, fræðimenn og aðrir. Þeir eru einum rómi á móti frumvarpinu. 

Málið var heldur ekki skoðað í þaula. Af umsögnun að dæma er alveg ljóst að málið hefur ekki verið grannskoðað. Ýmsir kvarta yfir tímaskorti og pressu. Skýrasta dæmið um flumbruganginn er að sumir af þeim sem skrifuðu undir samkomulag um breytingu á lífeyrisréttindum þurftu síðan að draga stuðning sinn til baka þegar ljóst varð að frumvarpið endurspeglaði ekki samkomulagið.

Málið er „í allt annarri stöðu“ eins og Bjarni Ben orðaði það í fyrstu umræðu um frumvarpið inni á þingi. Þau rök, sem réttlæta áttu hraða málsmeðferð, reynast í grundvallaratriðum augljóslega röng.

En um hvað snýst málið?

Í stuttu máli er þetta blanda af þremur vandamálum. Hið fyrsta er hækkandi meðalaldur þjóðarinnar og fyrirsjáanleg fjölgun aldraðra og öryrkja. Annað er munur á eftirlaunakjörum opinberra og almennra starfsmanna á Íslandi og þriðja er tilraun til að endurhanna íslenskan vinnumarkað með samkomulagi allra aðila.

 

Hver er munurinn á eftirlaunum opinberra og almennra starfsmanna?

Í fyrsta lagi er hið opinbera ábyrgt fyrir lífeyri opinberra starfsmanna. Í hruninu gilti því hið sama um lífeyri opinberra starfsmanna og bankainnistæður stóreignafólks – ríkið ábyrgðist greiðslur. Hið sama gildir ekki um almenna lífeyrissjóði. Íslenska kerfið er þannig að þeir mega tapast án ábyrgðar ríkisins. 

Það er auðvitað frekar dæmigert fyrir Ísland að sú leið sem hið opinbera vill fara svo allir njóti sambærilegra lífeyriskjara sé að allir eigi á hættu að tapa lífeyri sínum. Í þessu samhengi má benda á að það var ekki skylda ríkisins að bjarga bankainnistæðum milljarðamæringa við hrun, það var pólitísk ákvörðun. 

Opinberir starfsmenn eru eðli máls samkvæmt ekki sáttir við að tekin séu af þeim réttindi með þessum hætti. Ýmsir telja að það sé hreinlega ólöglegt. Lífeyriskjör séu hluti af starfskjörum og breytingar á þeim þurfi að vera gerðar í kjarasamningum. Jafnvel þá sé aðeins hægt að opna á að fólki sé gefinn kostur á að afsala sér réttindum, t.d. gegn hærri launum.

Óumdeilt er að opinberir starfsmenn njóta betri lífeyriskjara en starfsfólk á almennum markaði en launakjör fólks á almennum markaði eru að öðru leyti betri. Aðilar vinnumarkaðarins ætla sér svo að taka áratug eða svo í það að jafna launakjör á þessum mörkuðum í framhaldi af breytingu lífeyriskjara. Það er, ef lögin verða samþykkt.

Nú kæmi sér auðvitað vel að setja lög um lífeyrisréttindi á næstu dögum í ljósi þess að vinnumarkaðurinn er farinn að nötra. Ríkisvaldið getur til dæmis auðveldlega rökstutt lög á sjómannaverkfall með þeim hætti að sá samningur sem sjómenn felldu sé sá rausnarlegasti sem í boði sé eigi ekki enn að gliðna milli opinberra og almennra launþega. Það verður raunar hægt að gefa löggjafanum mun meira vald í að handstýra kjaramálum næstu árin en hingað til. Hefðbundið samningsfrelsi heyrir sögunni til í bili.

Að því gefnu að áætlunin haldi. Það er svo ekkert víst.

Annar munur á lífeyri opinberra starfsmanna og almennra er að menn ávinna sér lífeyri með ólíkum hætti. Opinber starfsmaður fær sama tilkall til lífeyris fyrir hvert unnið ár. Almennur starfsmaður fær mun minni lífeyrisréttindi þegar hann er orðinn gamall. Ástæðan er sú að stjórn lífeyrissjóðsins hefur mun meiri tíma til að ávaxta það fé sem ungur launþegi leggur sjóðnum til en gamall.

Þetta þýðir t.d. að ég, fertugur kennari, hef unnið frá því ég var tvítugur fyrir mun lakari lífeyrisrétt en ég hefði fengið á almennum markaði. Næstu tvo til þrjá áratugi hefði ég átt að ávinna mér meiri réttindi innan opinbera geirans en hins almenna. Nú stendur sumsé til að breyta því.

Ef ekkert væri að gert hefði breyting sem þessi það í för með sér að ég stæði uppi 65, 67 eða 70 ára gamall með mun minni rétt til lífeyris en ég hefði haft eftir jafn langt starf á almennum markaði. Til að fyrirbyggja þetta er hluti af samkomulaginu að ríkið leggur lífeyrissjóð mínum til fé sem sjóðurinn má geyma eða eftir atvikum nota í tvo áratugi til. Eftir það er varúðarsjóðnum að hluta eða í heild skilað og eftir það skal sjóðurinn spjara sig sjálfur.

Í fjölmörgum umsögnum um málið kemur fram að varúðarsjóðurinn sé að greinilega alltof lítill. Sjóðurinn muni ekki ráða við skuldbindingar sínar og því sé augljóst að verið sé að gera breytingar einhliða sem valda muni því að fólk sem hingað til hefur átt tryggð eftirlaunaréttindi muni fá skert eftirlaun.

Stuðningsmenn frumvarpsins telja mjög rausnarlegt af ríkinu að leggja lífeyrissjóði opinberra starfsmanna til varúðarsjóð. Þetta séu háar upphæðir sem  jafnvel geti valdið ólgu í efnahaslífinu og ýtt undir þenslu og jafnvel annað hrun, en það sé þess virði enda sé göfugt að gefa meðgjöf með lífeyrissjóði opinberra starfsmanna svo hann geti hér eftir staðið á eigin fótum.

Við þessu er það eitt að segja að ábyrgð hins opinbera á lífeyrissjóði opinberra starfsmanna hefur alla tíð verið skýr. Ástæða þess að á honum er slagsíða er aðallega tilkomin vegna þess að hér varð efnahagshrun (og þar má rökræða hversu vel sjóðnum hafði verið stjórnað fram að því) og að í kjölfar hruns ákvað ríkið að gera sig undanþegið lögum um að sjá til þess að sjóðurinn væri sjálfbær. Í nokkur ár núna hefur ríkið sum sé ýtt vandanum á undan sér og haldið frá sjóðunum inngreiðslum sem því bar að inna af hendi. Nú er alveg ljóst að sjóðurinn getur ekki haldið svona áfram. Ríkið (sem innheimti ágætlega af kröfuhöfunum) er semsagt tilbúið að borga loks meðlagið sitt sem ljóst er að það skuldar – en vill þá um leið fá að vera laust við krógann hér eftir. 

Það er alveg ljóst að gera þarf ráðstafanir vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar. Á bak við lífeyrisfrumvarpið eru spurningar sem þarf að svara.

Það er hinsvegar alveg rétt hjá Bjarna Ben að ástæða þess að reyndandi var að afgreiða það í flýti var að það hafði þá ásýnd að um það ríkti sátt og að sú sátt risti djúpt. Nú er ljóst að um það ríkir nær fullkominn fjandskapur. Tveir hópar hagsmunaaðila hafa gerólíkt viðhorf til frumvarpsins. Þeir sem telja sig hafa hag af því að það verði samþykkt krefjast þess að það fari í gegn með hraði. Allir launþegar sem það snertir eru á móti því. 

„[É]g tel samt að við höfum skyldu til að láta reyna á það til fulls hvort ekki geti myndast samstaða á þinginu“

Eftir stendur að Bjarni Ben virðist telja að þinginu beri enn skylda til að ná samstöðu um málið. Bara í þetta skiptið myndi slík samstaða vera um leið staða gegn nær öllum opinberum starfsmönnum á landinu. 

Það ætti að vera óhugsandi að ná fram slíkri samstöðu.

Í það minnsta er það ábyrgðarhlutur hjá stórlega veikluðu Alþingi, sem getur ekki einu sinni komið sér saman um meiri- og minnihluta að þvinga í gegn mál sem snerta stóran hluta þjóðarinnar í fullkominni andstöðu við það fólk. 

Fari svo að málið sleppi gegnum þingið er alveg ljóst að það mun hafa afleiðingar. Hér mun allt loga í dómsmálum og hart verður gengið fram við að reyna að virkja málskotsrétt forseta.

Mestu mun þó skipta að stórkostlega umboðslítið Alþingi, sem ekkert virðist geta ákveðið og enn minna gert - verður búið að lýsa yfir stríði á hendur öllum opinberum starfsmönnum á Íslandi.

Það væri merkileg niðurstaða í ljósi þess að Alþingi er í djúpfrera þessa dagana því menn eru enn að rembast við að ákveða hvar þeir eigi að koma fyrir öllum „umbótaöflunum“ sem flutu inn á þing.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni