Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Þorrablótskarlar og súrir pungar

Þorrablótskarlar og súrir pungar

Síðasta vika var erfið fyrir ákveðna manngerð sem ég kalla súra punga. Nafnið er tilbrigði við stef. Íslendingar hafa lengi leitt til metorða manngerð sem kallast þorrablótskarl. Það eru (yfirleitt) karlmenn sem kunna þá list að vera skemmtilegir á þorrablótum eða í réttunum. Skjaldarmerki þorrablótskarls er neftóbaksdós og blikkpeli. Hásæti hans er þingsstóll.

Súrir pungar eru yfirleitt af sama sauðahúsi og þorrablótskarlar, bara misheppnaðri. Skógurinn er seint að fara að beygja sig í lotningu fyrir þeim en með staðfestu og einurð gætu þeir rekist á eins og eitt strá sem er tilkippilegt.

Ris Gústafs Adolfs Níelssonar innan Íslensku þjóðfylkingarinnar var súrum pungum þessa lands nokkuð gleðiefni. Þeir voru jafnvel farnir að gæla við þá hugmynd að einn þeirra yrði brátt þorrablótskarl. Skoðanakannanir sýndu að með sjarma sínum væri G. Adolf kominn í dauðafæri með að útvega íslenskum þjóðernissinnum milljónir til að leiða fleiri punga til valda.

Í dag eru pungarnir með böggum hildar. Svo virðist sem ætlast hafi verið til þess að G. Adolf safnaði sjálfur einhverjum stuðningsundirskriftum en að það hafi hann hvorki kunnað né getað. Það voru of fá auðsveip strá. Hinn súri pungur stóð á endanum uppi embættis-, valda- og vinalaus.

Alkunna er að pungurinn er það líffæri sem fjærst er heilanum ef frá eru taldir ganglimirnir. Það sést yfirleitt í framferði þeirra. Þó má G. Adolf eiga það að hann þekkir nokkuð til þorrablótsmanna og hefur fengið að gægjast í klækjabók þeirra. Hann veit til dæmis að ef maður stendur frammi fyrir alþjóð á engu nema gorgeirnum er sókn besta vörnin. 

Hann trillaði sér því inn á fésbókina í gær, fann sæmilega fjölsóttan vettvang þar sem sorgmætt fólk harmaði örlög barns sem slasaðist eða dó í sprengjuárás í fjarlægu landi og ákvað að reyna að vera fyndinn. 

Þetta er ástæða þess að G. Adolf er og verður pungur en ekki þorrablótskarl. Í pólitík þarf stundum að tefla djarft til að drepa málum á dreif. En þessi tilraun súra pungsins verður alls ekki til þess að fólk gleymi því að persónulegar óvinsældir hans og framtaksleysi virðast hafa kafsiglt framboð sem kannanir sýndu að fylgi væri raunverulega fyrir – heldur verða þær einfaldlega til þess að sýna endanlega fram á hvers vegna þessi tiltekni pungur verður aldrei annað en pungur. Hann er einfaldlega of siginn. Pung er nefnilega ekki alls varnað þótt hann hangi svona langt frá heilanum – svo lengi sem fjarlægðin í hjartað er ekki of mikil. 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu