Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Með svona „vini“: Vg í borginni

Það úir og grúir af kennurum og kennaramenntuðu fólki kringum Vinstri græn í borginni og víðar. Það var þess vegna sérlega hrollvekjandi að fylgjast með framgöngu talsmanns flokksins í Reykjavík í Silfrinu um helgina. Ef þetta eru vinir skólanna – þá hrís mér hugur við óvinunum.

Vg er í vanda í leikskólamálum. Flokkurinn gerði það að úrslitaatriði í meirihlutamyndun að leikskólagjöld yrðu lækkuð. Sem væri í sjálfu sér ágætt mál væru leikskólarnir ekki alvarlega undirfjármagnaðir og skaðaðir eftir vanrækslu eftirhrunsáranna. Það er erfitt að réttlæta lækkun leikskólagjalda þegar skólana vantar sárlega fé.

Fjárskorturinn snertir allar hliðar skólastarfs. Raunar munum við öll hvernig einn angi málsins komst upp á yfirborðið fyrir nokkru þegar ljóst varð að grunnskólamaturinn væri nánast pottþétt uppskrift að vannæringu og skyrbjúg. Í kjölfar þess voru fæðisgjöld hækkuð um þriðjung. Það væri áhugavert að fá að vita hvort maturinn hefur breyst eftir það.

En skorturinn er líka skæður í mannauðsmálum. Það vantar fjölda starfsmanna á leikskóla. Og þá erum við ekki að tala um þessa menntuðu leikskólakennara sem vantar til að uppfylla skilyrði laga um menntun starfsfólks. Nei, við erum að tala um að það vantar marga tugi fólks til að hægt sé að halda úti þeirri skítareddingu sem fer á svig við lög en hefur verið ástunduð árum saman – af því hún þykir billeg. 

Í Silfrinu fullyrti Líf Magneudóttur (sem nóta bene er fyrrverandi kennari) að þessi starfsmannavandi væri ekki vegna fjárskorts! 

Líf hélt fram einhverri undarlegri verufræðilegri skýringu á vanda leikskólanna. Þangað vantaði starfsfólk sem hreinlega væri ekki til! 

Þar endurómaði hún kjarastefnu sveitarfélaganna. Hún felst í því að skólakerfið sé kerfi sem aðeins megi fullmanna í mikilli kreppu og atvinnuleysi. Í góðæri sé eðlilegt og æskilegt að skólar standi hálf tómir vegna lágra launa.

Ef þetta eru vinir kennara...!

Vandi leikskólanna (og frístundaheimilanna) hefur allt með fjársvelti að gera. Það er einfaldlega ekki í boði að reka fjársveltistefnu gagnvart þessum stofnunum án þess að það bitni verulega á þjónustu.

Það er svo bara dónaskapur að reyna að klóra yfir ömurlega kjarastefnu borgarinnar með þvaðri um að borgin geri svo vel við starfsfólkið sitt að það fái frítt í sund og samgöngustyrki.

Í raunveruleikanum hafa fríðindi starfsmanna dregist saman á síðustu árum. Að vísu komu nýlega inn samgöngustyrkir sem virka þannig að starfsfólkið sem keyrir um langan veg í skólann minn eftir stofnæðunum og sameinast í bíla, til að minnka umferð og mengun, fær ekki krónu á meðan fólkið sem býr við hlið skólans og gengur (í einhverjum tilfellum skemmri vegalengd en frá bílastæði skólans að anddyrinu) fær nokkra þúsund kalla á mánuði fyrir ábyrga notkun samgangna. 

Nú þykist ég vita að annað hljóð komi í strokkinn þegar nær dregur kosningum. Þá munu Vinstri græn eflaust skipa um skoðun og lofa hinu og þessu. Það bara skiptir engu máli. Stjórnmálamenn á ekki að dæma af því sem þeir segja í kosningabaráttu. Þá á að dæma af því sem þeir gera og segja þegar þeir fara með völdin. 

Þar er stefna Vg í borginni afar skýr. Skólana vantar ekki meiri peninga. Þá vantar bara starfsfólk sem ekki er til.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni