Lífeyrisraunir
Í fullkomnum heimi væri ég akkúrat hálfnaður með starfsævina. Ég má þó reikna með því að vinna eitthvað meira en það, þótt ég hafi byrjað að kenna tvítugur fyrir tuttugu árum. Einhvernveginn hef ég aldrei haft nokkurn einasta áhuga á lífeyrismálum þótt ég viti að þannig megi það ekki vera. Mig langar til að lifa doldinn tíma eftir starfslok og þá væri verra að basla í fátækt. En það er eitthvað sem ég þarf raunverulega að fara að hugsa alvarlega um. Það að setja peninga nógu neðarlega á forgangsröðina til að taka að sér starf við kennslu getur bitið mann í bossann æði harkalega.
Ég hef því í svona þrjá daga reynt að skilja lífeyrismál okkar kennara enda eru þau víst í uppnámi. Það hefur verið mikill höfuðverkur enda vissi ég ekkert um þau. Nú þykist ég vita þetta:
Lífeyrissjóður okkar, starfsmanna þess opinbera, var glanni á árunum fyrir hrun eins og margir aðrir. Hann tapaði fullt af peningum. Ríkisábyrgð er á sjóðnum og þess vegna kom aldrei annað til greina en að skattgreiðendur enduðu á að borga brúsann (ég sá tölur sem námu sirka fjórðungi úr búvörusamningi).
Í stað þess að bæta tjónið hefur ríkið hummað það fram af sér og nú er sú staða komin upp að sjóðurinn er í núverandi mynd ósjálfbær – í hann vantar stóra sneið.
Ríkið og ákveðin öfl á vinnumarkaði hafa síðustu misseri þrýst mjög á það að ríkið hætti að styðja við lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Þeir vilja innleiða fyrirkomulag sem er með þeim hætti að hrunið hefði bitnað beint á sjóðfélögum, í hærri iðgjöldum og lægri lífeyri.
Stjórn lífeyrissjóðsins míns er ekki í býsna sterkri stöðu að afneita slíkri kröfu. Það var enda hún sem ber að mesta ábyrgð á því hvernig komið er. Í stjórninni sitja meðal annarra fulltrúar BSRB, BHM og KÍ.
Nú þekki ég það ekki hjá öðrum – en hjá okkur kennurum segja lög félagsins að stjórn KÍ hafi lífeyrismálin á sinni könnu milli þinga. Þar sem stjórnin skipar líka stjórnarmann lífeyrissjóðsins er ljóst að nokkuð aðhaldsleysi getur átt sér stað. Fulltrúi okkar í lífeyrissjóðnum er líka sá aðili innan okkar félags sem mest hefur að segja um lífeyrismál – eins og berlega hefur komið í ljós síðustu daga.
Nema hvað, ríkið vill losna við okkur. Næsta hrun verður á okkar reikning. Einstaka þingmenn telja að alþingi hafi fulla heimild til að reka okkur úr hlýjunni án okkar samþykkis en það er þó augljóslega miklum erfiðleikum bundið. Þess vegna hefur verið unnið að því frá hruni að semja um það að ríkið losni við okkur en greiði í staðinn að einhverju leyti heimanmundinn sem það hefur setið á og hefur sett sjóðinn okkar í mikið uppnám.
Stjórn KÍ reyndi að fá umboð til að gera samkomulag um breytingar á sjóðnum á kennaraþingi árið 2014. Þingið ályktaði og gerði að skilyrði fyrir áframhaldandi viðræðum að núverandi sjóðsfélagar héldu fullum rétti sínum og að ekki yrði gerð sátt um annað en að jöfnun lífeyrisréttinda fylgdi að launakjör yrðu „jöfnuð samtímis breytingunni.“
Á milli þinga KÍ fer stjórn með vald í lífeyrissjóðsmálum og nú fullyrðir formaður KÍ að hann hafi skrifað undir samkomulag sem uppfylli bæði skilyrðin hér að ofan.
Í orði eiga sjóðsfélagar að halda öllum réttindum sínum. Ég sé þó ekki betur en svo að sú staða gæti komið upp í framtíðinni að sjóðurinn verði aftur fyrir skakkaföllum og að kjör gætu breyst í kjölfarið. Það kann að vera rangt hjá mér – en ég held þó ekki. Það eru varnaglar og fyrirvarar í samkomulaginu sem mér sýnist eindregið að komi launagreiðendum undan því að bera ábyrgð með sama hætti og ríkið gerir nú. Geymum þá hlið samt.
Hitt sýnist mér algjörlega augljóst að í samkomulaginu sem nú var samþykkt felst alls ekki samtímis jöfnun kjara.
Það á vissulega að fara í átak við að jafna launamun milli opinbera geirans og þess almenna. En það er beinlínis tekið fram í samkomulaginu að taka verði tillit til þess að „aldrei [sé] hægt að fullyrða að hver einasti hópur starfsmanna sé rétt launasettur.“
Nú er það beinlínis svo að í Salek-vinnunni sem liggur til grundvallar öllum hugmyndum um stöðugleika eru kennarar og aðrir háskólamenntaðir starfsmenn ríkis og sveitarfélaga metnir af öðrum aðilum vinnumarkaðar skör neðar en þeir ættu augljóslega að vera. Sem aðilar að Salek-vinnunni segjast fulltrúar kennara hafa reynt allt til að benda á það að kjör kennara verði að vera hlutfallslega betri en þau eru – áður en „stöðugleikinn“ verður hogginn í stein. Án árangurs. Þess vegna eru kennarar ekki aðilar að Salek-rammasamkomulaginu. Sveitarfélögin og ríkið ætla sér samt að halda rammasamkomulaginu gagnvart okkur enda telja þau að sú stefna sem þar er mörkuð hljóti nægilegs stuðnings á vinnumarkaði þótt kennarar séu ósáttir.
Það er semsagt búið að skrifa undir þjóðarsátt um vond kjör kennara. Þess vegna er ekki einu sinni til umræðu aðrar launahækkanir af hálfu sveitarfélaga en þær sem nú hafa í tvígang verið felldar í kjarasamningsatkvæðagreiðslu.
Nema hvað. Það er allt botnfrosið í samningamálum kennara og óljóst og loðið loforð um jöfnun launamunar gegn skerðingu lífeyrisöryggis verður að setja í samhengi við það að flestir aðilar þess samkomulags telja bæði rétt og verðskuldað að kennarar hafi vond laun.
Það er allavega morgunljóst að það er ekki verið að jafna laun samhliða gildistöku þessa samkomulags. Það er ekki einu sinni nein haldbær trygging fyrir kjarabótum kennara næsta áratuginn.
Stjórn KÍ er því að bregðast því umboði sem hún fékk frá þingi. Hún hefur ekki heimild til að samþykkja samkomulagið í þessari mynd. Þótt hún hafi samt gert það og búið sé að skrifa undir og málið sé komið inn á þing þar sem fjármálaráðherra ætlar að skrúfa það í gegn með öllum tiltækum ráðum. Það styrkir auðvitað málstað hans að hann getur látið sem alhliða sátt sé um málið í ljósi allra undirskriftanna. En það er engin sátt. Nú er svikalogn. menn skilja einfaldlega ekki nóg – ennþá.
Nú stíga þeir fram sem áður hafa gert vilyrðasamkomulag við hið opinbera og benda á að ríki og sveitarfélög hafa aldrei gert heiðursmannasamkomulag sem þau hafa ekki svikið. Kjör hafa aldrei verið bætt af þeirri ástæðu einni að það sé réttlátt eða skynsamlegt.
Það má vel vera að einhverjum þyki súrt í broti að opinberir starfsmenn eins og kennarar skuli hafa sloppið við þann skell að missa hluta af eftirlaunum sínum í hruninu. Það eru margir strangtrúaðir „hægri menn“ sem telja að opinberir starfsmenn lifi ekki við nægan lífsháska.
Þeim skal náðarsamlegast bent á að ríkið tók sig til við hrun og tryggði upp í topp bankainnistæður ríkasta hluta þjóðarinnar. Skipti þá engu hvort um var að ræða inneignir upp á nokkur hundruð prósent af innistæðutryggingunni eða mörg þúsund prósent. Samkvæmt almennum leikreglum átti ríka fólkið á landinu að tapa miklu meira fé í hruninu en það gerði.
Það virðist nefnilega auðsótt mál hjá mörgum prinsippmönnum að gera hlé á staðfestu sinni til að hampa fjárhagslegum hagsmunum þeirra ríku. En þeir fá bæði sviða í augun og kláða í fingurna af tilhugsuninni einni saman um að opinberum starfsmönnum, á lágu kaupi alla ævi, sé á einhvern hátt hlíft við áhættu.
Ég gef ekki rassgat fyrir slíka hræsni.
Það væri brjálæði fyrir kennara að samþykkja fyrir sitt leyti breytingu á lífeyriskjörum. Hér þarf Alþingi að stoppa málið af. Forysta KÍ fór út fyrir umboð sitt með samþykktinni.
Það er okkar kennara að bregðast við því – en málið var haganlega hannað með þeim hætti að við fengum ekkert að vita fyrr en of seint. Það var þegar búið að senda málið til alþingis í „okkar nafni.“
Athugasemdir