Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Hvað er að hjá Menntamálastofnun?

Ég er mikill aðdáandi ritmáls. Ég er þeirrar sannfæringar að vel stílaður texti komist næst góðri munnlegri frásögn í fullkomleik tjáningar. Allar heimsins háskerpumyndir komast ekki með tærnar þangað sem góð bók hefur hælana.

Kannski er ég íhaldssamur. Rannsóknir hafa þó að nokkru leyti tekið undir þetta sjónarmið. Þetta er líka að nokkru leyti skýringin á því hvers vegna kennslubókin og fyrirlesturinn hafa staðið af sér hverja tæknibyltinguna af á fætur annarri.

Við Íslendingar höfum þá ranghugmynd að við séum gömul bókaþjóð – og að hér á landi hafi allir verið læsir og skrifandi þar til nýlega. Það er þvæla. Hópar barna voru til að mynda bæði illa læsir og skrifandi langt fram eftir öllu. Það kom tímabil á síðustu öld þar sem bækur voru aðalafþreyingarmiðillinn. Jafnvel klámið var á tímabili selt í ritmáli. Það er ekki ólíkegt að í landinu séu nokkrar kynslóðir fólks sem notuðu ritmál mjög mikið og séu þess vegna læsari á það en bæði forfeður þeirra og afkomendur.

Hefðbundnu læsi fer aftur á Íslandi. Það þýðir ekki að Íslendingar séu að sogast inn í einhverskonar svarthol einangrunar. Það er ekkert upplýsingamyrkur á landinu. Við vitum meira en nokkru sinni fyrr. Enda hafa Íslendingar lifað á tindi upplýsingabyltingarinnar í meira en áratug. Við erum með meira en annan fótinn í hinum stafræna heimi.

Stafrænn heimur krefst margvíslegs læsis. Því miður hefur íslenskan farið halloka þar inni. Við því þarf að bregðast. 

Menntun er öðruvísi í stafrænum heimi en hliðrænum.

Hér er stutt brot úr nýjasta bókaflokki Menntamálstofnunar um eðlisfræði:

Mörg íslensk ungmenni eiga erfitt með að lesa þennan texta. Þannig hefur það raunar verið alllengi. Meginkennsluaðferð bóklegrar kennslu hefur í meira en áratug verið munnleg endursögn kennara. Þessi texti er mjög klassískur og sýnir nokkuð vel hvernig eðlisfræðinámi er háttað. Ef við lesum þetta sjáum við að ljósapera er útskýrð þannig að straumur rafeinda um granna rafleiðslu framkalli svo mikinn hita að leiðslan byrji að glóa.  Þrjú orð eru sérstaklega auðkennd í textanum: volfram, glóþráður og viðnám. Hugtakaskilningurinn sem textinn á að miðla er sá að viðnám við straumi rafeinda framkalli hita.

Gott og vel.

Fyrir fimmtán árum síðan eða svo hefði verið mjög eðlilegt að fletta þessu upp í bók. Í dag myndu börn og fullorðnir gúgla það hvernig pera virkar. Og rekast á eitthvað þessu líku: 

Að horfa á þetta myndband tekur um það bil jafn langan tíma og það tekur að hafa nafnakall í 20 barna bekk og hefja kennslustund. Í myndbandinu kemur margt fram um glóþráðarperur – en þó kemur aldrei fram með berum orðum að það sé viðnámið í þræðinum gegn straumi rafeinda sem veldur lýsingunni. Það má raunar efast um að best sé að kenna eðlisfræði þannig að fyrst séu hugtökin útskýrð í þaula og svo nemandinn yfirheyrður um það sem hann hefur lesið eða heyrt. Mun frjórri nálgun gæti verið að láta nemandann horfa á myndbandið og ræða svo málin út frá spurningum sem leiða hann áfram. Þær gætu í þessu tilfelli til dæmis verið þessar:

Hvers vegna skiptir máli að glóþráðurinn sé úr efni sem bráðnar við mjög hátt hitastig?

Hvers vegna ætli glóþráðarperur séu fylltar af gasi?

Hvers vegna ætli fólk sé að mestu hætt að nota glóþráðarperur?

Góður kennari og nemendur sem þjálfaðir eru í samræðum geta með notkun svona myndbanda lyft náminu upp á miklu hærra plan en gjarnan tíðkast og í raun nálgast hina fyrstu eiginlegu kennsluaðferð: samræðuna

Þetta er hægt að gera með nemendum sem jafnvel eru mjög slakir í lestri. Það er engin sérstök fylgni milli gáfna og hugmyndaflugs annars vegnar og lesturs hinsvegar. Lestur segir fyrst og fremst til um þjóðfélagsstöðu og staðbundnar áherslur í skólakerfi.

Nú hefur mörgum orðið tíðrætt um Pisa-prófin. Alla þessa öld hafa íslensk ungmenni orðið verri í að taka þau. Við sýndum reyndar smá framfarir í miðju efnahagshruninu en annars er myndin nokkuð skýr. Við þessu þarf að bregðast. Sjálfur hef ég fundið greinilegan mun á læsi unglinga á þeim 20 árum sem liðin eru síðan ég byrjaði að kenna. 

Því skal samt haldið til haga að ég hef líka fundið mun á þekkingu unglinga og hæfni til að verða sér úti um upplýsingar. Unglingar dagsins í dag vita miklu meira en unglingar gerðu áður og þeir eru miklu klókari við að afla sér þekkingar. En þeir eru verr læsir á ritmál.

Pisa-prófin eru lestrarpróf. Það er fylgni upp á u.þ.b. 0,8 á milli lesskilnings og árangurs í öðrum hlutum prófsins. Sé nemandi slakur í lestri en góður í náttúrufræði mun hann mælast slakur í læsi á náttúrufræði – eins og það er kallað á prófinu.

Að mínu mati er það engin spurning að við hnignandi læsi þarf að bregðast. Ég hef aðeins verið þeirrar skoðunar að þar þurfi menn að fara varlega og hugsa málin í stærra samhengi en þeir hafa tilhneigingu til að gera. Hér á landi hefur gert strandhögg sú hugmyndafræði að læsi verði best eflt með iðni. Með því að vakta börn frá því þau eru 2 ára og hamast á þeim og heimilum þeirra þar til þau eru orðin læs. 

Ég vara við þeirri aðferð. Vissulega á að mæla framfarir í lestri. En jafnvel þótt þú náir slíkum framförum er tvennt algjörlega ótryggt: að framfarirnar skili sér í varanlegum árangri og að aðferðin hafi góð áhrif á menntakerfið.

Víða um heim er börnum kerfisbundið haldið eftir í bekkjum ef þau uppfylla ekki ákveðin viðmið um lestur. Þetta á ekki við um íslensk börn. Við aðhyllumst þá hugmyndafræði að það eigi hvorki að flokka skólabörn eftir gáfnafari, lestrargetu né líkamlegu atgervi. Ég sé ekki fyrir mér að sú leið yrði nokkru sinni farin að halda barni sem seint verður kynþroska eftir á miðstigi vegna þess að það eigi ekki erindi á unglingastig fyrr. Ég er sömu skoðunar varðandi læsið. Minna læs börn geta haft margvíslega yfirburði á önnur börn. Það er að minnsta kosti ekki sá eiginleiki þeirra sem ég tel ástæðu til að skilgreina þau eftir. Flestir Íslendingar hafa verið áþekkrar skoðunar. Við skömmumst okkar hálft í hvoru fyrir kerfisbundna flokkun barna og unglinga í fortíðinni. Og við eigum að skammast okkar. Mér finnst þó eins og vindar fortíðar séu aðeins byrjaðir að blása aftur hin síðustu ár.

Mjög víða hefur ofsafengin læsisáhersla orðið þess valdandi að viðfangsefnum í námi hefur fækkað. Börnum, sem erfitt hafa átt með bóknám, hefur stundum verið haldið frá námi sem þau eiga auðveldara með í því skyni að efla lesturinn enn frekar. Á sama tíma hefur starf kennara verið heft og erfitt hefur reynst að halda í öflugustu kennarana. Dæmið hér fyrir ofan af eðlisfræði ljósaperunnar er ágætt til að átta sig á þessu. Góður kennari veit ekki endilega í upphafi hvernig tíminn muni þróast, þótt hann viti hvar verði byrjað. Það er auðvelt að fæla metnaðarfulla, skapandi og frjóa kennara frá störfum með yfirborðskenndri stöðlun.

OECD (sem heldur Pisa-prófin) hefur þó bent ítrekað á það að valdefling kennara og skólastjórnenda sé öruggasta leiðin til árangurs. Ein öruggasta leiðin til að ná ekki varanlegum árangri er að leyfa fyrirbæri eins og Menntamálastofnun að stjórna of miklu. Í því sambandi má til dæmis skoða þessa mynd:

Er þá komið að hlut Menntamálastofnunar.

Stundum á ég erfitt með að átta mig á stofnuninni. Á yfirborðinu er hún að gera þá hluti sem við þurfum að gera. Samræmd próf eiga vitanlega að vera rafræn. Skólar ættu að hafa greiðan aðgang að mælitækjum sem sýna stöðu nemenda. Menntamálastofnun ætti að vera lykilstofnun í að varða leið til náms á 21. öld.

Það er samt eitthvað bogið við hana.

Ég heyrði um daginn að Menntamálstofnun sé uppnefnd Litla-Menntamálaráðuneytið. Hún reki sjálfstæða menntapólitík og svífist einskis í því skyni að koma þeim áherslum á koppinn sem hún ætlar sér.

Nú veit ég ekki hvað menn eru að hugsa þar inni. Ég verð þó að taka undir að stofnunin hefur upp á síðkastið leyft sér meira en góðu hófi gegnir.

Eitt að því sem stofnunin er að reyna að gera er að taka lestrarkennslulíkan sem notað var í Reykjanesbæ og auka útbreiðslu þess um landið. Þess vegna kom forstjóri stofnunarinnar fram í fjölmiðlum eftir slakan árangur í Pisa og fullyrti að í Reykjanesbæ, Hafnarfirði og í Árborg væru hlutirnir á uppleið en á niðurleið annarsstaðar. Þetta væri vegna læsisáherslna.

Það má vel vera að svo sé. Hér væri samt ágætt að staldra aðeins við. Þessi þrjú sveitarfélög skáru sig ekki aðeins úr á Pisa-prófinu árið 2015, þau vöktu líka sérstaka athygli árið 2012. Þá fyrir einstaklega vonda útkomu. Það er eðlilegt að þau hafi brugðist við þá og það er líka eðlilegt að bæting hafi átt sér stað. Í tilfelli Árborgar hafði svona hrun átt sér stað fyrr og gengið til baka aftur án þess að menn leyfðu sér miklar fullyrðingar um orsakir og afleiðingar. 

Hér má sjá hvernig drengir í Árborg komu út á Pisa-prófinu 2003 og hversu mikil bætingin var 2006. Árið 2009, þegar Ísland bætti sig verulega, seig á ógæfuhliðina og árið 2012 var vont fyrir Árborg. 

Það virkar hæpið að fullyrða nokkuð um orsakir og afleiðingar þessara sveiflna. Og einstaklega ótímabært. Þó má vera að hjá Menntamálastofnun byggi menn á gögnum sem aðrir hafa ekki aðgang að og þessar ályktanir séu mjög traustar. Vandinn við að trúa því er að trúverðugleiki stofnunarinnar er ekki sérlega mikill. Þar á bæ hafa menn ítrekað orðið uppvísir að því að hagræða upplýsingum eða fullyrða eitthvað sem með góðum vilja er hægt að kalla ögn villandi – en með vondum hreinar blekkingar.

Tökum dæmi um það þegar stofnunin fullyrti að svokallað byrjendalæsi skilaði illa læsum nemendum. Það var að verulegu leyti byggt á árangri nemenda á samræmdum prófum. Horft var fram hjá því að megnið af nemendunum hafði alls ekki lært að lesa með aðferð byrjendalæsis þótt viðkomandi skólar hefðu tekið aðferðina upp seinna.

Og skoðum viðbrögð stofnunarinnar nú við gagnrýni Eiríks Rögnvaldssonar prófessors í málfræði.

Eiríkur las skýrslu stofnunarinnar um niðurstöður Pisa árið 2015. Hann skoðaði dæmi um prófspurningar aftarlega í skýrslunni og gerði athugasemdir við málfar spurninganna. Flestar athugasemdirnar lutu að því að málfarið væri óþjált og óvandað. Inn á milli voru þó alvarlegri athugasemdir þar sem ekki var annað að sjá en að málfarið væri villandi.

Eiríkur sendi forstjóra stofnunarinnar tölvupóst með athugasemdum sínum. Forstjórinn sendi bréf til baka og sagðist vonast til að umræðan færi ekki að snúast um svona aukaatriði. Einhverjir fjölmiðlar komust á snoðir um þetta (Eiríkur fjallaði um þetta á fésbókarsíðu sinni) og höfðu það eftir forstjóra stofnunarinnar að Eiríkur hefði gert athugasemdir við eina spurningu. Það er rangt. Eiríkur gerði greinilegar athugasemdir við hverja einustu spurningu sem birt var í skýrslunni. Sumar vissulega óverulegar – enda var gagnrýni hans á þessum tíma aðeins sú að menn ættu að vanda sig betur.

Eftir þetta fór á flot texti sem sagður var af gömlu Pisa-prófi. Hann var á skelfilegri íslensku. Fljótt kom í ljós að umræddur texti var notaður við forprófanir og rataði ekki í endanlega gerð prófsins. Á þessum tímapunkti var sleifarlag Menntamálastofnunar komið í hámæli og því var birt tilkynning á heimasíðu stofnunarinnar:

Þetta er alþekkt brella úr pólitík. Auðvitað ætti að liggja í „hlutarins eðli“ að vandvirk stofnun noti barasta alls enga ómögulega eða ónýta texta, hvorki í dæmasöfnum né aðalprófum. 

Hið grunsamlega er af hve miklu kappi stofnunin reynir að nota þennan misskilning til að gefa í skyn að hún sé fórnarlamb falsana. Alveg burtséð frá því hvort umræddur texti var frá 2000 eða 2015 og hvort hann var úr prufuprófi eða aðalprófi þá er heilmargt bogið við framkvæmd prófanna.

Sem er raunar alveg í anda annarra prófa hjá stofnuninni. Áhugi Eiríks á stofnuninni vaknaði þegar hann, sem háskólakennari í íslensku, skoðaði samræmd íslenskupróf og komst að því að þau eru verulega hæpin. 

Það er ekki trúverðugt þegar stofnun, sem tryggja á gæði í íslensku skólakerfi, bregst ítrekað í því að bera ábyrgð gæðaskorti hjá sjálfri sér. Það hefði verið afar einfalt að gangast við því sem gagnrýnivert var og reyna að bæta það. Þess í stað var brugðist við með því að afflytja málflutning gagnrýnanda og hanga á smáatriðum.

Verra er þó þegar stofnun, sem á við ákveðinn traustsvanda að etja, notar harðlokuð gögn í áróðursskyni. Það hefur alltaf verið skýrt af hálfu OECD að Pisa-prófin eigi ekki að nota með þeim hætti sem Menntamálstofnun hefur gert upp á síðkastið. Þeim er ekki ætlað að mæla hvort tilteknir skólar séu á réttri leið eða ekki. OECD á önnur próf til þess. Pisa-prófunum er ætlað að vera næm á tiltekna mæliþætti í heilum skólakerfum. Það er verulega ófaglegt af Menntamálstofnun að nota gögnin með öðrum hætti.

Við þurfum að girða okkur í brók í menntakerfinu á Íslandi. Við eigum að læra af því sem vel er gert, bæði hér og annarsstaðar. Þetta er flókið verkefni og það mun ekki takast giftusamlega nema hér sé lifandi vettvangur faglegrar hugsunar. Menntakerfið okkar glímir við ákveðinn traustsvanda. Það vonandi brýnir menn til dáða.

Menntamálastofnun þarf líka að fara í naflaskoðun. Hún á að taka sér gagnlegra og faglegra hlutverk. Það er ekki hægt að hafa stofnun sem þessa, sem í raun og veru hefur ein eftirlit með sjálfri sér – og hagar sér samt svona.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni