Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Grunnskólinn: Vöggustofa eða líknardeild?

Þá er búið að gera lokatilraun til að bjarga stöðugleika á vinnumarkaði með því að neyða kennara til að vera á slæmum kjörum. Sveitarfélögin ætla ekki að gefa sig. Samningurinn er lentur.

Samningurinn kostar Reykjavíkurborg líklega á bilinu 0,7- 0,9 ma kr á ársgrundvelli. Svona sirka helminginn af því sem borgin ætlar að innheimta af íbúum sínum á næsta ári til að eiga í afgang eftir árið. Borgin þarf líklega aðeins að nota sirka fjórðung af því fé sem hún ætlaði til að mæta launahækkunum árið 2017 til að fjármagna þennan samning. 

En þetta var allt saman vitað mál. Hér á landi var gerður samfélagssáttmáli um að grunnskólakennarar skyldu hafa vond laun. Nú er verið að framfylgja honum. Þessi samfélagssáttmáli (sem gengur undir nafninu Salek) gæti átt eftir að verða dýrkeyptur. Það er alveg óljóst hvort það högg sem grunnskólakerfið verður nú fyrir valdi varanlegum skaða.

Einn trúnaðarmaður tilkynnti uppsögn sína á kynningarfundi um samninginn í dag. Annar kennari í sama skóla sagði upp skömmu seinna. Tæpur þriðjungur kennara í Réttarholtsskóla bættist svo í hóp hinna fjölmörgu sem sagt hafa upp þegar leið á daginn.

Ég þekki ekki einn kennara sem dregið hefur uppsögn sína til baka eftir að samningurinn var lagður á borðið. Ég þekki hinsvegar nokkra sem hófu daginn á að skoða atvinnuauglýsingarnar.

Aðspurður sagði formaður FG að það væru engir aðrir valkostir. Falli samningur fer forystusveitin og samninganefndin frá. Allt byrjar upp á nýtt. Standi samningur verði haldið áfram á sömu braut.

Ég er þeirrar skoðunar að forystan eigi ekki að setja kennara í þá aðstöðu sem af því leiðir. Ég held það sé öllum orðið ljóst að sú forysta sem nú situr sé komin á endastöð. Hún ætti að fara frá hvort sem samningurinn stendur eða fellur. Ef fólk er á annað borð til í að sætta sig við skítakaup í ár í viðbót er lágmark að fá ekki núverandi forystu með í kaupunum. Einhverjir eru eflaust til í að þrauka ef þeir hafa von um nýja hugsun, nýjar áherslur, ný tækifæri.

Ég varð fyrir djúpum vonbrigðum með samninginn. Ekki fyrst og fremst vegna launanna. Ég vissi að skjaldborg yrði slegin um Salek. Ég hélt þó að menn hefðu vit á að bjóða aðeins betur til að reyna að stöðva uppsagnir. Það sem ég varð fyrir vonbrigðum með var að hann angar af uppgjöf, gjaldþrota menntastefnu og stórhættulegum flóttaleiðum úr erfiðri stöðu.

Með samningnum fylgja þrjár bókanir. 

Sjálfur er ég hræddari við að samþykkja samninginn ef það er túlkað sem stuðningur við þær en nokkru sinni launin.

 

Sú stefna sem mörkuð er í samskiptum forystu kennara og sveitarfélaga með þessum bókunum er stórhættuleg.

Bókun 1 felur í sér að farið sé í að bæta framkvæmd svokallaðs vinnumats. 

Að mínu mati á að henda vinnumatinu út. Það er ónýtt og það er skaðlegt. Í stað þess að stuðla að skólaþróun veldur það tregðu og festir í sessi óbreytt ástand. Auk þess elur það á tortryggni og ranghugmyndum um hlutverk kennarans. Því á að henda og horfa til eldra fyrirkomulags, t.d. bókunar 5, þegar kemur að fjölbreytni í skólastarfi.

Bókun 2 segir meðal annars:

„Samband íslenskra sveitarfélaga og Félag grunnskólakennara munu í sameiningu óska eftir viðræðum við Mennta- og menningarmálaráðuneyti og Menntamálastofnun um hvernig staðið hefur verið að innleiðingu nýrra verkefna og breytinga í grunnskólum t.d. á námsmati og aðalnámsskrá með það að markmiði að bæta verklag svo grunnskólinn geti tekið við verkefnum frá ríkinu og framkvæmt þau.

Aðilar telja mikilvægt að breytingar sem gerðar eru á starfsumhverfi grunnskóla með stjórnvaldsákvörðunum byggist á faglegum grunni og verði unnar í samráði og sátt við hagsmunaaðila og fjármagn sé tryggt vegna allra breytinga áður en þær eru innleiddar.“ 

Ég veit að einhverjir kennarar eru mér ósammála og telja þetta frábæra bókun. Breytingum á skólastarfinu eigi að fylgja fjármagn frá ríkinu.

Ég er vissulega þeirrar skoðunar að ríkið þurfi að koma að því að endurreisa grunnskólann. Það þarf að leggja til meira fé. Það er hinsvegar sólu særra að það eru tvær gerólíkar leiðir fyrir ríkið til að bregðast við svona áskorun (sé brugðist við á annað borð). Önnur er sú að ausa fjármunum í skólana til innleiðingar á flóknum verkefnum, hin er sú að taka sér einfaldlega miklu meira vald þegar kemur að skólaþróun. 

Ástæða þess að grunnskólakennarar eiga að hafa góð laun er sú að við viljum að þetta sé stétt hæfra sérfræðinga sem þróa starfið inni í skólunum. Það er vissulega flókið að mæta markmiðum aðalnámskrár. Þannig hefur það alltaf verið. Í mörg ár var kennt hér á landi eftir úreltri námskrá því hún var einfaldari en sú nýja. Þetta þróunarstarf verður hinsvegar ekki tekið út úr skólunum nema breyta hlutverki kennarans. 

Í mörgum löndum hafa skólakerfin þróast nákvæmlega þannig. Sérfræðingar í miðstýrðu kerfi taka námskrár- og þróunarvaldið frá kennurum. Kennarar verða að hálf-faglegu starfsfólki – og bestu kennararnir forða sér í stórum hópum. 

Það er ekki ríkinu að kenna að starfsfólki skólanna hefur ekki verið búin sú aðstaða að geta tekið þróunarstarf fastari tökum. Reykjavíkurborg gæti hæglega fjármagnað slíkt starf sjálf til dæmis. Það er vanfjármögnun skólanna sem er aðalástæða þess að þetta starf hefur orðið þungt og erfitt, ásamt ýmsum innri meinsemdum sem skólakerfið á við að glíma.

Það er vælutónn í þessari bókun og þarna er verið að hlaupast undan ábyrgð. Það er líka verið að grafa undan fagmennsku kennara og gæðum skólastarfs.

Síðan kemur hið þriðja. Það er ekki beinlínis bókun heldur yfirlýsing:

„Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkir að hefja greiningu á þeim faglegu og fjárhagslegu áhrifum sem stefna ríkisins um skóla án aðgreiningar og aðrar breytingar s.s. innleiðing nýrrar aðalnámskrár með nýju námsmati hefur haft á vinnuumhverfi kennara og annars starfsfólks í grunnskólum landsins. Greiningin verði lögð til grundvallar viðræðum um endurskoðun á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga varðandi málefni grunnskólans.“

Þetta er skammarleg yfirlýsing. 

Þarna stendur að hefja eigi faglega og fjárhagslega rannsókn á „skóla án aðgreiningar“ og öðrum breytingum. Öðrum breytingum!?

Skóli án aðgreiningar hefur verið opinber skólastefna á Íslandi síðan 1974!

Hún hefur gengið undir ýmsum nöfnum (kallast raunar í dag Skóli margbreytileikans) en hún hefur verið kjarninn í öllu skólastarfi á Íslandi miklu lengur en þann tíma sem sveitarfélögin hafa rekið skólana.

Það er vandræðalegt að samband sveitarfélaga skuli tala um grundvallarstefnu skólamála eins og um sé að ræða einhverjar nýjungar sem dottið hafa af himnum ofan.

Það er rétt að skólamál á Íslandi eru í vanda. Það er líka rétt að ríkið skuldar grunnskólanum og skólakerfinu meiri stuðning. 

Það er hinsvegar fráleitt að gefa í skyn að það sé vegna skóla án aðgreiningar (þótt vandinn birtist vissulega þar líka).

Vandi skólans á Íslandi er ekki síður dreifbýlið, aldurssamsetning þjóðarinnar og stórfjárfestingar í steypu.

Ég hef enn ekki séð neinn vappa fram á völlinn í skólamálaumræðu og segja að dreifbýli á Íslandi sé vissulega snotur hugmynd en hún gangi ekki upp. Það hefur hingað til verið samkomulag um að allir eigi rétt á menntun, hvar sem þeir búa. Það er oft dansað hættulega nærri línunni um að það eigi ekki allir sama rétt á menntun, sama hvernig þeir eru.

Nýi samningurinn er samansafn af þreytu, uppgjöf og örvæntingu. Það er ekki verið að stefna neitt, það er verið að glíma við basl og erfiðleika. Ríkið er ákallað – en í stað þess að þess sé óskað að það taki að sér gefandi og gjöfult hlutverk (t.d. þannig að það veiti væna styrki í stað lána til náms á meistarastigi í grunnskólafræðum) er kveðinn upp hinn eldgamli tónn – sem eitrað hefur starf grunnskólans frá fyrsta degi undir stjórn sveitarfélaga. Grunnskólinn er skilnaðarbarn bitra foreldra sem hafa gjörsamlega klúðrað uppeldinu.

Það er mér gríðarlegt umhugsunarefni af hverju grunnskólinn stendur á tímamótum hópuppsagna og atgervisflótta – og að við því sé brugðist með því að rúlla upp einu stykki kjarasamningi sem virkar sem gjallarhorn alls þess vonleysis og eymdar sem eitt skólakerfi í vanda hefur að geyma.

Við grunnskólakennarar getum ekki þvegið hendur okkar af ábyrgð á því að út í þetta vonleysi sé komið. Það er okkar að innleiða aðalnámskrá. Það þarf aðeins að gera okkur það kleift. Það er okkar að veita nám við hæfi. Við getum ekki valið okkur fram hjá því. Þess vegna verðskuldum við góð laun. Við búum yfir færni sem nauðsynleg er til að reka hér skólakerfi og samfélag í fremstu röð. 

Ég ætla ekki að hvetja neinn til að fella samninginn. Kannski er bara best að nota þetta ár í að taka til og berja það í eitt skipti fyrir öll inn í hausinn á viðsemjendunum að það er ábyrgðarverk að reka skólakerfi – og að þeir séu að grútfalla á prófinu. Kannski er best að fella samninginn. Kannski er best að leyfa kerfinu bara að fara til fjandans.

Það sem er hinsvegar löngu tímabært er að skipta um kúrs. 

Ef skipstjóri og stýrimaður skútu gerir ekkert annað en að dæla vatni úr lestinni skiptir engu máli hversu vel er dælt, skútan mun aldrei rata rétta leið.

Ég persónulega neita að taka þátt í menntakerfi sem er líknardeild deyjandi hugsjóna. Ég vil starfa á vöggustofu góðra hugmynda. 

Nákvæmlega núna liggur grunnskólinn fyrir dauðanum.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni