Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Grunnskólamál: Svör Samfylkingar

Grunnskólamál: Svör Samfylkingar

[G]runnskólinn og málefni fatlaðra hafa verið alvarlega vanfjármögnuð. 

Þá hafa svör borist frá öllum flokkum. Hér koma svör Samfylkingar. Svör Sjálfstæðisflokks verða birt á eftir. Eins og fram kemur hefur Samfylkingin töluverða reynslu af grunnskólamálum á sveitarstjórnarstigi og telur að mjög hafi skort upp á fjármögnun þeirra.

Svarið barst frá Ásgeiri Runólfssyni verkefnastjóra hjá Samfylkingunni. 

Eldri svör: Píratar, Björt framtíð, Framsókn, VG, Dögun, Viðreisn.

Hefur flokkurinn sett sér stefnu sem komið getur að gagni við að afstýra hinu alvarlega ástandi sem ríkir í kjaramálum kennara og atgervisflótta úr kennarastétt? Hver er hún? Ef ekki, hvers vegna ekki?

 Þungamiðja í stefnu Samfylkingarinnar er barátta launafólks fyrir betri kjörum og góðu velferðarkerfi og þar eru kennarar ekki undanskyldir. Atgervisflótta, lítil nýliðun og kjaradeilur kennara er mál sem við tökum mjög alvarlega. Í svörum okkar til Kennarasambandsins þar sem spurt var um leiðir til að leysa brýna nýliðunarþörf í kennarastéttinni var fjallað um þessi atriði: 

Samfylkingin vill auka virðingu fyrir starfi kennara og bæta starfsumhverfi þeirra til að störf í þessum mikilvægu menntastofnunum verði eftirsóttari. Það verður að vera sameiginlegt verkefni ríkis, sveitarfélaga, fagfélaga, háskóla, foreldra og nemenda. Samfylkingin í borgarstjórn Reykjavíkur hefur nýlega haft forgöngu um að efna til víðtæks samstarfs við félög kennara, háskóla og ríkisvaldið um leiðir til að auka nýliðun í kennarastétt og bæta starfsumhverfi kennara.  Þar verður sérstaklega skoðað hvernig megi laða til kennslustarfa þær þúsundir Íslendinga sem hafa aflað sér kennsluréttinda en hafa valið sér annan starfsvettvang en kennslu.  Eitt mikilvægasta verkefni sem Íslendingar standa frammi fyrir er að auka nýliðun í kennarastétt.  Fjölga þarf verulega þeim sem leggja stund á kennaranám og í því sambandi þarf að efla kennaramenntun og tryggja að sú menntun sem kennaranemar fá í háskólum nýtist þeim sem skyldi á vettvangi, m.a með því að efla vettvangsnám sem hluta af einingabæru námi.  Viðhorfskannanir meðal kennara á liðnum árum gefa til kynna að efla þurfi tiltekna þætti í menntun kennara, t.d. varðandi stuðning við jákvæða hegðun, þekkingu á bekkjarstjórnun o.s.frv.

Mikið vantar upp á til að við stöndumst samjöfnuð við þær þjóðir sem fremst standa varðandi stöðu og virðingu fyrir kennurum, þar má t.d. nefna Finnland þar sem kennarastarfið er eitt það best metna og vinsælasta meðal ungs fólks og Kanada sem hefur lagt mikla vinnu í að efla og bæta stöðu kennara. Kjör kennara verða að vera samkeppnishæf við laun háskólamenntaðra stétta með sambærilega menntun.

Við getum náð árangri. Sem dæmi þá jókst áhuga á leikskólakennaranámi í kjölfar vitundarvakningar sem Félag leikskólakennara átti frumkvæði að og viðleitni sveitarfélaga, þ.á.m. Reykjavíkur, til að bjóða starfsfólki leikskóla námsstyrki til að geta sótt sér leikskólakennararéttindi meðfram starfi. Skoða þarf leiðir til að efla diplómanám meðfram hefðbundnu leikskólakennaranámi, efla vettvangsnám sem hluta af einingabæru námi og setja aukið fjármagn í námsstyrki. 

Við verðum að setja meiri fjármuni í mannauð og minni í steinsteypu. Sveitarfélög sjá um rekstur leik- og grunnskóla og er hann stærsti útgjaldaliður þeirra. Sveitarfélög hafa ekki fengið sanngjarnan hlut í góðæri síðustu ára, sem hefur skilað tugmilljarða tekjuaukningu til ríkisins á sama tíma og verkefni sem flust hafa frá ríki til sveitarfélaga, ekki síst grunnskólinn og málefni fatlaðra hafa verið alvarlega vanfjármögnuð.  Samfylkingin leggur áherslu á réttlátari skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga m.a. til að fjármagna nauðsynlegar úrbætur í skólamálum. 

 Munt flokkurinn beita sér fyrir eða samþykkja lög þess efnis að tekjustofnar sveitarfélaga verði styrktir í því skyni að bæta megi kjör kennara?


Eins og segir í svari til Kennarasambandsins sem vísað er til í svari við fyrstu spurningunni þá leggur Samfylkingin áherslu á réttlátari skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga.  Það er mikilvæg forsenda þess að hægt sé að fjármagna nauðsynlegar úrbætur í skólamálum þar með talið bætt kjör og starfsumhverfi kennara. 

 

Fari svo að sveitarfélög telji sig ekki geta boðið ásættanleg kjör kemur til greina af ykkar hálfu að setja lög á kjarabaráttu kennara og munuð þið veita slíkum lögum stuðning?

Við berjumst fyrir verkfallsrétti launafólks og virðum verkfallsrétt kennara. Styðjum ekki að setja lög á kjarabaráttu kennara.

 

Fari svo að ríkisstjórn setji lög á kjarabaráttu kennara, munuð þið samþykkja slík lög innihaldi þau sérstaka fyrirvara sem ætlað er að halda kjörum kennara áfram hlutfallslega lágum, t.d. í því skyni að viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði. 

Við styðjum ekki lög á kjarabaráttu kennara.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni