Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Grunnskólamál: Afdráttarlaus svör Pírata

Grunnskólamál: Afdráttarlaus svör Pírata

Sveitafélögin eru ekki fjárhagslega sjálfstæð ef þau geta ekki greitt kennurum laun

Viðreisn og Björt framtíð hafa þegar boðað svör við spurningum mínum og Píratar hafa sent sín svör. Kann ég þeim þakkir fyrir. Enn á ég eftir að heyra frá Sjálfstæðisflokki, Vg, Samfylkingu og Framsókn. Undir svör Pírata skrifar Björn Leví Gunnarsson sem skipar annað sæti framboðslista Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Svörin eru afdráttarlaus. Píratar telja eðlilegt að ríkið styðji við tekjustofna sveitarfélaganna og ætla ekki að verða við mögulegum beiðnum um að stöðva kjarabaráttu kennara með lagasetningu.

Hér koma svör Pírata:

1. Hefur flokkurinn sett sér stefnu sem komið getur að gagni við að afstýra hinu alvarlega ástandi sem ríkir í kjaramálum kennara og atgervisflótta úr kennarastétt? Hver er hún? Ef ekki, hvers vegna ekki?

Stefna Pírata eru fjárhagslega sjálfstæð sveitafélög og að helsta hlutverk hins opinbera sé að sinna grunnstoðum samfélagsins (þar sem menntakerfið er ein af grunnstoðunum).  Sveitafélögin eru ekki fjárhagslega sjálfstæð ef þau geta ekki greitt kennurum laun.

Markmið Pírata í menntamálum er að fara almennt séð eftir finnsku leiðinni þar sem lögð var sérstök áhersla á laun kennara. Miðað við núverandi tölur þá vantar um þriðjung ofan á laun kennara á Íslandi til þess að ná finnskum kennurum. 

Leið Pírata til þess að ná fjárhagslega stjálfstæðum sveitafélögum er að útsvar verði greitt af tekjuskatti fyrirtækja og einnig að hluti vsk sem verður til í sveitafélaginu renni til sveitafélagsins. Það hvetur til annars konar starfsemi en sveitafélög fá nú tekjur af. Sveitafélög fá þá meiri tekjur af ferðaþjónustunni til dæmis sem annars skilur sama og ekkert eftir.

2. Mun flokkurinn beita sér fyrir eða samþykkja lög þess efnis að tekjustofnar sveitarfélaga verði styrktir í því skyni að bæta megi kjör kennara?

Já, með því að sveitafélög fái útsvar frá fyrirtækjum og hluta af vsk sem aflað er í sveitafélaginu.

3. Fari svo að sveitarfélög telji sig ekki geta boðið ásættanleg kjör kemur til greina af ykkar hálfu að setja lög á kjarabaráttu kennara og munuð þið veita slíkum lögum stuðning?

Nei og nei.

4. Fari svo að ríkisstjórn setji lög á kjarabaráttu kennara, munuð þið samþykkja slík lög innihaldi þau sérstaka fyrirvara sem ætlað er að halda kjörum kennara áfram hlutfallslega lágum, t.d. í því skyni að viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði. 

Nei. 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni