Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Galin Gæsahúð

Nú veit ég ekki hvort það er rétt að skólasafnkennarar og bókasafnsfræðingar séu farnir að fela bækur Helga Jónssonar vegna kafla í unglingabók þar sem vampíra áreitir unglingsstelpu. Ef svo er, eru það hryggilegar fréttir. 

Ég hef ekki lesið hina umdeildu bók en miðað við þessa lýsingu gengur ýmislegt á:

„Dæmi um þetta er bókin Villi vampíra en á þeim 147 síðum (með stóru letri) sem sagan nær yfir hefur aðalpersónan lent í sifjaspelli, tilraun til nauðgunar, hjónaskilnaði foreldra sinna og framhjáhaldi á báða bóga, nektarmyndatökum og fjárkúgun í framhaldi af því, að ónefndri fjöldamorðplágu sem gengur um Akureyri, heimabæ hennar, og beinist meðal annars að henni.“

Þessa umræðu má nálgast úr mörgum áttum. Í fyrsta lagi má ræða um þessa bók og þessar bókmenntir út frá gæðum þeirra. Sjálfur hef ég ákveðna samúð með þeim punkti. Síðastliðið ár hef ég farið reglulega með syni mínum á bókasafn til að sækja kvöldlestur. Hann hefur sótt nokkuð stíft í bækur eftir óhemju afkastamikinn íslenskan höfund (ekki Helga Jónsson). Ég hef átt erfitt með það því bækurnar eru í flestum tilfellum ægilegt rusl – illa skrifaðar og heimskulegar. Ég hef staðið mig að því að hugsa safninu þegjandi þörfina að vera að halda svona drasli að krökkunum. Miðað við lýsingar virðist Gæsahúðabálkurinn vera af þessu tæi.

En það er ekki þess vegna sem bókaverðir eru nú að tæta bækurnar úr hillunum. Þær virðist eiga að taka úr umferð vegna þess að umfjöllunarefnið er ekki við hæfi barna – eða vegna þess að í þeim birtist óholl viðhorf.

Fyrra atriðið er að mínu mati fráleitt. Svo lengi sem fólk er barið og því er nauðgað eiga að vera til bækur þar sem fólk er barið og nauðgað. Ungmenni mega og eiga helst að lesa slíkar bækur. 

Þá verður að gera tvennan greinarmun. Það má ekki gera ráð fyrir því að bækur séu samansafn óra höfunda þeirra. Halldór Laxness lét Bjart káfa á dóttur sinni. Það gerir Halldór ekki að vondum manni. Þvert á móti gerir það hann að góðum höfundi. Sjálfstætt fólk væri ekki jafn sönn án þess.

Þá verður að gera greinarmun á fantasíu og veruleika. Nú veit ég ekki hvaða viðhorf vampírur hafa til nauðgana – en hvert sem það er, má eiginlega ganga út frá því að verulega vafasamt sé að heimfæra það upp á fólk. 

Jafnvel þótt óholl viðhorf birtist í bókmenntum verður að hafa í huga að slíkt þarf einfaldlega að umbera. Sérstaklega í bókmenntum sem ætlaðar eru unglingum. 

Fyrir nokkrum árum söngluðu íslenskir unglingar:

Elskum dörtí gellur, hvað hélstu?
Segðu það Erpur
Við elskum þessar mellur
Við viljum auðveldar stelpur
Segðu það Erpur
Við elskum þessar mellur

Og fyrir mánuði eða svo kom í ljós að uppáhaldslag sex ára sonar míns er Reykjavík er okkar! En þar er bæði sungið um Sólheimaglott og leikandi greddu. Það lag lærði hann í skólanum þvert á tilraunir mínar til að heilaþvo hann með „æðri“ tónlist (lesist: tónlist sem ég ólst upp við).

Í kvöld horfðum við feðgar svo á nokkra keðjureykjandi smástráka sem æfðu vasaþjófnað dansandi í kringum skrumskælingu á Gyðingi í söngleiknum Oliver!

Allt er þetta í góðu lagi. 

Ég þori næstum því að fullyrða það að gæði viðhorfa og smekks fullorðinna ráðist ekki af hreinleika þeirrar menningar sem viðkomandi ólst upp við – þvert á móti af breidd hennar og fjölbreytni.

Þegar ég var sjö ára las kennarinn fyrir okkur Enid Blyton í frímínútum. Þaðan útskrifaðist ég í Morgan Kane, Sven Hassel og Alistair Maclean. Megnið af þessu öllu var og er auðvitað rusl. Fordómafullt og ofbeldiskennt. En þetta var vinsælt rusl. Alveg eins og Ísfólkið, Fast & the Furious og Game of Thrones.

Börn þurfa fyrst og fremst að lesa. Og lesa mikið. Þannig þroska þau með sér smekk. Sá einn sem les miklu fleira en gott er hefur raunhæfa möguleika á að þróa með sér þá færni sem þarf til að gera bókmenntir að raunverulegri nautn.

Og þessar Gæsahúðabækur verða ekki sakaðar um að draga úr lestraráhuga. Vinsældir þeirra eru/voru ótrúlegar. 

Það vinnst ekkert með því að farga þeim eða bannfæra – en allt vinnst með því að standa enn betur að barnabókaútgáfu og þýðingum. Við hlið Gæsahúðabókanna þurfa að vera perlur. Börn sem komin eru á bragðið þurfa líka að fá nasaþefinn af gæðum. Ef við gefum þeim hann má treysta því að þau rati restina.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu